Orðin sem komu of seint

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

Um daginn heyrði ég umfjöllun í útvarpinu um að minningargreinar væru séríslenskt bókmenntaform og það vakti áhuga minn. Íslendingar eru mjög duglegir að skrifa um ástvini sem hafa fallið frá en á hverjum degi eru allt að 10 blaðsíður í Morgunblaðinu tileinkaðar minningargreinum. Greinum sem eru skrifaðar í minningu einhvers sem er látinn. Minningar um manneskju sem getur aldrei lesið það sem um hana er sagt.

Í sömu umfjöllun í útvarpinu sagði stjórnsýslufræðingur að það væri mjög áhugavert að skoða minningargreinar út frá persónuverndarlögum. Í þeim koma jú oft fram minningar um manneskju sem getur hvorki lesið það sem um hana er sagt né svarað því á nokkurn hátt.

Upplifun ólíkra aðila á okkur er ekki sú sama. Hvað þá hvernig við upplifum okkur sjálf. Þannig gætu verið skrifaðar 10 minningargreinar um mig þegar ég dey, allar ólíkar. Og líklega yrðu þær allar mjög frábrugðnar þeirri sem ég myndi skrifa ef ég skrifaði minningargrein um sjálfa mig.

Sendibréf til hins látna

Í meistararitgerð Guðrúnar Ólu Jónsdóttur (2014) sem ber heitið „Loksins færðu bréf frá mér“ sýna niðurstöðurnar fram á að skrifaðar eru minningargreinar um hærra hlutfall látinna en áður, fjöldi minningargreina um hvern látinn einstakling fer vaxandi, skrifað er um fleiri konur og nánustu ættingjum fjölgar í hópi höfunda. Þá eru minningargreinarnar orðnar persónulegri en áður.

Áður fyrr birti Morgunblaðið ekki greinar þar sem hinn látni var ávarpaður beint í 2. persónu, en þeim reglum var breytt árið 1994. Var það gert til að komast til móts við vilja höfunda minningargreina. Eftir að reglunum var breytt fóru höfundar að ávarpa hinn látna í meiri mæli í 2. persónu og fóru greinarnar jafnvel að líkjast sendibréfum sem innihéldu skilaboð sem höfundar vildu koma áleiðis til hins látna.

Sendibréfaformið hefur sætt gagnrýni fyrir að vera mjög persónulegt. Fólk á gjarnan auðveldara með að tjá sig í bréfi og með því að skrifa bréf á það kost á að skrifa sig frá tilfinningum sínum og koma jafnvægi á hugðarefni sín. Sumir telja slíkt efni þó ekki eiga erindi við almenning.

Skilaboð og úrvinnsla tilfinninga

Sumir lesa reglulega minningargreinar, jafnvel um fólk sem það hefur aldrei þekkt. Ég hef nokkrum sinnum lesið slíkar greinar. Þegar einstaklingur verður bráðkvaddur eiga minningargreinar til að endurspegla það hve skyndilega viðkomandi féll frá og minna greinarnar þá gjarnan á skilaboð til hins látna sem aldrei náðu að vera sögð. Einnig koma slík skilaboð gjarnan fram í greinum þar sem áður sterkt samband er orðið stopult og má jafnvel lesa iðrun eða eftirsjá í textanum.

Þegar ég gróf upp minningargreinina sem ég skrifaði um ömmu mína heitinna við gerð þessa pistils, kom ég auga á textabrot fyrir neðan greinina sem ég birti aldrei almenningi. Mér brá heldur, því um var að ræða ákveðið uppgjör í garð ömmu gömlu.

„Amma hafði lengi verið veik en hún þjáðist af Alzheimers-sjúkdómi. Hún þekkti mig ekki lengur þegar ég kom í heimsókn en hún brosti stundum þegar hún sá mig. Brosið var þó fljótt að hverfa því hún vissi ekki hvað hún ætti að gera næst. Þess vegna þótti mér einfaldast að knúsa hana og kyssa oft í sömu heimsókninni því ég vissi að það þætti henni gott. Hún var svo mikið fyrir mannlega snertingu. Ég strauk henni um hárið og kinnarnar og hélt í hendurnar á henni en sagði lítið, sat bara þarna og brosti framan í hana til að reyna að sýna henni að ég væri einhver sem þætti vænt um hana. Ég skammaðist mín fyrir hvað ég heimsótti hana sjaldan. En það var bara nógu andskoti erfitt.“

Margar minningargreinar eru því sögur af manneskju, orð til hennar eða um hana sem hún fékk aldrei að heyra. Oftast er um jákvæðar minningar að ræða og fallega talað til viðkomandi. Þessar greinar eru því oft mjög fallegar lesturs en hið sorglega er að hinn ávarpaði fær þær aldrei lesið.

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.