Olíuverð og olíuvinnsla

eftir Björn Már Ólafsson

Þótt Ísland sé ekki olíuríki, enn sem komið er alla vegana, þá hefur olíuverð gríðarleg áhrif á þjóðarbúskapinn. Lágt olíuverð hefur gagnast okkur talsvert á undanförnum misserum eins og Hagstofan hefur reglulega bent á. Olíuverðhrunið hefur aftur á móti neikvæð áhrif á efnahag margra ríkja. Hér verður útskýrt hvað orsakaði verðfallið, hvaða þættir hafa áhrif á olíuverðsveiflur og verður vöngum velt yfir því hvenær það mun ná fyrri hæðum á nýjan leik.

Flökti í olíuverði er oft lýst með hinni svokölluðu pork-cycle. Er það hagfræðimódel sem kennt er við flökt í verði á svínum í Bandaríkjunum á millistríðsárunum. Kenningin byggir í einfaldri mynd á því að þegar verðið er hátt er meiri fjárfesting í greininni. Þegar verðið fellur halda fjárfestar að sér höndum og vanfjárfesting verður. Leiðir það til þess að verðsveiflur eru meiri en ella.

Þannig má útskýra það sem átt hefur sér stað í olíuiðnaðinum á undanförnum árum. Olíuverðið fór upp í 127 dollara á fatið árið 2012. Verðið tók svo að lækka en var þó enn 115 dollarar árið 2014. Síðan þá hefur verðið fallið niður í tæpa 29 dollara í byrjun árs áður en það tók að hækka að nýju og stendur það nú í um 47 dollurum.

Fallandi olíuverð hefur leitt til þess að fjárfestingar í iðnaðinum hafa dregist saman um 300 milljarða dollara frá árinu 2014. Talið er að samdráttur í olíufjárfestingum á næstu þremur árum verði meira en 1.000 milljarðar dollarar. Sem dæmi um áhrif fallandi olíufjárfestingar á iðnaðinn má nefna að aldrei hafa verið uppgötvuð færri ný olíusvæði árið 2015 frá árinu 1952 (ef litið er framhjá shale-svæðum sem vikið verður að hér á eftir).

Hversu langvarandi verða áhrif shale-olíunnar?

Slík vanfjárfesting mun hafa langtímaáhrif. Jafnvel þótt Bandaríkin hafi komist í afar ódýra olíu sem unnin er úr svokölluðum „shale” þá nær sú aukning í olíuframleiðslu ekki að bæta upp þá uppsafnaða fjárfestingaþörf sem skapast hefur þegar fram líða stundir. Sett fram á einfaldan hátt: Vinnsla úr shale nær ekki að bæta upp fyrir allt fallið í olíuframleiðslu annars staðar í heiminum.

Eitt af því sem talið er að leitt hafi til falls olíuverðsins er einmitt shale-vinnsla Bandaríkjamanna. Með ódýrum aðferðum gátu þeir farið að vinna gríðarlegt magn af olíu sem greiningaraðilar sáu ekki fyrir og allt í einu flæddi hræódýr olía inn á þegar mettaðan markað. Margir telja að með þessari nýju olíu sé ólíklegt að olíuverð muni aftur ná sömu hæðum og áður. Öðrum þykir það ólíklegt.

Olíuborpöllum í notkun fer ört fækkandi

Jarand Rystad rekur olíuráðgjafarfyrirtækið Rystad Energy sem heldur utan um einn stærsta gagnagrunn heims á sviði olíuvinnslu. Hann bendir á í nýlegu viðtali að fjárfestingin í shale-olíu sé ekki nægilega mikil. Olíufélögin hafi einfaldlega ekki bolmagn eða þor til þess að halda áfram nauðsynlegum fjárfestingum. Tölur fyrirtækisins sýna þetta. Árið 2014 voru 1925 olíuborpallar að störfum við shale-vinnslu í Norður-Ameríku. Nú eru þeir orðnir færri en 492. Bendir Rystad á að þeir borpallar sem nú eru að störfum séu þeir bestu á markaðnum og jafnframt staðsettir á bestu olíusvæðunum. En um leið og þeir bila eða krefjast viðhalds verður þeim skipt út fyrir eldri og lélegri borpalla með minni framleiðslugetu. Sumir spá því að 2016 muni olíuframleiðsla loks falla í Bandaríkjunum eftir uppganginn í shale-vinnslunnni.

