Of stór flugfélög til að falla

eftir Ritstjórn

Gjaldþrotahrina evrópskra flugfélaga hefur ýtt við mörgum hér á landi. Næst stærsta þýska flugfélagið, AirBerlin, fór í þrot í október og systurfélag þess, FlyNiki, einnig þegar í ljós kom að evrópsk samkeppnisyfirvöld samþykktu ekki yfirtöku Lufthansa á því. Þá fór breska lágfargjaldafélagið Monarch í þrot en gjaldþrot þess höfðu víðtæk áhrif, meðal annars á Íslandi.

Því hafa menn spurt sig, hvað myndi gerast ef annað af stóru íslensku flugfélögunum tveimur færi í þrot. Ýmislegt bendir til þess að flugfélögin séu bæði kerfislega mikilvæg og Hagfræðideild Landsbankans velti því upp í greiningu hvort ekki þyrfti að vera til staðar viðbragðsáætlun ef félögin lentu í verulegum rekstrarerfiðleikum.

Þrálátur orðrómur í viðskiptalífinu um að WOW air eigi við fjárflæðisvanda að stríða er ekki til þess fallin að sefa áhyggjur af því að land og þjóð séu undir þess háttar skell búin. Þá seldi WOW air tvær flugvélar og leigði þær til baka nýlega sem er talið til marks um að félagið hafi þurft að rétta af lausafjárstöðu sína.

Gjaldþrot Monarch

Breska flugfélagið Monarch var fimmta stærsta flugfélagið í Bretlandi en áhrif af gjaldþroti þess höfðu meðal annars áhrif hér á landi en Kortaþjónustan sá um greiðsluþjónustu fyrir flugfélagið. Eftir gjaldþrotið þurrkaðist eigið fé Kortaþjónustunnar út og í kjölfarið keypti fjárfestingarbankinn Kvika og hópur annarra fjárfesta keyptu allt hlutafé félagsins á eina krónu en lögðu jafnframt til 1,5 milljarð í nýtt eigið fé.

Utan Íslands urðu einnig mikil áhrif en 860 þúsund manns áttu flugmiða hjá Monarch sem þau gátu ekki nýtt þegar félagið fór í þrot. Af þeim voru um 110 þúsund manns strandaglópar erlendis því þau gátu ekki flogið heim. Í kjölfarið ákvað breska ríkisstjórnin að hún myndi flytja fólkið heim því að kostnaðarlausu en það er stærsta flutningaaðgerð af þessum toga á friðartímum sem bresk stjórnvöld hafa staðið að. Austurrísk stjórnvöld eru í svipuðum vandræðum vegna gjaldþrots FlyNiki en 60 þúsund manns áttu flug aftur heim til Austurríkis þegar félagið fór í þrot.

Íslensku flugfélögin

Íslensku flugfélögin tvö, Icelandair og WOW air hafa flutt um 6,4 milljónir farþega til landsins á fyrstu ellefu mánuðum ársins miðað við tilkynningar Icelandair til kauphallarinnar og fréttatilkynningar WOW air um farþegafjölda.

 

Þá hefur komið fram að íslensku flugfélögin standa fyrir um 75% af öllum áætlunarferðum í flugumferð en erlend flugfélög um 25%. Hlutdeild erlendra flugfélaga hefur þó verið að aukast og í nóvember var hún 26,1%, sem er það hæsta sem hefur verið hingað til.

Mögulegar afleiðingar af gjaldþroti

Gjaldþrot Monarch gefa ákveðnar vísbendingar um hvers konar atburðir geti átt sér stað ef annað íslensku félaganna fer á hausinn. Í fyrsta lagi mun það að líkindum hafa einhver áhrif á greiðslukerfið, í öðru lagi má búast við að lánveitendur flugfélaganna muni þurfa að afskrifa stóran hluta skulda sinna, í þriðja lagi mun afleidd atvinnustarfsemi, einkum ferðaþjónustan, verða fyrir miklum búsifjum að minnsta kosti til skamms tíma. Í fjórða lagi gæti það haft töluverð áhrif á olíufélögin og aðra birgja. Í fimmta lagi kann ríkið að þurfa að stökkva inn og bjarga þeim sem eru strandaglópar erlendis og í sjötta lagi hefði það að sjálfsögðu áhrif á alla sem starfa fyrir umrætt flugfélag.

Ef gjaldþrot annars af stóru flugfélögunum tveimur hefur þó ekki áhrif á langtímaeftirspurn eftir ferðum til Íslands mun framboð með tímanum aftur aukast hvort sem það yrði í formi nýs íslensk flugfélags, stækkunar hins flugfélagsins eða að erlend flugfélög stækkuðu við sig.

Það er þó heldur ekki alveg víst því ef hundruðir þúsunda einstaklinga verða fyrir óþægindum og mögulega aflýsingu ferða vegna gjaldþrots gæti það haft áhrif á viðhorf gagnvart ferðum til Íslands á heimsvísu. Fjallað var um það í vikunni að vörumerkið Ísland væri það 9. sterkasta meðal þjóða Evrópu en það getur hnikast til umtalsvert með einum stóratburði bæði til hins betra og hins verra. Þannig lét Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, hafa eftir sér að þátttaka Íslands á HM í knattspyrnu fæli í sér tækifæri til þess að Ísland gæti komist töluvert ofar á listanum. Á sama hátt má ímynda sér að stór neikvæður atburður, líkt og að hundruð þúsunda einstaklinga þyrftu að aflýsa ferðalögum, gæti haft veruleg áhrif í gagnstæða átt.

Undirbúningur er lykillinn

Að þessu sögðu er þó ekki verjandi að leggja þungar kvaðir í formi regluverks á flugfélögin sem gæti torveldað þeim reksturinn í alþjóðasamkeppni á afar hörðum markaði. Heldur er mikilvægt að vera undirbúin og hafa í farteskinu viðbragðsáætlun sem getur dregið úr áhrifum gjaldþrots flugfélags, sérstaklega til skamms tíma.

Hvort sem slík viðbragðsáætlun felur í sér sölu, samruna eða yfirtöku lánadrottna er mikilvægt að búa svo um hnútana að reksturinn stöðvist ekki algerlega og valdi gríðarlegu tjóni.

Vinna við gerð viðbragðsáætlunar er hafin að frumkvæði forsætisráðuneytisins og er stjórnvöldum til lofs. Hins vegar er hún á frumstigum og raunar mætti segja svoleiðis áætlun ætti að hafa verið tilbúin fyrir löngu. Þess vegna er afar mikilvægt að áhersla verði lögð á vinnslu hennar og að hún verði kláruð sem fyrst. Sérstaklega ef WOW air á við fjárflæðisvanda að stríða.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.