Ógnir ferðaþjónustunnar

eftir Ritstjórn

Margt hefur breyst í ferðamannaiðnaðinum á síðustu árum. Þegar hrunið skall á í október 2008 tók ferðaþjónustan sig saman og ráðist var í verkefnið Inspired by Iceland sem komst á mikið flug. Annað áfall fyrir ferðaþjónustuna skall á stuttu síðar þegar að Eyjafjallajökull gaus. Aftur var vörn snúið í sókn og aðstæður nýttar til þess að skapa jákvæða ímynd af Íslandi með því að opna veitingastað, svokallaðan pop-up veitingastað rétt hjá eldgosinu og þar sem fallegar myndir voru sýndar. Myndirnar af eldgosinu og staðnum fönguðu hug almennings erlendis og herferðin tók á loft. Á tæpum fimm árum varð ferðaþjónustan stærsta atvinnugrein Íslendinga.

Sumarið er tíminn

Í kjölfar hrunsins skorti aðgengi og flæði á erlendum gjaldmiðli hingað til lands auk þess sem atvinnuleysi hér var töluvert og hefur aldrei mælst jafn hátt. Það sem gerðist þó er að virði íslensku krónunnar lækkaði og þá fór að verða hagstæðara fyrir útlendinga að koma til Íslands. Fyrir hrun byrjaði vertíðin ekki fyrr en 1. júní á hvert og lauk 31. ágúst. Fyrirtæki í ferðaþjónustu stóðu og féllu með því hvernig gekk á sumrin. Það á í raun enn við í dag að náist ekki góður árangur yfir sumartímann eru fyrirtækin rekin með tapi, sérstaklega hvað varðar fyrirtæki í ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Lélegt sumar hefur þó einnig miklar afleiðingar í Reykjavík vegna þess að á sumrin eru meðalverð á þjónustunni hærri og er það því hlutfallslega mikilvægur tími. Sumrin eru því enn þungavigtar tími.

Ísland verður heils árs atvinnugrein

Enn jókst umfjöllunin um Ísland og myndir eins og The Secret Life of Walter Mitty litu dagsins ljós. Áður en við vissum af voru myndir frá Íslandi í öllum neðanjarðarlestarstöðvum. Áhrifin létu ekki á sér standa. Febrúar varð hluti af high season tímabilinu og seinna teygði tímabilið sig yfir í mars. Ráðstefnur og alþjóðlegir fundir fóru síðan í síauknum mæli að eiga sér stað í Reykjavík í maí, júní, september og október og ferðaþjónustan var orðin heils árs atvinnugrein. Þetta gerðist árið 2014. Með aukinni eftirspurnin hækkuðu meðalverðin alls staðar og á sama tíma styrktist krónan hægt og rólega.

Barátta um bókanir

Í ársbyrjun 2017 þegar krónan var orðin sterk tilkynnti fyrrverandi ríkisstjórn að hún hygðist hækka virðisaukaskattinn á ferðaþjónustan um meira en helming. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Erlendir viðskiptavinir höfðu samband við samstarfsaðila sína hér á landi og sögðu allir að bókunum hjá þeim myndi fækka um helming ef yrði af þessari framkvæmd. Hófst þá tími mikillar óvissu. Í fyrstu virtist sem að um ofsafengin viðbrögð hefði verið að ræða en eftir því sem leið á vorið vora fóru hins vegar að hrúgast inn afbókanir án þess að nýjar bókanir kæmu inn í staðinn. Sumarið varð því undir væntingum. Aðal höggið var þó að yfir sumartímann komu heldur ekki inn nýjar bókanirnar fyrir veturinn. Nú er því kominn sá tími sem beðið hefur verið eftir, baráttan um bókanir og viðskipti.

Breytt viðskiptamynstur

Viðskiptamynstur ferðamanna hér á landi hefur einnig breyst. Nú gista ferðamenn skemur, eyða minna í ferðir og í búðum, fara sjaldnar á veitingahús og velja almennt ódýrari kosti. Styttri dvöl á Íslandi hefur í för með sér að minna er ferðast um landsbyggðina, fyrir utan Suðurland sem er álíka vinsælt og Reykjavík. Þessi breytta neysluhegðun ferðamanna hefur því bitnað á stöðum á Norðurlandi þar sem aukningin var farin að skila sér allt árið um kring og einnig á Austurlandi og Vesturlandi, þar sem enn er vinna fyrir höndum. Mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu horfa því fram á hagræðingu og mögulegar uppsagnir.

Hækkun virðisaukaskatts

Þeir sem eru hlynntir hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna vilja meina að ferðaþjónustan sé orðin sjálfbær atvinnugrein sem ætti því að skattleggja eins og önnur fyrirtæki. Staðan er hins vegar sú að erlendis er virðisaukaskattur á ferðaþjónustu almennt helmingi lægri en almennur virðisaukaskattur. Verði af þeirri hækkun sem boðuð var í síðasta fjárlagafrumvarpi verður hærri virðisaukaskattur á ferðaþjónustu hér á landi en í samkeppnislöndum okkar, Finnlandi og Noregi. Samkeppni við þau lönd getur verið stíf, sérstaklega hvað varðar MICE viðskipti (viðburði, ráðstefnur og hvataferðahópa), en öll löndin státa af norðurljósum, tilkomumiklu landslagi og kaldara lofstslagi. Sé horft á þetta í samhengi við hækkun íslensku krónunnar er ljóst að hækkun á virðisaukaskatti gæti haft slæm áhrif til lengri tíma á ferðaþjónustuna á Íslandi.

Ferðaþjónustan er grein sem við eigum að geta litið á með stolti. Í henni skal ríkja fagmennska, kurteisi og fjölbreytileiki en jafntframt ætti að halda í viss óformlegheit sem eru hluti af sérstöðu okkar. Til þess að gera betur þarf að klára endurbætur og uppbyggingu sem eru framundan. Einnig þarf að ná meiri stöðugleika í atvinnugreininni svo ekki sé alltaf verið að keppast við að klára uppbyggingu áður en að ölduna fer að lægja. Til þess þarf stöðugan gjaldmiðil svo að hægt sé að gera fjárhagsáætlanir og tilboð sem standast. Þá fyrst gæti ferðaþjónustan tekið skref í átt að almennu virðisaukaskattsstigi. Þó verður að teljast varhugavert að hafa virðisaukaskatt 22% sé horft á hlutina í alþjóðlegu samhengi.

 

Þar til að stöðugleiki næst verður minna atvinnuleysi og aukinn gjaldmiðill inn í landið að duga sem framlag ferðaþjónustunnar til þjóðarbúsins, nema aðilar ríkisstjórnar og ferðaþjónustu geti sest að samningaborðinu og fundið aðra lausn.

 

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.