Ósanngjarn leikur

eftir Kristinn Ingi Jónsson

Tillaga nefndar um bætt rekstrarumhverfi fjölmiðla þess efnis að Ríkisútvarpið verði tekið af auglýsingamarkaði eru orð í tíma töluð. Allt of lengi hefur ríkisfjölmiðillinn, sem nýtur ríkulegra styrkja af almannafé, fengið að keppa án nokkurra hamla við sjálfstæða fjölmiðla um sölu auglýsinga í sjónvarpi og útvarpi. Er nú svo komið að Ríkisútvarpið er eini ríkisfjölmiðillinn í vesturhluta Evrópu sem bæði nýtur milljarða króna meðgjafar frá skattgreiðendum og fær að starfa að því er virðist óáreittur á auglýsingamarkaði. Leikurinn er augljóslega ójafn.

Tillaga nefndarinnar sprettur ekki úr tómarúmi. Þvert á móti. Flestir sjálfstæðir fjölmiðlar hafa á undanförnum árum barist í bökkum. Áskriftartekjur hafa almennt farið þverrandi vegna breyttrar hegðunar nýrrar aldamótakynslóðar og þá hafa erlendir risar á borð við Facebook og Google auk þess sótt af hörku inn á innlendan auglýsingamarkað. Fíllinn í stofunni er hins vegar eftir sem áður Ríkisútvarpið.

Flestir stjórnmálamenn tala á tyllidögum um mikilvægi frjálsrar samkeppni. Þeir hafa til að mynda lögfest strangar samkeppnisreglur og falið sérstökum eftirlitsstofnunum víðtækt vald til þess að grípa inn í rekstur fyrirtækja, ef ástæða þykir til, undir því yfirskyni að tryggja þurfi heilbrigða samkeppni og koma í veg fyrir skaðlega fákeppni.

Reyndin er hins vegar önnur, eins og forréttindastaða Ríkisútvarpsins sýnir svo glöggt. Í stað þess að draga úr umsvifum ríkisfjölmiðilsins hafa stjórnvöld haldið áfram að ausa í hann fé og heldur bætt í, ef eitthvað er, og lagt þannig grunn að frekari sókn Ríkisútvarpsins gegn sjálfstæðum fjölmiðlum.

Sú samkeppni á sér ýmsar birtingarmyndir. Það er ekki nóg með að vera fjölmiðilsins á auglýsingamarkaði valdi því að einkareknir fjölmiðlar verði af umtalsverðum tekjum, en tekjur Ríkisútvarpsins af auglýsingum og kostunum voru ríflega 2,2 milljarðar árið 2016, heldur hefur hann einnig þrýst upp verði á erlendu sjónvarpsefni með því að bjóða – í krafti yfirburðastöðu sinnar – morðfjár í slíkt efni.

Seglin dregin saman

Brotthvarf Ríkisútvarpsins af auglýsingamarkaði myndi því ljóslega bæta samkeppnisstöðu frjálsra fjölmiðla gagnvart ríkisvaldinu og gera þeim lífið ögn auðveldara. Eða líkt og Samkeppniseftirlitiðið orðaði það í áliti sínu árið 2008:

„Færi stór aðili eins og RÚV út af auglýsingamaraði myndi, að minnsta kosti í eðlilegu efnahagsumhverfi, skapast svigrúm fyrir aðra að fóta sig á markaðinum og nýta sér það tóm sem skapaðist við brotthvarf RÚV. Myndi það án efa efla samkeppni og fjölga valkostum neytenda.“

En brotthvarfið yrði þó að vera með því skilyrði að dregið yrði saman í rekstri ríkisrisans sem nemur tekjumissinum en útvarpsgjaldið ekki hækkað. Slíkt myndi kalla á brýna og löngu tímabæra endurskipulagningu og endurskilgreiningu á hlutverki Ríkisútvarpsins í gjörbreyttum fjölmiðlaheimi.

Kristinn Ingi Jónsson

Pistlahöfundur

Kristinn Ingi er laganemi við Háskóla Íslands og viðskiptablaðamaður á Fréttablaðinu. Skrif hans í Rómi beinast helst að stjórnmálum, viðskiptum, lögfræði og hagfræði.