Olíuborpallar skipta miklu máli þegar spáð er fyrir um olíuverð. Fjöldi borpalla, bæði á sjó og landi, standa nú ónotaðir. Fer það eftir eðli borpallanna hversu miklu tapi olíufyrirtækin verða fyrir af þeim sökum. Suma palla og sérstaklega þá sem smíðaðir eru fyrir olíuvinnslu á miklu dýpi er ekki hægt að draga til hafnar og festa þar heldur verður að geyma þá úti á hafi þar sem þeir brenna stöðugt olíu með tilheyrandi kostnaði.

Loksins er farið að ganga á birgðirnar

Annað sem hefur mikil áhrif á olíuverð eru birgðatölurnar. Offramboð sem leiddi til þess að olíuverð féll að lokum varð til þess að enn er til mikil olía á lager. Offramboð hefur verið á olíu í 12 ársfjórðunga. Þær tölur er oft erfitt að áætla og eru þær aðeins kynntar í ársfjórðungsskýrslum olíufyrirtækjanna. Fyrir nokkrum vikum hækkaði olíuverð um 2 prósentustig og var það einungis vegna nýrra birgðatalna frá bandarískum fyrirtækjum Í ljós kom að olíufyrirtækin eru nú loks farin að ganga á olíubirgðir sínar. Þannig minnkuðu olíubirgðar um 3,4 milljónir tunna en spáð hafði verið birgðaraukningu um 100 þúsund tunnur. Nú á komandi vikum eru olíufyrirtækin flest að birta nýjar birgðatölur og er talið að niðurstaðan verði svipuð og í Bandaríkjunum. Nú eru þau loks búin að klára offramleiðsluna og farin að ganga á birgðirnar.

Var samdrátturinn of mikill?

En hvernig lítur þá framtíðin út? Því hefur verið haldið fram að olíuframleiðsla sé eins og að aka bifreið nema að bensíngjöfin og bremsan virka ekki fyrr en fimm árum eftir að stigið er á pedalann. Hin mikla vanfjárfesting sem átt hefur sér stað í iðnaðinum verður til þess að það mun taka tíma áður en framleiðslan fer á fullt að nýju. Rystad segist í viðtalinu hafa áhyggjur af því hversu mikil vanfjárfestingin hafi verið. Olíufyrirtækin hafa einfaldlega ekki þorað að hefja framleiðslu nú en það hefði á margan hátt verið hið hagstæðasta. Olíuþjónustufyrirtæki eru mörg án verkefna og því hægt að kaupa ódýra þjónustu. Dæmi um þetta þekkjum við frá hinu íslenska fyrirtæki Fáfni Offshore. Fyrirtækið rekur þjónustuskipið Polarsyssel en skipið var sjósett á afar slæmum hvað olíuverð varðar. Samkvæmt nýjustu fréttum segist félagið þó hafa bolmagn til þess að standa af sér niðursveifluna í iðnaðinum og er það jákvætt. Uppsveiflan mun koma að lokum en það gæti tekið tíma.

Hið sama gildir um fyrirtæki sem byggja og hanna borpalla. Það tekur tíma að byggja borpalla og þegar smíði þeirra yrði lokið eru miklar líkur á því að verðið verði aftur búið að hækka. Rétti tíminn til að fjárfesta í borpöllum er því núna.

