Orðræða um orðræðuna

eftir Oddur Þórðarson

Skæruvíxlun, dagvíxlun, úrvalsvísitala, millibankamarkaður, ríkisskuldabréf, markaðsskuldabréf, „venjuleg“ skuldabréf, kauphallarsjóðir, vogunarsjóðir, vísitölusjóðir, verðbréfasjóðir, sjóðasjóðir.  Allt eru þetta orð sem ég hef hnotið um á síðustu vikum eftir að ég ákvað að skrifa pistil um flókin orð, nánar tiltekið úr heimi viðskiptanna. Á hverjum degi sjáum við fréttir af auknum umsvifum einhvers fyrirtækis, stöðu einhverrar vísitölu, hagnað einhvers sjóðs og tap einhvers annars konar og örðuvísi sjóðs o.s.frv. Sum hugtökin þekkjum við án nokkurra herkja, önnur segja sig svolítið sjálf en enn önnur eru manni gjörsamlega óskiljanleg. Orðin hér í upphafi eiga nákvæmlega það sameiginlegt: ég skil ekkert hvað þau þýða. Samt virðast þau voðalega mikilvæg. Þessum mikilvægu orðum virðist svo hent af handahófi í fréttir og pistla um álíka mikilvægt fólk í álíka mikilvægum stöðum hjá álíka mikilvægum stofnunum og fyrirtækjum. Hvernig má það vera að hugtök, sem virðast svo mikilvæg í okkar lífi, séu jafntorskilin og þau eru?

Metadiskúrs

Metadiskúrs (e. metadiscourse) þýðir í eins mögulega stuttu máli og hægt er: „orðræða um orðræðuna“, þ.e. þegar við ræðum okkar á milli um það hvernig við ræðum okkar á milli. Ég hef lengi pælt í metadiskúrs viðskiptanna og tilurð hugtakanna sem þar finnast. Ég hef oft rætt þetta við vin minn, hann er verðandi íslenskufræðingur. Báðir erum við sammála um að orðræðunni í viðskiptum sé beitt eins og annarri orðræðu, til þess að viðhalda yfirráðum yfir þeim sem orðræðuna ekki skilja. Það kann að vera að lesendur Róms séu mér og vini mínum ekki sammála í þessu, en gott og vel. Ég tel að dulin virkni þessara orða, sem ég taldi hér upp áðan, sé að flækja fræðaheim viðskiptanna í þeim tilgangi að gera hann óaðgengilegri, þó svo að á yfirborðinu sé tilgangur þessara orða að skilgreina einhver fyrirbæri í viðskiptum. Orðin sem við notum um hluti og merkingin, sem við leggjum í þau, eru lyklarnir að því að skilja samhengið sem orðin eru sett í. Ef orð eru svo flókin að erfitt er að skilja þau um leið og maður sér þau, er líklegt að maður skilji ekki samhengið sem þessi flóknu orð eru sett í. Þannig lokast heill umræðuvettvangur fyrir stórum hópi fólks. Þessi sami hópur er samt þrátt fyrir allt, sífellt minntur á hversu umræðan, sem þeim er svo að segja meinaður aðgangur að, sé mikilvæg fyrir þau og þeirra hag. Orð eru valdatæki og þau eru notuð sem slík.

Orðræðu er beitt alls staðar

Stundum hefur viðskiptum og fræðum þeim tengdum verið stillt upp sem andstæðu lista, menningar og hugvísinda. Enda er það líka auðvelt. Margir myndu eflaust segja að orðræða lista og menningar sé alveg jafntorskilin og orðræða viðskiptanna. Enda er það líka rétt. Allskonar -ismar, stefnur og straumar, sem fyrirfinnast bara í bókmenntum, myndlist, arkítektúr og þvíumlíku, loka umræðunni fyrir þeim sem ekki skilja um hvað verið er að tala. Þeir sem ekki skilja listir og menningu eru stundum úthrópaðir illa upplýstir, heimskir, hluti ákveðinnar lágmenningar o.s.frv. Þannig er fólk jaðarsett af þeim sem stýra orðræðunni um listir og menningu alveg á sama hátt og þeir sem jaðarsettir eru af þeim sem stýra orðræðunni um viðskipti og slíka hluti. Svona hefur þetta lengi verið. Þetta er grundvöllur snobbs og stéttahaturs og mér finnst persónulega ógeðslegt að kúga aðra með þessum hætti.

Það er líkt og „stjórnendur“ orðræðunnar (þá á ég við um orðræðu innan allra samfélagskima) ráði því hvað sé sagt, hvernig það sé sagt, hverjir mega segja það, hvenær og við hverja. Þetta kann að hljóma kunnuglega. Margir vilja meina að „góða fólkið“ stjórni orðræðunni á Íslandi og að hér megi ekkert orðið segja eða gera. Það er góð og gild skoðun en alls ekki það sem ég á við. Það að „stýra orðræðunni“ segir minna til um hvort segja skuli eitthvað ákveðið af því það særir einhvern minnihlutahóp minna en ella, og meira um hvort einhver hugsunarháttur eða orðfæri sé almennt séð vitlaus eða rangur í einhverju skyni, þrátt fyrir að bókstaflega ekkert  bendi til þess að svo sé.

