Óður til fríverslunar: Samningur Íslands við Kína

eftir Friðrik Þór Gunnarsson

Ísland á allt undir frjálsum milliríkjaviðskiptum. Segja má að saga 20. aldarinnar á Íslandi sé í stuttu máli saga þess að afskekkt eyja opnaði sig fyrir umheiminum og tók stórstíga skref inn í nútímann. Skrefum þessum fylgdu magnaðar framfarir og stór aukin lífsgæði þeirra sem búa á Íslandi. Mikilvægur hluti af því að opna sig fyrir umheiminum felst í niðurfellingu opinberra álagna og hindrana sem torvelda viðskipti ríkja á milli. Ýmsar leiðir eru færar þeim sem vilja setja stein í götu alþjóðaviðskipta, eitt helsta formið er tvímælalaust tollur og hindranir á innflutningi. Í stuttu máli er tollur gjald sem lagt er á innflutning (greitt af innflytjandanum) til hins opinbera. Hver „ber“ tollinn, það er að segja hver „tapar“ á honum, fer að vísu örlítið eftir markaðsaðstæðum. Flestar rannsóknir hafa þó bent til þess að það séu iðulega á endanum neytendur sem borga brúsann, í formi hærra vöruverðs og minna úrvals en ella þyrfti að vera. Í öllu falli munu tollar skerða, eða jafnvel eyða, samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja í samanburði við fyrirtæki innan tollmúrsins. Þetta getur leitt til minni viðskipta með ákveðnar vörur, eða jafnvel komið algjörlega í veg fyrir að viðskipti eigi sér stað. Eðli máls samkvæmt getur þetta heft verulega framþróun atvinnuvega og samfélags.

Lítil þjóð slítur barnsskóna
Undirritun EES samningsins í lok 20. aldarinnar var mögulega ein áhrifamesta einstaka aðgerðin í hagsögu þjóðarinnar. Með þeim samningi varð Ísland hluti af „innri markaði“ Evrópusambandsins og hins svo nefnda „fjórfrelsis“. Hluti af því frelsi felst í niðurrif tollmúra í viðskiptum milli aðila samningsins, en „innri markaðurinn“ telur í dag 30 lönd að undanskildu Íslandi. Meðal þeirra eru stærstu sögulegu útflutningsmarkaðir Íslands. Ef litið er til sjávarafurða, ein af styrkustu stoðum útflutnings Íslands, er í gildi tollfrelsi á öllum af okkar helstu afurðum, í útflutningi til landa ESB og EES. Áhrifin hafa ekki látið á sér standa, en viðskiptafrelsi er ein af meginforsendum framfara Íslendinga á seinustu áratugum, í sjávarútvegi sem og annars staðar. Í gegnum EFTA samninginn hefur Ísland einnig aðild að alls 27 fríverslunarsamningum sem ná til 38 landa. Aðild Íslands að þessum samningum er stórmál, því það er fjarri því einfalt mál að semja um fríverslun. Ríki geta haft mismunadi ástæður fyrir því að vilja ekki lækka eða fella niður tolla eða aðrar viðskiptahindranir, sérstaklega ef ekkert fæst í staðinn. Það ber að nefna að undanskildum upptöldum fríverslunarsamningum hefur Ísland samið um fríverslun við aðeins þrjú önnur ríki: Færeyjar (Hoyvíkur-samningurinn, en honum hefur nú verið sagt upp), Grænland og Kína.

Sólin rís í austri
Kína er stærsti neytendamarkaður í heimi. Jafnframt hefur mikilvægi Kína sem markaður aukist samhliða auknum kaupmætti þar í landi. Það voru því mikil tíðindi þegar Ísland samdi við Kína um fríverslun, en samningur landanna á milli var undirritaður 15. apríl 2013 og tók gildi 1. júlí 2014. Samningurinn er tvíhliða og felur í megindráttum í sér að Ísland fellir niður tolla á öllum vörum frá Kína að undanskildum ákveðnum landbúnaðarafurðum, einkum kjöt- og mjólkurafurðum. Á móti fellir Kína niður tolla á flestum af okkar helstu útflutningsafurðum, annaðhvort þegar í stað eða í áföngum á 5-10 ára tímabili. Að auki eru alls konar viðaukar sem greiða fyrir samskiptum ríkjanna á öðrum sviðum. Samningur þessi hefur sérstakt mikilvægi fyrir íslenskan sjávarútveg, en sjávarafurðir hafa að jafnaði verið um 90% af útflutningi Íslands til Kína. Algengir tollar á sjávarafurðum eru á bilinu 10-17%. Það er áhugavert að nefna að árið 2019 er seinasta ár 5 ára aðlögunartímans, og stórar afurðategundir svo sem heilfryst ýsa, heilfrystur þorskur og sæbjúga eru þá að fullu tollfrjálsar. Þá voru undirritaðar þrjár bókanir í maí síðast liðnum sem vörðuðu viðurkenningu á heilbrigðisstöðlum fyrir fiskeldisafurðir, fiskimjöl, lýsi og ull og gærur. Tollar eru að sjálfssögðu ekki eina aðgangshindrunin á kínverskan markað, en viðurkenningar á heilbrigðisstöðlum og öðru regluverki geta skipt höfuð máli, jafnvel enn meira en beinir tollar.