Spekilekinn getur reynst dýr

Þá er líka að eiga sér stað talsverður spekileki í iðnaðinum. Sérfræðingar á sviði olíu eru að yfirgefa iðnaðinn. Talið er að yfir 250 þúsund vel menntaðir starfsmenn sérhæfðir í olíu hafi þegar yfirgefið iðnaðinn á heimsvísu. Þegar olíufyrirtækin ætla að hefja framkvæmdir að nýju verða þau að yfirbjóða önnur fyrirtæki til að lokka verkfræðinganna aftur til sín. Það mun þrýsta upp kostnaðinum.

Líkt og kom fram að ofan varð ódýr vinnsla úr shale til þess að halda olíuverði lágu í ákveðinn tíma en þau áhrif munu fara minnkandi eftir því sem uppsöfnuð vanfjárfesting á heimsvísu gerir vart við sig. Þá hafa aðrir bent á Íran og telja að þegar olíuframleiðsla þar hefjist muni það verða til þess að halda verðinu niðri. Rystad segir áhrif Írans ofmetin. Vissulega séu talsverðar olíulindir þar að finna. Hins vegar eru þær margar hverjar í jarðlögum sem flókið er að bora í gegnum. Er skipting jarðlaganna með þeim hætti að oft verður að skipta um borhöfuð til þess að koma í veg fyrir yfirþrýsting og sprungur í jarðlögunum sem geta leitt til þess að jarðmyndanirnar sem geyma olíuna falli saman. Þá á enn eftir að byggja upp innviði í landinu til þess að hefja framleiðslu og koma olíunni á markað með ódýrum hætti. Nýlegar tilraunir Írana til að fá vestræna fjárfesta til liðs við sig hafa svo verið fálmkenndar.

Rystad spáir því að olíuverðið muni aftur fara yfir 100 dollara árið 2020. Með svo háu olíuverði verður hægt að taka í gagnið olíuvinnslusvæði með mun hærra break-even verð en þau sem eru nú unnin. Break-even verðið er það olíuverð sem verður að vera til staðar til þess að það borgi sig að hefja olíuvinnslu á tilteknu svæði. Nú á meðan verðið hefur verið lágt, hafa olíuframleiðendur einbeitt sér að svæðum með lágu break-even verði, til dæmis Johan Sverdrup-svæðið í Noregi sem býr yfir afar ódýrri olíu. Break-even verðið á því svæði er svo lágt sem 35 dollarar. Jafnvel þegar olíuverðið var sem lægst, borgaði það sig samt að skrúfa frá krönunum og dæla upp olíunni. Önnur dýrari svæði sem krefjast nýrri tækni hafa verið sett á ís hingað til, en viðbúið er að þau verði opnuð eitt af öðru á komandi misserum. Break-even verðið má þó ekki misskilja sem svo að um leið og olíuverðið fer undir break-even verðið þá sé framleiðslan stöðvuð. Olíufyrirtæki eru með flóknari útreikninga fyrir slík tilvik. Fer það meðal annars eftir flutningskostnaðinum, jarðlögum og fleiru.

Líkt og fram hefur komið er olíuverð og sveiflur á því háð afskaplega mörgum samvinnandi þáttum. Ljóst er að lágt olíuverð hefur dregið úr fjárfestingu í olíuiðnaðinum og er nú loks farið að hafa áhrif á framleiðslu. Hins vegar hefur ekki orðið nein stórkostleg breyting á efturspurnarhliðinni. Með öðrum orðum, eftispurnin eftir olíu er enn mikil og verður áfram næstu árin. Rafbílavæðingin mun halda áfram en hún er ekki orðin svo mikil að það hefur áhrif á olíuiðnaðinn svo telja megi. Það verður því að teljast afar líklegt að við fáum að sjá olíuverð sem nær aftur í átt að 100 dollurum á fatið, og jafnvel yfir það, í kringum ár 2020.

Ljósmynd eftir Stefán Pálsson.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.