Með því að segja að það þyki ekki fínt að kaupa listaverk eftir Tolla væru stjórnendur orðræðunnar um list og menningu að jaðarsetja þá sem þykir það bara ansi fínt. Með því að tala við viðskiptavini sína á flóknu bankamáli, sem fáir aðrir en þeir sem skópu málið skilja, reynir viðskiptabanki að telja kúnnum sínum trú um  að þessi sparnaðarleið sé betri en einhver önnur, svo dæmi séu tekin. Ef kúnninn skilur ráðgjafann sinn hjá bankanum ekki nema til hálfs vegna þess hve flókin hugtök hann notar og hversu miklu hann valdi beitir með orðum sínum þá er ekkert skrýtið að kúnninn fari bara að ráðum hans. Ráðgjafinn er augljóslega klárari og hlýtur að vita betur.

Skoðanir án grundvallar

Að stjórna orðræðu er að beygja leikreglur orðræðunnar á þá leið að það sem þú segir virðist algildur sannleikur fyrir þeim sem minna skilja, án þess að hafa endilega grundvöll fyrir því. Listunnandi gæti auðveldlega sagt við einhvern, sem minni áhuga hefði á listum, að verk eftir málarann Tolla væru sko alger listleysa og lágmenning. Yrði merkikertið svo spurt að því hvers vegna svo væri, stæði sennilega á svörunum. Ef svörin kæmu þá yfirleitt væru þau líklega á þá leið að „svoleiðis væri það bara“ eða að „allir sem eitthvað vit hefðu á list gætu séð það“. Þarna er listunnandinn búinn að koma sínum skoðunum í fyrsta sæti til þess að líta út fyrir að vera einverju merkilegri en sá sem við hann talar.    

Rangt mál

Önnur birtingarmynd þess að orðræðunni sé stjórnað er hvernig við refsum fólki fyrir að „tala rangt“. Þetta er í raun mun almennara og ekki eins bundið við einhvern kima samfélagsins. Ef einhver segir „mig hlakkar“ eða „mér langar“ þá segjum við flest að hann hafi rangt fyrir sér. Svona skuli hann ekki tala. Þarna værum við strax farin að setja þessum einstaklingi skorður. Svona skal hann sko ekki orða það sem hann ætlar að segja. Svona skal hann ekki setja fram hugmyndir sínar. Hann skal gera það eftir mínu höfði af því ég lærði það þannig. Auðvitað er það mörgum hugleikið að varðveita íslenska tungu, en það að skamma fólk fyrir að segja eitthvað örlítið öðruvísi en þú segir það,  af því þú ert svo „vel menntaður“ eða „vel að máli farinn“, fær fólk ekki til þess að fá áhuga á varðveislu íslenskrar tungu. 

Þetta gerum við í víðari skilningi líka.  Við segjum fólki að einhver ákveðinn hugsunarháttur, þessi orðaforði og svona talsmáti sé réttur til þess að tala um eitthvað viðfangsefni. Sums staðar er það auðvitað beinlínis nauðsynlegt að einhver formlegur rammi sé til staðar utan um það mál sem við notum. En í mörgum tilfellum meinum við fólki að tjá sig um einhver málefni ef það „kann ekki að tala um það“ svo að segja. 

Hvað meina ég?

Það er ekki ætlun mín að hvetja fólk til þess að hætta að „jaðarsetja“ fólk með því að beita valdi sem felst í því orðfæri sem það notar – það væru ódýr skilaboð. Ég vildi einfaldlega vekja athygli á því að einhver gæti mögulega verið að beita þig ógnarvaldi með því að segja þér að svona skulu hlutir ekki orðaðir eða að þín hugmynd um hvernig eitthvað sé, sé verr fram sett og vanþróaðri en einhver önnur.  Orðræðuvaldið er eitt sterkasta valdið sem við beitum hvert annað en á sama tíma eitt það duldasta. Það er í raun svo dulið að erfitt er að tala um það. Mér finnst ég t.a.m. bara vera kominn út á villigötur sjálfur – ég ætlaði í fyrstu bara að tala um hversu óskiljanleg einhver hugtök úr heimi viðskiptanna væru. Getur verið að orðræðan um orðræðuna sé svo óljós og snúin að maður hafi ekki einu sinni tækin (orðin) til þess að ræða um hana, nema maður stjórni henni? Kannski er þá tímabært að ljúka þessum pistli bara. 

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.