Og malbikið flæðir…

eftir Ritstjórn

Sú var tíðin að hægri menn í borginni börðust vonlítilli baráttu fyrir fjölgun akreina á stofnæðum. Þeir mættu mikilli andstöðu og skilningsleysi andstæðinga einkabílsins og þeirra sem vildu með öllum ráðum halda í öll græn svæði borgarinnar. Segja mætti, að framrás umferðarinnar hafi verið í fjötrum, þó að henni hafi í raun engin bönd haldið. Sums staðar mátti einfaldlega ekki hnika til akreinum, hvað þá fjölga þeim, ef græn svæði yrðu skert.

Malbik á kostnað grænna svæða

Núverandi meirihluti borgarinnar hefur nú hafið lagningu hjólaleiða og forgangsakreina fyrir strætó til viðbótar við núverandi malbiksfleti á kostnað grænna svæða. Gildir það bæði um miðeyjar og svæði til hliðar við akbrautir. En viti menn, nú heyrist skyndilega ekki múkk. Umhverfisverndarsinnar þegja þunnu hljóði. Stefnan hefur verið mörkuð og vart verður aftur snúið.

Aðrar framkvæmdir setið á hakanum

Sveitarfélög hafa ekki klárað aðrar nauðsynlegar framkvæmdir sem töfðust eftir hrunið. Ýmsar minniháttar framkvæmdir sem myndu greiða fyrir umferð hafa setið á hakanum. Auðvelt er að skýla sér á bakvið áhrif kreppunnar en stefna meirihlutans í borginni um þéttingu byggðar og bætt almenningssamgöngukerfi á kostnað einkabílsins er þó meginástæða hirðuleysisins. Margt hefur verið gert sem tefur bílaumferð og var t.a.m. klippt á græna bylgju (1) á Miklubrautinni sem auðveldaði umferðarflæði þegar gönguljós voru þar látin í forgang. Fleiri framkvæmdir sem myndu greiða fyrir bílaumferð en eru ekki í deiglunni eru lagning Skerjabrautar og Sundarbrautar og mislægra gatnamóta, t.d. við Sprengisand (Bústaðarvegur-Reykjanesbraut) og Hagkaup Garðabæ (Hafnarfjarðarvegur-Vífilsstaðavegur). Auk þess er nauðsynlegt að klára tvöföldun Reykjanesbrautar sem fyrst, bæði öryggisins vegna og til að bæta umferðarflæðið alla leið frá Keflavík að Kringlu.

Þétting byggðar

Ofuráhersla meirihlutans í Reykjavík hefur verið á þéttingu byggðar. Það veldur því að land verður oft dýru verði keypt, útfærsla bygginga og bílastæða vandasöm og breytingar á núverandi byggð verður erfið þar sem íbúar eru orðnir vanir meira útsýni og rými. Útkoman verður því oftar en ekki dýrar og rúmlitlar íbúðir. Of þétt byggð veldur einnig erfiðleikum við samgöngumál. Þó hefur jákvæða hliðin, ódýrari samgöngur, svo sannarlega verið í sviðsljósinu en á þeim þætti hefur verið hamrað einvörðungu. Staðreyndin er hins vegar sú að hér er nóg pláss fyrir frekari byggð og góða hönnun á samgöngumannvirkjum. Slíkum lúxus búa flestar aðrar þjóðir sem við miðum okkur gjarnan við ekki yfir.

Takk Dagur

Hægt og rólega verður hægt að endurskoða þessar nýju viðbótarakreinar sem verða líklega illa nýttar. Til viðbótar við strætó og leigubíla á forgangsakreinum mætti hugsa sér að leyfa þar bíla með fleiri en einn í bílnum, að erlendri fyrirmynd. Loks mætti jafnvel leyfa þar fleiri bíla t.d. á álagstímum. Þar með væri gömlu markmiði eldri stjórnar borgarinnar um fjölgun akreina náð.

(1) Það er kölluð „græn bylgja“ þegar keðja umferðarljósa eru stillt saman þannig að aka má á jöfnum hraða á grænu ljósi innan viðkomandi ljósahóps. Auðveldar þetta umferðarflæðið og greiðir fyrir umferð.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.