Okkar eigið D

eftir Páll Óli Ólason

Þann 13. mars síðastliðinn eignaðist ég mitt fyrsta barn. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar fyrir komandi sumar. Tveggja mánaða sumarfrí þar sem við myndum fara í óteljandi gönguferðir niður í bæ að sleikja sólina í blíðu sumarveðrinu. Þegar leið á vorið fór meira og meira að koma í ljós að þetta sumar yrði nú kannski ekki alveg svo gott. Nýtt grill var keypt í byrjun maí en fékk að dúsa í kassanum fram í lok maí. Þá var það sett upp og því hent út á svalir í rigninguna. Fyrsta grill sumarsins var svo haldið í lok júní.

Það eina sem hélt í manni lífsneistanum voru unga daman og HM. Það virðist nefnilega vera vinsælt að setja met. Ísland er langfámennasta þjóðin til að komast á HM. Hitamet í Skandinaviu, svo heitt að á tímapunkti var Osló heitasta höfuðborg Evrópu og auðvitað þurfti Ísland að slá eitthvað veðurmet líka. Eitt versta sumar í manna minnum á suðvestur horninu þótt austfirðingar hafi reyndar fengið fínt Oslóarveður á köflum.

Þetta er í raun eintómt kvart vegna þessa sumars og á í raun fátt skylt við það sem þessi pistill er um, sem er D-vítamín. Það er nefnilega svo að hér á ofarlega á norðurhveli jarðar þurfum við sannarlega okkar sól yfir sumarið til að fylla okkur af gleði, ánægju og D-vítamíni. En er það nóg eða þurfum við kannski bara að fá okkur töflur? Og hvað í fjandanum er D-vítamín?

Calciferol.

D-vítamín er í hópi fituleysanlegra vítamína ásamt A, E og K vítamínum. Sérstaða D-vítamíns er, eins og kannski flestir vita, að forveri þess verður til í húðinni með hjálp sólargeisla. Í stuttu máli valda útfjólubláir geislar sólar því að ákveðin týpa kólesteróls myndar svokallað cholecalciferol, forskeytið Chole- vísar til kólesteróls, sem umbreytist í lifrinni í Calcidiol sem svo flyst yfir til nýrna og umbreytist þar í “the real shit” eða Calcitriol, 1,25-dihydroxyvitamin D. Það er einnig hægt að fá D-vítamín úr fæðu en þó af skornum skammti, þá aðallega lýsi og í seinni tíð úr D-vítamínbættum mjólkurvörum.

Calcitriol hefur aðallega áhrif á bein líkamans í gegnum áhrif á kalkbúskap líkamans og stjórnar þannig upptöku á kalki úr meltingarveginum, minnkar útskilnað þess og fosfórs frá nýrum auk þess að eiga þátt í að viðhalda réttu kalkmagni í blóði. Í seinni tíð hefur d-vítamín verið rannsakað m.t.t. annarra sjúkdóma þar sem viðtaka fyrir d-vitamín er að finna útum allt í líkamanum. Þannig eru möguleg tengsl við krabbamein, þá sem verndandi þáttur, vitræna getu, erfðasjúkdóma, MS, sjúkdóma í beinum og psoriasis.

Er ég með D-vítamínskort?

Oft og mörgum sinnum hittir maður einstaklinga með óljós einkenni og óska eftir blóðprufum fyrir „allt”, þar á meðal D-vítamíni. Oftar en ekki eru það einstaklingar sem taka ekki D-vítamín að staðaldri og því í raun réttast að byrja að taka það, ef einkenni eru viðvarandi er hægt að mæla D-vítamínið. Talið er að hið minnsta þriðjungur landsmanna sé ekki að fá inn nægilegt D-vítamín og líði þannig skort. Að auki eru einstaklingar sem líða skort þrátt fyrir hefðbundna viðbótar inntöku D-vítamíns og það eru þeir sem þarf að athuga með. Hafa verður í huga að oftast er skortur á D-vítamíni einkennalaus.

Hvað getur gerst?

Skortur á D-vítamíni hjá börnum veldur beinkröm (e. rickets) sem lýsir sér í lélegri beinbyggingu, þau eru eldri þegar þau byrja að ganga og vilja frekar sitja en standa. Hjá fullorðnum getur skorturinn valdið beinmeyru sem lýsir sér sem langvinnum vöðvaverkjum. Að auki er talið að D-vítamín geti verið mikilvægt eldra fólki í tengslum við beinþynningu og hafi möguleg verndandi áhrif.

Á ég að taka D-vítamín?

Já, á einhverju formi. Í gegnum tíðina hefur júlí verið í raun eini mánuðurinn þar sem ekki er þörf á að taka viðbótar D-vítamín. Með auknum skammti D-vítamíns í almennum ráðleggingum og sérstaklega eins og þessi júlímánuður hefur verið að þróast er viðbúið að við þurfum að taka auka D-vítamín. Á vef landlæknis er að finna töflu frá 2013 sem sýnir ráðlagðan dagskammt fyrir m.a. D-vítamín. Ráðleggingar eru sem hér segir:

  • 10 mcg fyrir börn að 9 ára aldri.
  • 15 mcg fyrir einstaklinga eldri en 9 ára og að sjötugu.
  • 20 mcg eftir sjötugt.

10 mcg samsvara til 400 international units eða IU sem sjást framan á mörgum umbúðum D-vítamíns úti í búð. 15 mcg eru þannig 600 IU og 20 800 IU. Oftar en ekki eru töflurnar 1000 IU og þannig vel yfir ráðlögðum dagskammti þannig að þörf líkama venjulegs einstaklings fyrir D-vítamíni er auðveldlega mætt með einni töflu. Hvað efri mörk D-vítamíns varðar er ekki mælt með skammti yfir 4000 IU.

Að lokum

Ég fæ kannski ekki að upplifa það sumar sem ég vonaðist eftir en tek allavega mitt D-vítamín auk þess sem dóttirin fær sitt, hún er jú alltaf að reyna að standa. Hvað D-vítamínið varðar er mjög auðvelt fyrir flesta að verjast skorti; taka auka D-vítamín eða lýsi. Það er þó vonandi ljós handan við rigninguna og óskandi að ágúst gefi okkur það sem júlí gat ekki og að við fáum að baða okkur í okkar eigin D-vítamíni.

Páll Óli Ólason

Pistlahöfundur

Páll Óli útskrifaðist úr læknisfræði við Háskóla Íslands sumarið 2017 og lauk kandídatsári í júní 2018. Hann stundar sérnám í bráðalækningum við Landspítala. Hann tók virkan þátt í starfi Vöku fls. í Háskóla Íslands og sat meðal annars sem formaður sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs í Stúdentaráði. Páll Óli sat í Útsvarsliði Árborgar frá árinu 2008-2012. Skrif hans í Rómi snúa helst að heilbrigðismálum og lýðheilsu.