Öll þekkjum við konur

eftir Oddur Þórðarson

Frá og með liðnum áramótum verður skimun fyrir brjóstakrabbameini færð úr höndum leitarstöðva Krabbameinsfélagsins og yfir á forræði hins opinbera. Þetta er gert samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra frá árinu 2019. Það sem einnig breytist er að konur á aldrinum 50-74 ára verða nú boðaðar í brjóstaskimun en ekki konur á aldrinum 40-69 ára eins og verið hefur. Það er án efa fagnaðarefni að konur allt að 74 ára verði nú boðaðar í skimun fyrir brjóstakrabbameini, en hvað verður um konur á aldrinum 40-49 ára?

Í viðtali við Morgunblaðið segir Elín Sandra Skúladóttir, formaður Krafts, stuðningsfélags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þeirra, að ungar konur fái oft verra krabbamein og því séu lífslíkur þeirra alla jafna minni en hjá eldri konum sem greinast með vægara krabbamein. Þá segist hún vita til margra kvenna sem fá brjóstakrabbamein á þannig stöðum, að erfitt hefði verið að greina það nema með reglubundinni skimun. Þær konur voru rétt yfir fertugu. Þegar kemur að því að berjast við krabbamein þá eru 10 ár langur tími. Á hverju ári greinist að meðaltali 31 tilfelli brjóstakrabbameins hjá konum á aldrinum 40-49 ára, sé miðað við tölur frá árunum 2015-2019.

Í áliti skimunarráðs frá 2019 segir að með ákvörðun um að breyta aldurshópi kvenna, sem boðaður sé í skimun fyrir brjóstakrabbameini, sé verið að færa fyrirkomulag skimana hérlendis nær því sem Evrópureglur um skimanir kveða á um. Það er eflaust gott og blessað en fá rök má finna fyrir því af hverju þetta er gert.

Eins og kemur fram í tilkynningu á vef Krafts um málið krefjast stjórnarmenn í Krafti skýringa á því fyrir sína félagsmenn, af hverju verið er að breyta þessu á þennan veg. Þetta er drastískar breytingar og á þeim hljóta að vera nokkuð eðlilegar skýringar.

Ég ætla að láta allt ósagt um ágæti eða galla þess að færa skimanir fyrir krabbameinum inn í almennt heilbrigðiskerfi eða þá ágæti og/eða galla þess að fylgja „Evrópureglum” (eins og það er alltaf bara orðað í áliti skimunarráðs). Hins vegar fæ ég ekki séð að nokkurt ágæti felist í því að hætta að skima konur á aldrinum 40-49 ára fyrir brjóstakrabbameini, við þá ákvörðun sé ég aðeins galla. Ég skil að einhvers staðar verði mörkin að vera, en til hvers að hætta skipulagðri skimun þessa aldurshóps bara svona allt í einu?

Vissulega geta konur að öllum líkindum enn pantað tíma í skimun en samkvæmt orðum Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins, er óvíst að nægilega vel sé staðið að upplýsingjagjöf til kvenna um hvernig því verði háttað. Hún kallar eftir auknu samtali milli þeirra sem skimanirnar framkvæma og þeirra sem hana þiggja.

Ég mun vonandi aldrei þurfa að fara í skimun fyrir brjóstakrabbameini þar sem konur eru um hundraðfalt líklegri til þess að greinast. En ég á ömmu, mömmu, systur, frænkur, vinkonur, samstarfskonur og allar þessar konur eiga sömuleiðis ömmur, mömmur, systur, frænkur, vinkonur o.s.frv. Þannig snerta þessi mál okkur öll.

https://www.change.org/p/svand%C3%ADs-svavarsd%C3%B3ttir-endursko%C3%B0um-n%C3%BDjar-reglur-um-krabbameinssko%C3%B0anir-kvenna?recruiter=1104683224&utm_source=share_petition&utm_medium=facebook&utm_campaign=psf_combo_share_abi&utm_term=psf_combo_share_initial&recruited_by_id=0d4fa050-a58f-11ea-9d96-5f12be39e759&utm_content=fht-26807363-en-us%3A6

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.