Í ljósi aukinna viðskipta og samskipta ríkjanna á milli er ekki úr vegi að fara yfir hvernig útflutningur Íslands til Kína hefur þróast, með tilliti til sjávarafurða, fram að samningi og eftir gildistöku hans. Reynslan getur haft áhugaverða hluti að segja um áhrif óheftra milliríkjaviðskipta fyrir Ísland.

Útflutningur á sjávarafurðum frá Íslandi til Kína: 1999-2013
Við aldamótin var útflutningur til Kína á sjávarafurðum ekki mikill: Aðeins rúm 3.000 tonn af afurðum árið 1999, en yfir helmingur þess var karfi. Útflutningur til landsins jókst nokkuð taktfast fram til 2006, en aukningin var einkum í karfa, grálúðu og „öðrum botnfiski“. Eftir örlítið bakslag tók útflutningur til landsins við sér á ný, en mikil aukning frá 2010 til 2013 má skýra með auknum útflutningi til Kína af loðnu- og makrílafurðum, en skipulagðar veiðar á síðarnefndri tegund hófust 2007.

Árið sem fríverslunarsamningurinn var undirritaður (2013) var útflutningur til Kína um 22.000 tonn af afurðum, sem námu um 6,5 milljarðar íslenskra króna á gengi þess árs. Aðeins 5 fisktegundir stóðu undir rúmum 85% af útflutningsverðmætunum: Grálúða, loðna, karfi, makríll og þorskur.  

Útflutningur til Kína eftir fríverslunarsamning

Eins og fyrr segir tók fríverslunarsamningur Íslands við Kína gildi 1. júlí 2014. Frá þeim tíma hefur útflutningur aukist umtalsvert, sérstaklega á allra seinustu misserum.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða til Kína rétt tæplega tvöfölduðust frá 2013 til 2018. Hér munar mest um umtalsverða aukningu á útflutningi grálúðu (einkum sjófryst), loðnu (heilfryst og hrogn), sæbjúgu (fryst), frystra fiskhausa og annarra hliðarafurða: Til dæmis frystra fisksporða og lýsi. Þá er Kína áfram mikilvægt útflutningsland fyrir karfa- og makrílafurðir. Til þess að undirstrika þau jákvæðu áhrif sem geta orðið við gerð fríverslunarsamninga má lýta til þróunar útflutnings á bæði sæbjúgu og grálúðu. 

Árið 2018 flutti Ísland út afurðir sæbjúgu fyrir samtals rúmlega 1,6 milljarða íslenskra króna. Kína stóð undir rúmlega 92% af þessum útflutningsverðmætum, sem urðu að meginstofni til vegna frystrar sæbjúgu. 

Ekki er hægt að benda eingöngu til niðurfellingu tolla til þess að skýra þessa áhugaverðu þróun, en hún skýrist einnig af aukinni veiði á Íslandsmiðum, sér í lagi á sæbjúgu, og betri markaðsverðum. Hins vegar má segja að sú góða umgjörð um viðskipti og markaðsaðgengi sem fríverslunarsamningur skapar spilaði rullu, enda er Kínamarkaður allsráðandi hvað varðar útflutningur á sæbjúgu frá Íslandi.

Árið 2018 var grálúða sú tegund sem Ísland flutti mest af til Kína í krónum talið, en rúmir 2,8 milljarðir fengust í útflutningsverðmæti. Sögulega hefur grálúða einkum farið til Japan, en einnig Taívan, Víetnam Hong Kong og Kína, en hlutdeild annarra landa hefur legið á bilinu 10-20% samanlagt. Árið 2018 var hins vegar hlutdeild Kína orðin mest í fyrsta sinn: rétt tæp 30% af heildar útflutningsverðmætum.

Fríverslun greiðir leið útflutnings og bætir kjör
Hagstætt viðskiptaumhverfi og aukið aðgengi að erlendum mörkuðum eykur samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og möguleika þjóðarinnar til verðmætasköpunnar. Aukin verðmætasköpun skilar sér í aukinni framleiðni innlendra framleiðsluþátta, svo ekki sé minnst á ávinning neytenda af lægra vöruverði. Í dag eru tæp 5 ár frá gildistöku fríverslunarsamnings Íslands og Kína, en við erum strax farin að sjá ábata útflutningsfyrirtækja á auknum tækifærum. Eftir því sem lengra líður af hagstæðu viðskiptaumhverfi landanna á milli, sjá innlend fyrirtæki sér í auknum mæli hag í því að skapa fótfestu á þessum stærsta neytendamarkaði heims. Tækifærin sem geta skapast fyrir sjávarútveg, sem og fiskeldi, eru nær óþrjótandi. Í því samhengi er áhugavert að benda á nýgerðar bókanir við fríverslunarsamninginn, sem veitir íslenskum afurðum vottanir á heilbrigðisstöðlum. Þetta á við um meðal annars fiskeldisafurðir, fiskimjöl og lýsi. Þetta er áhugavert fyrir þær sakir að hingað til hefur varla mælst útflutningur á svo mikið sem kílógrammi af eldisfiski eða fiskimjöli til Kína. Árið 2018 nam útflutningur af laxafurðum til Kína rúmum 20 milljónum íslenskra króna, sem var aðeins 0,23% af heildarverðmætum útflutnings Íslendinga. Ljóst er að á þessum sviðum er mikið tækifæri til sóknar. 

Friðrik Þór Gunnarsson

Pistlahöfundur

Friðrik Þór er hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann er víðförull og hefur búið bæði í Bandaríkjunum og London. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi Vöku fls. og var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík frá 2017 til 2018.