Óheilbrigð fjölgun ferðamanna

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

Fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsækja Ísland hefur margfaldast á skömmum tíma. Nú er svo komið að 10. hver ein­stak­ling­ur sem leitar á bráðamóttöku Land­spít­al­ans er er­lend­ur ferðamaður. Erum við í stakk búin til að sinna þeim?

Flóknari þjónsuta

Ferðamenn sem koma til landsins eru ekki einsleitur hópur. Þeir eru á öllum aldri með margvísleg heilsufarsvandamál. Erlendir ferðamenn sem nýta sér heilbrigðisþjónustu þurfa yfirleitt á yfirgripsmikilli og flókinni þjónustu að halda. Má þar t.d. nefna þörf fyrir túlkaþjónustu vegna tungumálaerfiðleika og sérstaka smitgát í varnarskyni vegna hugsanlegra smitsjúkdóma. Þar að auki þurfa þeir gjarnan sérstök úrræði við útskrift og þjónustuþörf þeirra eykst vegna samskipta við sendiráð, erlend tryggingafélög og fjölskyldur þeirra erlendis svo að dæmi séu tekin.

Aukið álag

Árið 2009 sóttu 398 erlendir ferðamenn þjónustu á Heilsugæslu Höfuðborgasvæðisins en 3.256 árið 2016. Sömuleiðis jókst fjöldi ferðamanna á Landspítalanum úr 2.313 árið 2009 í 4.665 árið 2016. Á landsvísu hefur þeim fjölgað úr tæplega 6.000 árið 2009 í rúmlega 14.500 árið 2016 sem er um 146% fjölgun. Þar sem háannatími ferðaþjónustunnar er á sumrin gefur augaleið að flestir þeirra þurfa að nýta sér þjónustuna á sumrin, þegar heilbrigðisstarfsfólk fer í sumarfrí. Þá er mönnun oft naum og stöður gjarnan mannaðar með nemum í heilbrigðisvísindum með tilheyrandi reynsluleysi og auknu álagi í kjölfarið. Áhrif aukins fjölda ferðamanna eru því mun meiri en ætla má út frá fjöldanum einum og saman. Því er brýnt að greina þörf ferðamanna fyrir sjúkrahúsþjónustu sem allra fyrst og gera áætlun um hvernig styrkja megi innviði og mæta þörfum ferðamanna fyrir heilbrigðisþjónustu, án þess að það komi niður á þjónustunni við landsmenn. Það mætti t.d. gera með því að fjölga stöðugildum á bráðamóttökunni yfir háannatímann og bæta verklag um forvarnir á ferðamannastöðum en rannsóknir erlendis hafa gefið vísbendingar um að rétt viðbrögð á ferðamannastöðum geti haft langtímaáhrif á ferðamenn sem lenda í óhöppum.

Mönnun

Mönnun heilbrigðisþjónustunnar hefur þó verið erfitt úrlausnarefni síðustu ár og á sú áskorun bara eftir að aukast. Stafar það m.a. af því að stór hluti nokkurra heilbrigðisstétta er að hefja töku lífeyris en á sama tíma hefur nýliðun ekki verið nógu mikil. Þá er skortur á hjúkrunarfræðingum í hjúkrunarstörfum sérstakt áhyggjuefni. Um þrjú hundruð hjúkrunarfræðinga vantar til að manna þau stöðugildi sem eru til staðar á heilbrigðisstofnunum á Íslandi en 523 ef mæta á áætlaðri hjúkrunarþörf. Á meðan starfa þúsund hjúkrunarfræðingar á Íslandi við eitthvað annað en hjúkrun.

Gangi spár eftir verða erlendir ferðamenn nálægt 2,4 milljónum á árinu 2017, sem er fjölgun sem nemur 33% frá árinu 2016, rúmlega 3,4 milljónir árið 2022 og um 4,3 milljónir árið 2030. Eins og staðan er í dag næst ekki að manna þær hjúkrunarstöður sem lausar eru og erfitt er að fá lækna til að starfa úti á landi. Án fjölgunar starfsfólks eru starfsmenn því að vinna tvöfalt meira og hraðar og eru gæði þjónustunnar í samræmi við það. Starfsfólkið eru orðið langþreytt á ástandinu og margir eru að brenna út í starfi.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eru tilgreind áform um að fara af stað með vinnu til þess að greina þörf erlendra ferðamanna fyrir heilbrigðisþjónustu og hvernig taka megi á mönnunarvandanum í heilbrigðisþjónustunni. Gera þarf heilsteypta áætlun um hvernig megi til móts við þær heilbrigðissstéttir eins og hjúkrunarfræðinga þar sem skorturinn er mikill og mikilvægt er að sú vinna tefjist ekki. Annars munum við sitja uppi með tóman, glænýjan spítala á meðan heilbrigðisstarfsfólkið okkar vinnur frægðarverk í háaloftunum.

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.