Ógnin á veginum

eftir Páll Óli Ólason

Það þykir kannski klisjukennt að segja en ef eitthvað er öruggt í þessum heimi er það sú staðreynd að við munum öll deyja. Oftast eiga þar að sök hjarta- og æðasjúkdómar og krabbamein hjá einstaklingum með háan meðalaldur. Hjá yngra fólki horfir þetta öðruvísi við. Þar eru það slys og sjálfsvíg sem tróna í efstu sætum. Ein algengustu slysin eru umferðarslys. Þar sem umferðarslys spyrja ekki um aldur geta þau ekki aðeins verið hræðileg fyrir þá sem lenda í þeim og aðstandendur þeirra heldur eru þau líka gríðarlega kostnaðarsöm fyrir samfélagið.

Þann 20. nóvember síðastliðinn var alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðaslysa haldinn en um 1,25 milljón manns lætur lífið á hverju ári í umferðarslysum. Með hann í huga er ekki hægt að líta framhjá þeirri aukningu í fjölda banaslysa síðustu tvö ár miðað við árin á undan. Á vef Samgöngustofu er hægt að sjá tölfræði varðandi banaslys, þ.e. þau andlát sem eiga sér stað innan 30 daga eftir slys, og alvarleg slys í umferðinni. Alls létust 9,6 einstaklingar að meðaltali á árunum 2010-2014. Árið 2014 létust fjórir. Árið 2015 létust hinsvegar 16 einstaklingar og það sem af er af þessu ári hafa 15 látist. Það virðist því vera að fjara undan þeim árangri sem náðst hefur í fækkun banaslysi. Það er mikið áhyggjuefni. Fjöldi alvarlegra slasaðra í umferðarslysum hefur verið tæplega 180 síðastliðin þrjú ár. Slíkum áverkum fylgir oftar en ekki lega á dýrasta leguformi LSH, gjörgæslu, í lengri tíma og löng þrautaganga í formi endurhæfingar til að ná frekari styrk. Árið 2012 kom út skýrsla um kostnað við öll umferðarslys árið 2009. Var það reiknað út að heildarkostnaður vegna þeirra væri áætlaður 22,6-23,5 milljarðar króna á verðlagi þess árs. Það er þannig bersýnilegt að hér er um miklar fjárhæðir að ræða.

Það er erfitt að segja hvað nákvæmlega veldur aukingu á banaslysum. Eitt sem virðist útskýra þetta að hluta er aukinn fjöldi erlendra ferðamanna en fimm af 16 sem létust árið 2015 voru erlendir ferðamenn. Eins hefur hlutfall þeirra í alvarlegum slysum hérlendis aukist þrátt fyrir að heildarfjöldinn hafi staðið í stað. Ætla má að orsök fyrir þessu sé reynsluleysi þeirra hvað akstur í íslensku vegakerfi varðar auk vanmats á veðurfari.

Hverjum er hægt að bjarga?

Í heimi bráðalækninga er til gamalt módel sem notað er til að sýna hvenær einstaklingur deyr eftir slys. Það skiptist í þrjá kúrfur:

  • 1. kúrfa: Þeir sem látast samstundis eða rétt eftir slys vegna áverka sem eru það alvarlegir að þeir draga viðkomandi til dauða á mjög skammri stundu.
  • 2. kúrfa: Þeir sem látast nokkrum klst eftir slys. Þessir eru lifandi eftir slys og með áverka sem hægt er að grípa inn í áður en andlát hlýst af. Með öflugu sjúkraflutningakerfi og réttum viðbrögðum er hægt að koma þessum einstaklingum í réttar hendur.
  • 3. kúrfa: Þeir sem látast dögum til vikum eftir áverkann. Eru þá komnir á spítala og fengið viðeigandi meðferð.

Þessi skipting sýnir að einhverjum er ekki hægt að bjarga, sama hvað. Fyrir kúrfur tvö og þrjú skiptir máli að til taks sé gott sjúkraflutningakerfi með vel þjálfuðum einstaklingum og góðum búnaði. Slíkt gagnast ekki kúrfu eitt þar sem þeir einstaklingar látast svo að segja samstundis. Það sem gagnast þeirri kúrfu ásamt hinum tveimur er það að fyrirbyggja slysin. Ef það eru engin slys hefur tekist að bjarga öllum.

Hvað stendur til boða?

