Önnur faste1gn

eftir Kristófer Már Maronsson

Deilihagkerfið er frábær viðbót við þann raunveruleika sem við búum við. Betri nýting á húsum, bílum og öllu sem þér gæti dottið í hug er svo sannarlega til bóta fyrir hinn almenna leikmann. Þó hefur orðið sú neikvæða þróun að fólk sér ekki muninn á deilihagkerfinu og svonefndu skuggahagkerfi – en það síðara virðist í sumum tilfellum hljóta nafnbót þess fyrra. Fólk talar um deilihagkerfi en lýsir skuggahagkerfinu. Skuggahagkerfið er oft kallað undirheimarnir þegar rætt er um eiturlyfjaviðskipti hér á Íslandi, en skuggahagkerfi er í raun hagkerfi sem stjórnvöld koma ekki nálægt, starfsemin og viðskiptin sem eiga sér stað eru ekki gefin upp til skatts. Í ár samþykkti Alþingi breytingar á lögum nr. 85/2007 sem tekur m.a. á heimagistingu og nú er atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að óska eftir umsögnum um reglugerð með lögunum. En áður en við gerum fleira skulum við skoða tilgang deilihagkerfisins.

Tilgangurinn með deilihagkerfi

Tilgangur deilihagkerfis að nýta betur þá hluti sem við notum nú þegar. Hvort sem það er bíllinn þinn, húsið eða sláttuvélin. Airbnb byrjaði fyrir slysni með því að tveir herbergisfélagar gátu ekki borgað leigu og leigðu út þrjár vindsængur, fyrir 80 bandaríkjadollara á haus. Þeir settu upp vefsíðuna airbedandbreakfast.com, en hún var stytt niður í airbnb.com til þess að gera tenginguna við vindsængur (e. air mattresses) óljósari. Þetta hefur þróast, ekki löngu síðar leigði maður í fyrsta skipti út heilt hús, en ekki bara pláss á heimili sínu – en á Íslandi eru 71% gestgjafa að leigja út heila íbúð. Þróunin er að mínu mati slæm fyrir borgir sem glíma við húsnæðisskort, eins og Reykjavík gerir í dag.

Við hljótum því öll að geta verið sammála að talað sé um heimagistingu sem part af deilihagkerfinu þegar þú leigir út heimili þitt þegar þú ert ekki heima hjá þér, því þá getur einhver annar notað það. Takið eftir, þegar þú ert ekki heima hjá þér. Það væri þá að öllum líkindum lögheimili þitt sem um ræðir – en sumarbústaður kemur einnig til greina, eigir þú slíkan. Það er hægt að afla miklum tekjum með þessari þjónustu, þar sem ferðamenn eru tilbúnir að borga hærra verð á hverja nótt heldur en leigjandi sem borgar mánaðarlega leigu með langtímasamningi og kostnaðurinn er lægri heldur en kostnaður við hótelrekstur.

Tilgangurinn með deilihagkerfinu er ekki sá að þú kaupir fleiri fasteignir og byrjir að leigja þær út, eða kaupir þér nýja bíla til þess að leigja út. Þá er rétt að kalla það atvinnurekstur, en ef þetta er gert undir nafni deilihagkerfisins þá er réttara að kalla það skuggahagkerfi – því fæstir borga skatta í samræmi við almennan atvinnurekstur. Það er m.a. vegna þess að fasteignaskattur er lægri á íbúðarhúsnæði (0,2%) heldur en á hótel (1,65%). Gróflega áætlað m.v. 20 m. kr. meðalverðmæti fasteignar í Reykjavík og þær 3.049 íbúðir sem eru til útleigu á Airbnb í Reykjavík er borgin að verða af 884 milljónum króna í fasteignagjöld á ári. Það munar um það fyrir rekstur borgarinnar, en auðvitað eru ekki allir með útleigustarfsemi allt árið. Eðlilegast væri að fasteignaskattur væri sá sami fyrir atvinnurekendur og húsnæðiseigendur.

