Ólgusjór danskra stjórnmála

eftir Bjarni Halldór Janusson

Þjóðkosningar eru reglulegt fyrirbæri nú þegar lýðræðisríki heimsins hafa sjaldan verið fleiri. Um þessar mundir heyja danskir stjórnmálaflokkar kosningabaráttu og vekja athygli á sér og sínum hugsjónum fyrir næstkomandi þingkosningar. Danskir kjósendur ganga til kosninga á morgun og hafa þar um fjölmarga flokka að velja, auk þess sem kjósendur í Færeyjum og á Grænlandi kjósa sömuleiðis þá færeysku og grænlensku flokka sem þeir vilja að gæti hagsmuna þeirra á danska þjóðþinginu. Kosið verður um 179 þingsæti, þar sem 175 þeirra skiptast milli flokkanna í Danmörku, en 4 þeirra skiptast jafnt á milli flokkanna í Færeyjum og á Grænlandi.

Hefð er fyrir því að flokkarnir skipti sér upp í hópa og geri samkomulag um stuðning eða samvinnu á grundvelli þeirrar skiptingar, þar sem vinstriflokkarnir mynda saman eina heild og hægriflokkarnir mynda aðra heild. Til þess að öðlast meirihluta á þingi þarf að minnsta kosti 90 þeirra þingsæta sem standa flokkunum til boða, en þá nægir að flokkar utan ríkisstjórnar veiti ríkisstjórninni stuðning og tryggi þannig meirihluta á þinginu. Fráfarandi ríkisstjórn samanstendur einmitt af þremur þingflokkum sem hlutu samtals um 30% atkvæða í síðustu kosningum, eða 54 þingsæti. Ríkisstjórnin hlaut þó stuðning tveggja flokka, en stærstur þeirra var Danski þjóðarflokkurinn sem hlaut um 20% atkvæða og 37 þingsæti í síðustu kosningum.

Hægri, vinstri og innflytjendur

Hin sígilda skipting eftir vinstri og hægri á litrófi stjórnmálanna er af mörgum sögð úrelt í margvíða veruleika samtímans. Þessi skipting lifir þó góðu lífi í dönskum stjórnmálum, þar sem teknókratískar áherslur mega sín lítils gegn hugmyndafræðilegri togstreitu. Þetta hefur lengi einkennt stjórnmálin þarlendis og virðist að mestu leyti enn eiga við. Upp á síðkastið hefur þó eitt tiltekið málefni öðlast athygli umfram önnur; málefni nýbúa, eða innflytjendamálin svonefnd. Síðustu kosningar voru fyrst og fremst sagðar kosningar um innflytjendamál, en nú virðist sem flokkarnir séu þar í megindráttum sammála.

Í danska stjórnmálakerfinu þarf stjórnmálaflokkur að minnsta kosti tvö prósent atkvæða til að ná kjöri á þjóðþingið. Flokkarnir sem nú bjóða fram í Danmörku eru þrettán talsins, þar sem fjórir þeirra mælast ýmist yfir eða undir mörkunum, á meðan hinir ellefu flokkarnir þykja nokkuð líklegir til að ná kjöri. Það verður því hægara sagt en gert að tryggja viðeigandi stjórnarmyndun. Flokkur sósíaldemókrata virðist þó bera höfuð og herðar yfir aðra flokka. Flokksforystan hefur raunar gefið í skyn að flokkurinn ætli sér að verða einn í næstu ríkisstjórn. Það kann að bjóða upp á enn frekari erfiðleika við myndun ríkisstjórnar, þar sem vinstri flokkarnir gætu álitið innflytjendastefnu Sósíaldemókrata of stranga og ákveðið að verja stjórnina ekki falli.

Gangi skoðanakannanir eftir mun forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen, ekki eingöngu sjá eftir ráðuneyti sínu, heldur þykir einnig líklegt að hann segi af sér sem formaður ríkisstjórnarflokksins Venstre. Hann hefur verið leiðtogi þessa hægriflokks frá árinu 2009 en á sama tíma hefur flokkurinn hægt og rólega misst stuðning til annarra hægriflokka sem þykja strangari í innflytjendamálum. Í kosningunum árið 2011 hlaut flokkurinn um 27% atkvæða en hlaut svo um 20% atkvæða árið 2015 og mælist nú með svipað fylgi, eða rétt undir. Stjórnmálaskýrendur benda þó gjarnan á að Lars Løkke sé gamalreyndur stjórnmálamaður sem eigi ekki erfitt með að berjast þegar á móti blæs.

Þjóðarflokkurinn mælist nú eingöngu með um 10% atkvæða en hlaut um 20% atkvæða í síðustu kosningum. Flokkurinn er sagður hafa orðið að fórnarlambi eigin árangurs, þar sem þjóðernisíhaldsstefna flokksins þykir nú ekki nægilega róttæk fyrir kjósendur flokksins og fyrir vikið hafa þeir leitað til nýrri þjóðernisflokka, sem jafnvel hafa það að stefnumáli að vísa meirihluta innflytjenda úr landi. Að sama skapi virðist sem orðræða Danska þjóðarflokksins hafi að ákveðnu leyti mótað stefnumál meginstraumsflokkanna í innflytjendamálum, en þar ber að nefna flokka á borð við Sósíaldemókrata og Venstre sem þykja róttækari nú en áður.

