Ómi Rómur

eftir Ritstjórn

Rómverjar stökkva í dag af spjöldum sögunnar og birtast netverjum nú í líki pistlahöfunda. Samfélagsumræða samtímans einkennist í of miklum mæli af íhaldssemi auk hugsjóna um framsal ábyrgðar og sjálfstæðis til ríkisvaldsins. Rómverjum er það dulin ráðgáta hvers vegna frjálslyndar skoðanir skipi ekki stærri og þýðingarmeiri sess í opinberri umræðu. Því freista þeir þess að ráða bót á því ástandi sem hefur skapast hér á landi og leggja frjálslynd gildi til umræðunnar með rökfastri skynsemishyggju.

Rómur er þannig hugsaður sem mótvægi við þeim jaðarskoðunum sem flesta dálka hafa fengið í dagblöðum landsins og flætt yfir bakka athugasemdakerfanna. Um leið er miðillinn tækifæri fyrir ungt fólk til þess að skipa sér sess og hefja upp raust sína.

Umræðan á alvefnum hefur auðveldað óprúttnum aðilum að bregða sér í allra kvikinda líki, þá helst í gervi trölla sem skeyta litlu um staðreyndir. Skrif þeirra standa í flestum tilfellum óáreitt um ókomna tíð. Slíkt býður upp á að misskilningur verði algengasti skilningurinn, líkt og góður maður hafði að eitt sinn orði, en nú er sá vettvangur sjaldséður þar sem því má treysta að staðreyndir búi að baki skoðanaskrifum. Rómverjar snúa vörn í sókn og gæta þess í hvívetna að skoðanir séu mótaðar með gagnrýnni hugsun og að fagmennska verði höfð að leiðarljósi.

Pistlahöfundar eru víðfemur hópur ungs fólks með fjölbreytt áhugasvið og búast má við að þeir láti fáa kima samfélagsins ósnerta. Í hópi Rómverja má finna afbrotafræðing, hagfræðing, hjúkrunarfræðinema, jarðfræðinema, stjórnmálafræðing, verkfræðing, læknanema, laganema, sálfræðinema, og framhaldskólanema. Stefnan er að vikulega birtist að lágmarki þrír pistlar Rómverja, á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum, auk ritstjórnargreinar á sunnudögum. Jafnframt mun listrænum gildum vera gert hátt undir höfði en reglulega birtast myndaseríur frá ljósmyndurum Róms.

Í dag ómar Rómur í fyrsta sinn. Megi hann bylja sem hæst í eyrum þeirra sem leið eiga um netheima.

Ljósmyndir teknar af Håkon Broder Lund

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.