Í gegnum árin hafa bifreiðar orðið mun öruggari samhliða strangari öryggiskröfum hvað áreksta varðar. Bílbelti, öryggispúðar og grind sem gefur þannig eftir að farþegarými afmyndast sem minnst eru nokkrir hlutir sem vert er að nefna. Þessar betrumbætur duga þó skammt. Horfa verður mun meira til forvarna.

Forvarnir á borð við þær að minna fólk á að aka á löglegum hámarkshraða, að tala ekki í síma eða hanga í snjallsímanum undir stýri og að aka ekki undir áhrifum áfengis eða annarra fíkniefna eru aðgerðir sem koma reglulega upp. Boðleiðirnar eru af margvíslegum toga en oftar en ekki á myndbandsformi þar sem bílslys og aðleiðingar þess er sýnt á raunverulegan hátt. Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvort þessi myndbönd hafi tilskilin áhrif. Ætla má að þau geri það á vissan hátt, yfirleitt í stuttan tíma, en fyrr en seinna fer viðkomandi aftur í gamla farið.

Fræðsla er önnur leið sem hefur verið farin. Þekktasta dæmið er án efa myndbönd Umferðastofu sem koma reglulega fyrir milli dagskrárliða. Í þeim er farið yfir hin ýmsu atriði, m.a hvernig bera á kennsl á hálku, hvernig þreyta og syfja hafa áhrif á akstur og ýmis praktísk atriði þegar kemur að viðhaldi bifreiða.

Löggæsla er einnig mikilvæg. Hún á undir högg að sækja en niðurskurður á löggæsluembættum landsins hefur valdið því að minna er um lögreglu á þjóðvegum landsins. Af því leiðir að auðveldara er að aka yfir löglegum hámarkshraða. Þessi þróun er sérlega slæm ef horft er til þess að á meðan skorið er niður í þessum málaflokki eykst fjöldi þeirra sem aka um þjóðvegi landsins.

Hvað erlenda ferðamenn varðar er reynt að fræða þá við komu til landsins. Ráðleggingar má finna í bílaleigubílum auk þess sem síðan Safetravel.is er auglýst í hvívetna. Á henni er farið með einföldum hætti yfir þær hættur sem finnast í íslenskri umferð. Það virðist þrátt fyrir allt ekki vera nóg.

Að lokum ber að nefna vegakerfið. Í gegnum árin hefur lenskan verið sú að banaslys hefur þurft til að koma breytingum til leiðar á vissum vegaköflum. Dæmi um það er breikkun vegar á milli Selfoss og Reykjavíkur. Sá vegarkafli hefur tekið mörg mannslíf eins og minnst er á þegar keyrt er fram á fjölda hvítra krossa við Kögunarhól undir Ingólfsfjalli. Annað dæmi er tvöföldun Reykjanesbrautar. Hana er ekki búið að tvöfalda að fullu en tvö banaslys í umferðinni það sem af er þessu ári hafa verið á þeim kafla þar sem hún er einföld. Það að breikka vegi er ekki eina leiðin sem hægt er að fara. Aðrir hlutir eins og vegrið minnka áhættu á útafkeyrslum.

Þannig er staðan nú, alvarleg slys virðast standa í stað en banaslysum fer fjölgandi. Slys sem þessi eru ekki einungis hræðileg fyrir einstaklinga sem í þeim lenda heldur einnig fyrir aðstandendur þeirra. Eins má reikna með því að kostnaður samfélagsins vegna þeirra hlaupi á tugum milljarða. Erlendir ferðamenn eru hópur sem þarf að horfa sérstaklega til. Þó við munum hvorki ná að hindra öll banaslys né alvarleg slys er rétt að ráðast í frekari úrbætur. Fyrst og fremst með þrennum hætti, við þurfum að bæta löggæslu, efla samgöngur og veita auknu fé til forvarna.

Páll Óli Ólason

Pistlahöfundur

Páll Óli útskrifaðist úr læknisfræði við Háskóla Íslands sumarið 2017 og lauk kandídatsári í júní 2018. Hann stundar sérnám í bráðalækningum við Landspítala. Hann tók virkan þátt í starfi Vöku fls. í Háskóla Íslands og sat meðal annars sem formaður sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs í Stúdentaráði. Páll Óli sat í Útsvarsliði Árborgar frá árinu 2008-2012. Skrif hans í Rómi snúa helst að heilbrigðismálum og lýðheilsu.