Ofurtrú á ríkisvald

eftir Gestahöfundur

Ég velti því stundum fyrir mér, hvernig standi á ofurtrú fjölda fólks á ríkisvald, fólks sem talar hvað mest um að valdið eigi að vera hjá fólkinu og spillingu innan valdkerfisins. Það er furðulegt að lausnir þessa fólks fela hvað helst í sér, að auka miðstýringu og stækka ríkisbáknið.

Þessi grundvallarmisskilningur þorra fólks, um að leysa megi allan heimsins vanda með auknu ríkisvaldi, virðist vera byggður á því, að ,,ríkið” sé fólkið sjálft, eða almenningur. Það tel ég hins vegar síður en svo. Ríkið er nær því að vera eins konar stórfyrirtæki, sem allir borgarar eru skyldugir til að eiga viðskipti við. Hjá ríkinu starfar fólk, sem er ekkert betra eða verra en fólk sem vinnur annarsstaðar. Þetta fólk, getur líka gert mistök, og það stór, en þau mistök eru frábrugðin þeim mistökum sem sjálfstæðir einstaklingar gera, að því leyti að almenningur allur þarf að gjalda fyrir þau, ekki einungis sá sem veldur þeim.

Maðurinn er langt frá því að vera fullkominn, og bendir fátt til þess að hann færist því nær, starfi hann fyrir ríkið. Þess vegna ber að takmarka vald einstaklinga yfir öðrum, eins og unnt er. Þannig þurfa einstaklingar að mestu leyti að reiða sig á sjálfa sig, og er líklega hver og einn einstaklingur best til þess fallinn að passa upp á sig sjálfan, en ekki aðra. Það þýðir ekki að einstaklingar sem ekki eru hæfir til að passa upp á sig sjálfa þurfi að lepja dauðann úr skel, enda þó maðurinn hugsi fyrst og fremst um sig sjálfan, tel ég mér trú um að hann hafi líka samúð með þeim sem minna mega sín, og því líklegt að hann hjálpi þeim sem á hjálp þurfa að halda. Þá er auðvitað sjálfsagt, að vera með einhverskonar tegund af samfélagssjóð, sem er notaður til þess að hjálpa þeim sem hjálpar eru þurfi, en ekki til að vernda þá sem geta hjálpað sér sjálfir, frá mistökum, eða velta kostnað þeirra yfir á almenning.

Það er því ráðgáta fyrir mér, að enn sé mikill fjöldi fólks, sem vill takmarka frelsi almennings til að taka eigin ákvarðanir, gera mistök og læra af þeim, með því að láta aðra taka ákvarðanir og gera mistök fyrir þá.

 

 

Ísak Hallmundarson er nemandi í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og formaður Samtaka Frjálslyndra framhaldsskólanema. Hann hefur áhuga á öllu er viðkemur stjórnmálum, þá sérstaklega sögu og hagfræði. Hann er einnig mikill áhugamaður um heimspeki og frelsi.