Einnig er meirihluti annarrar gistingar en hótelgistingar óskráð gisting samkvæmt úttekt Arion Banka, eða heil 42% af öllum gistinóttum síðasta árs. Þetta hefur verið viðvarandi vandamál í bransanum, jafnvel áður en airbnb varð stórt. Þrátt fyrir umræðuna um að hótel skjóti rótum sínum í öllum plássum borgarinnar, þá hefur markaðshlutdeild hótelgistingar minnkað en óskráð gisting aukist.

arion

Það er auðvelt að misnota deilihagkerfið, líkt og gert er, með því að kaupa eignir og leigja þær út allan ársins hring á airbnb, án þess að nokkur búi í þeim. Airbnb og sambærilegar þjónustur virðast þó ekkert á móti þeirri þróun sem orðið hefur, en hún er slæm fyrir fasteignamarkaðinn og ungt fólk í landinu. Þjónusturnar græða á kostnað þeirra sem vilja kaupa sér húsnæði. Aðeins 1.223 aðilar greiddu gistináttaskatt á síðasta ári samkvæmt Ríkisskattstjóra. Þar eru taldir allir rekstraraðilar, stórir sem smáir og um allt land. Það sýnir svart á hvítu hvernig starfsemin er, en ég minni á höfuðborgarsvæðinu einu eru skráðar yfir 3.000 íbúðir á airbnb samkvæmt airDNA.co.

Önnur faste1gn

Það er sorglegt fyrir ungt fólk að sjá að Alþingi samþykkti breytingar á lögum nr. 85/2007 á þann veg að þú megir leigja út lögheimili þitt auk einnar annarrar fasteignar, en það brýtur í bága við upphaflegan tilgang deilihagkerfisins og heldur þeirri ömurlegu þróun áfram, nema auðvitað að sé verið að tala um sumarhús. Því þykir mér eðlilegt og mikilvægt að reglugerðin kveði skýrt á um það, að þú megir leigja út lögheimili þitt auk sumarhúss. Þetta er þversögn við stefnu stjórnvalda um að reyna að auðvelda ungu fólki að eignast fasteign – að leyfa fólki að leigja út meira en lögheimili sitt til ferðamanna, því þessar auka íbúðir koma ekki inn á fasteignamarkaðinn á sama tíma.

Þessi fasteign mun halda áfram að stuðla að háu húsnæðisverði þar sem skortur er á húsnæði. Hinsvegar er þetta frábært fyrir fólk sem leigir t.d. námsmönnum utan af landi yfir vetrartímann, það getur þá hýst ferðamenn yfir sumartímann. Réttast væri þá samt sem áður að orða lögin á þann veg að þú getir leigt út annað hvort lögheimili þitt eða eina aðra fasteign – einungis eina fasteign. En það er bara vinsamleg ábending til nýkjörinna alþingismanna, þessu er hægt að breyta með nokkrum pennastrikum.

Almenningur njóti góðs af því að tilkynna um lögbrot

Mér þykir eðlilegt að ríkisskattstjóri setji upp vandaða vefgátt þar sem hægt er að tilkynna um einhvern sem er að brjóta lög og reglur um heimagistingu. Þar væri listi yfir alla með leyfisnúmer, heimilisfangið á hverju leyfisnúmeri og allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að fylgjast með. Þetta myndi auðvelda eftirlitsstarfsemi ríkisskattstjóra og hægt væri að greiða þeim sem fyrstur bendir á lögbrot í gegnum vefgáttina umbun, einhvern hluta af sektinni sem viðkomandi hlýtur fyrir lögbrotið, t.d. 1/10 hlut af sektum. Sparnaður eftirlitssaðila er mikill og fólk getur aflað sér aukatekna með því að tilkynna um lögbrot, sem býr til hvata til þess að tilkynna. Ég átta mig á því að það þarf að hafa einhverjar hömlur svo að ekki flæði inn tilkynningar, þú þyrftir að fá sekt eftir ákveðið margar falskar tilkynningar til þess að koma í veg fyrir slíkt.

Lifi deilihagkerfið

Ég er mikill aðdáandi deilihagkerfisins, ég vona að það sé komið til að vera í þeirri mynd sem það nýtist best. Það er mikilvægt að fólk læri muninn á deilihagkerfi og skuggahagkerfi, Airbnb og sambærilegar síður eru frábær leið fyrir landið til þess að geta tekið á móti fleiri ferðamönnum og almennan leikmann til þess að auka aðeins við tekjurnar og gera fríið ódýrara, með því að fá tekjur af heimili sínu á meðan. Hinsvegar er rétt að passa upp á að fólk spili eftir leikreglunum, að leikreglurnar séu sanngjarnar og erfitt sé að misnota þær. Það er ekki alveg rétt að kalla leigu á húsnæði til ferðamanna hluta af deilihagkerfinu eingöngu vegna þess að það er gert í gegnum airbnb eða sambærilegar leigumiðlanir.

Það sem birtist hér að ofan eru persónulegar skoðanir höfundar en endurspegla ekki skoðanir vinnuveitanda hans né annarra.

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.