Allt bendir til þess að næsti forsætisráðherra komi úr röðum Sósíaldemókrata þar sem flokkurinn mælist langstærstur allra flokka. Formaður flokksins, Mette Frederiksen, er tiltölulega ungur stjórnmálaleiðtogi sem hefur þó um tveggja áratuga reynslu af þingstörfum. Hún hefur verið leiðtogi stjórnarandstöðunnar frá árinu 2015 og þykir líklegust til að leiða stjórnarmeirihluta næstu ríkisstjórnar. Sósíaldemókratar mælast með rétt undir 30% atkvæða, á meðan aðrir flokkar til vinstri á hinu pólitíska litrófi mælast með rétt yfir 20% atkvæða. Í nýrri skoðanakönnun virðast flokkarnir svo bæta töluverðu fylgi við sig.

Ólgusjór stjórnmála

Hefð er fyrir því að skiptingin eftir vinstri og hægri ráði úrslitum, þar sem stjórnarmyndanir ráðast af hópaskiptingum flokkanna. Frá árinu 2001 til 2011 voru þrjár ríkisstjórnir hægrimanna, allar undir forystu Venstre og Íhaldsflokksins í Danmörku. Frá árinu 2011 hafa að vísu fjórar ríkisstjórnir tekið við stjórnartaumunum, ýmist undir forystu hægriflokkanna eða vinstriflokkanna. Mikill óstöðugleiki hefur þannig einkennt dönsku stjórnmálin síðastliðin ár og þegar nýir flokkar líta dagsins ljós dreifist fylgið milli flokkanna enn frekar, sem kann að gera stjórnmálaleiðtogum flokkanna erfiðara fyrir við að mynda stjórnarmeirihluta.

Ljóst er að núverandi stjórnarmeirihluti muni ekki halda velli, einkum vegna þess fylgistaps sem Danski þjóðarflokkurinn hefur þurft að glíma við. Líklegast þykir að Sósíaldemókratar leiði næstu ríkisstjórn en óvissa er með það hvort næsta ríkisstjórn verði hrein ríkisstjórn þess flokks, hvort hún verði samsteypustjórn vinstri flokka, eða hvort Sósíaldemókratar leiti til hægriflokkanna eftir stuðning eða samvinnu, sem þó þykir töluvert ólíklegri valkostur. Lars Løkke hefur sagt það koma til greina og sömuleiðis hefur Danski þjóðarflokkurinn boðist til að styrkja slíka ríkisstjórn, en Mette Frederiksen hefur útilokað slíkt stjórnarsamstarf við Venstre, þar sem erfitt væri að samþætta ólíkar áherslur flokkanna í efnahagsmálum og velferðarmálum, einkum ríkisfjármálum og menntamálum.

Það sem einnig dregur líkurnar úr þessu er sú staðreynd að flokkarnir hafi eingöngu starfað einu sinni saman frá stríðslokum, en sú ríkisstjórn starfaði í eitt ár. Til viðbótar segjast eingöngu um 30% kjósenda jákvæðir í garð slíkrar stjórnar, á meðan hátt í 40% þeirra virðast neikvæðir. Þess vegna þykir öllu líklegra að Sósíaldemókratar horfi til vinstri við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Það verður þó enginn hægðarleikur fyrir flokksforystuna. Ætli flokkurinn að tryggja stuðning vinstri flokkanna þykir líklegt að hann þurfi að gefa eftir og taka upp mildari innflytjendastefnu og auka framlag til loftslags- og velferðarmála. Sósíaldemókratar hafa að vísu gefið það út, að gangi ekki að mynda ríkisstjórn, þá verði bara kosið á ný, sem gefur til kynna að þeir ætli sér að vera kröfuharðir í næstu stjórnarmyndun.

Að öllu jöfnu er kjörsókn mikil í dönskum þingkosningum, eða um 86% í síðustu kosningum, og sömuleiðis var kjörsókn mikil í nýliðnum Evrópuþingkosningum, sem kann að reynast ákveðnum flokkum betur en öðrum. Nýjustu skoðanakannanir gefa til kynna að Sósíaldemókratar verði langstærsti flokkurinn, auk þess sem nokkur hreyfing virðist á fylgi smærri flokka, en niðurstöður Evrópuþingkosninganna gætu þó gefið til kynna að Venstre bæti við sig á lokametrunum. Þekkt spakmæli segja að erfitt sé að spá, sérstaklega um framtíðina. Í ólgusjó stjórnmála á þetta vel við og virðist nú sérstaklega eiga við um stöðuna í dönskum stjórnmálum.

Bjarni Halldór Janusson

Stjórn & pistlahöfundur

Bjarni Halldór er stjórnmálafræðingur að mennt og hefur nýlokið meistaranámi í stjórnmálaheimspeki við University of York í Bretlandi. Skrif hans hverju sinni munu beinast að helstu málefnum félags- og hugvísinda. Þá verða málefni líðandi stundar og hugmyndafræðilegar vangaveltur fyrst og fremst til umfjöllunar. Hann hefur lengi látið sig félagsmál varða, en þar ber helst að nefna varaþingmennsku á Alþingi og setu í Stúdentaráði HÍ.