Ógnir sem steðja að íslenskri tungu

eftir Hrafn H. Dungal

Reglulega kemur upp hið sígilda þrætuepli um hvernig við Íslendingar eigum að haga talmáli og málnotkun okkar. Íslenska tungan er einn af hornsteinum okkar menningar og ber að varðveita hana eins og frekast er unnt. Á ljósvaka- og tækniöldinni sem við lifum á er hins vegar verulega þrengt að íslenskunni og má finna hinar ýmsu ógnir sem steðja að tungumálinu. Snjallsímavæðingin, samfélagsmiðlar og tæknin almennt gerir ekki beinlínis ráð fyrir íslenskri aðlögun. Þarna kemur því bein athafnaskylda á okkur Íslendinga að bregðast við breyttum tímum og varðveita tungu okkar. Vafalaust var auðveldara að viðhalda íslenskri tungu hér á árum áður, enda höfðu eldri kynslóðir ekki aðgang að tæknieiginleikum heimsins sem nú ráða ríkjum og torveldara var að ferðast milli landa. Það var því um fátt annað að velja en að tala íslenskt mál sín á milli. Fólk sagði hvert öðru sögur sér til dægrastyttingar og kvaðst jafnvel á. Hvort tveggja eru þetta athafnir sem krefjast sæmilegrar þekkingar á tungumálinu sem og réttrar málnotkunar.

Nú á dögum er það svo að töluvert fleiri möguleikar eru en að tala saman á réttu íslensku máli, þegar við höfum öll síma og tölvur til að dreifa huganum frá hversdagslegu hjali. Minni áhersla virðist sömuleiðis vera lögð á að talað sé rétt mál í ræðu og riti. Hversdagsleg umræða ber þess merki að slakað hafi verið á kröfum um rétt málfar, beygingu, orðaforða og fleira. Til dæmis er alltof algengt að í umræðunni megi heyra „ég vill“, „mér langar“, „mér hlakkar“, „vantar einhverjum“ o.s.frv. Þarna er á ferðinni hið séríslenska fyrirbæri sem kallað er þágufallssýki. Það er sú tilhneiging að hafa orð í þágufalli við sagnir sem raunar eiga að stýra nefnifalli eða þolfalli. Yfirleitt þykja þessar málfarsvillur smáræði og því er það æ sjaldnar sem fólk sér sig knúið til að leiðrétta rangfærslurnar.

Verður ekki viðhaldið af sjálfsdáðum

Staðreyndin er hins vegar sú að ákveðin kynslóðaskipti eru að eiga sér stað í íslensku samfélagi. Við erum komin langt á tækniöld og þeir sem eldri eru höfðu íslenskuna e.t.v. í frekari hávegum en yngri kynslóðir. Hvar stöndum við þegar þessi kynslóð hefur yfirgefið okkur? Unga fólkið nú til dags hefur vissulega þarfari málefni að fást við en að velta sér upp úr réttu og röngu málfari. Þegar stjórnmálamenn og fjölmiðlar eru meira að segja farnir að notast við sömu málvillurnar og maður heyrir á förnum vegi, getur þá verið að umræddar villur séu einfaldlega ekki álitnar sem slíkar lengur? Er þetta eitthvað sem hefur þegar verið samþykkt í þegjanda hljóði?

Það getur verið að nú séum við að átta okkur á að íslensku tungunni og ennfremur réttri málnotkun verði ekki viðhaldið af sjálfsdáðum heldur þurfa beinar aðgerðir að koma til. Það verður að leggja þá ábyrgð á kjörna fulltrúa, auglýsendur, menntakerfið og einkum fjölmiðla, sem að mörgu leyti stýra opinberri umræðu, að viðhalda og styrkja íslenska tungu sem og hvetja til réttrar málnotkunar. Umræða um meðferð tungumálsins í fjölmiðlum dúkkar reglulega upp og sitt sýnist hverjum um réttmæti hennar. Talhraði í fréttaflutningi hefur aukist heilmikið og á sama tíma virðist hafa dregið úr kröfum um vandað málsnið. Sjónarmið um gæði íslenskunnar og rétt málfar eiga e.t.v. ekki uppá pallborðið hjá ungu fólki í dag, enda kunna börn oft meira í ensku en íslensku þar sem enska er hið ráðandi tungumál í öllum snjalltækjum, smáforritum og tölvuleikjum. Þrátt fyrir fjárfestingar í máltækni, þá myndu einhverjir segja að íslensk stjórnvöld hafi ekki hlúð nógu vel að tungumálinu í ræðu og riti og hefur það t.a.m. sést reglulega í lagafrumvörpum þar sem röng málnotkun og sérkennilegur orðhengilsháttur er hafður í fyrirrúmi.

Orðaval okkar á degi hverjum kann að skipta höfuðmáli í framtíðinni ef við viljum varðveita íslenska tungu og rétta notkun hennar. Við Íslendingar búum svo vel að hafa sérstöðu á fjölmörgum sviðum og tungumálið okkar er ein þeirra. Væri ekki ráð að við færum að hugsa okkur um, vanda orðaval okkar og stíl og þannig senda þau skilaboð í verki að við viljum ekki einungis varðveita tungumál okkar heldur einnig rétta málnotkun? Já, og það helst án þess að vera kallaður „stafsetningar- og málfarslögga“?

Hrafn H. Dungal

Pistlahöfundur

Hrafn er meistaranemi við lagadeild Háskóla Íslands ásamt því að taka hluta náms síns úti í Króatíu. Samhliða því starfar hann við þinglýsingar og leyfatengd málefni hjá Sýslumannsembættinu á Höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur hann, í gegnum menntaskóla- og háskólagöngu sína, verið virkur í ungliðapólitíkinni, utan skóla sem og innan. Meðal áhugamála Hrafns eru stjórnmál, gítarspil og bjór í góðum félagsskap.