Nýsköpun í heilbrigðismálum er nauðsynleg

eftir Ísak Einar Rúnarsson

Ein af stóru áskorunum minnar kynslóðar er að búa svo um hnútana að tækniframfarir skili sér inn í heilbrigðiskerfið án þess þó að skerða möguleika allra að sækja sér heilbrigðisþjónustu hér um bil að kostnaðarlausu.

Það kann að reynast þrautinni þyngri þar sem almennt má segja að í opinberum stofnunum séu breytingar hægari og oft nær ómögulegt að hreyfa við gömlum hefðum og það á einnig við um spítala og aðrar opinberar heilbrigðisstofnanir. Fyrirstaðan er ekki sú að læknar eða annað heilbrigðisstarfsfólk sé á móti tækni eða vilji ekki innleiða hana heldur er rekstrarformið einfaldlega þessum annmarka háð

Notkun á heilbrigðisþjónustu stendur í jákvæðu hlutfalli við aldur og því þarf ekki að undra að þar sem ævin lengist sífellt mun á næstu áratugum notendum heilbrigðisþjónustunnar fjölga og eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu stóraukast. Í dag er um 14,4% þjóðarinnar yfir 65 ára en árið 2030 er því spáð að 19,9% þjóðarinnar verði yfir þeim aldri. Árið 2050 er svo aftur búist við að 24,7% verði yfir 65 ára.

Kostnaður við heilbrigðiskerfi hefur verið að aukast jafnt og þétt og mun halda áfram að gera það nema að við finnum leiðir til þess að innlima tæknina í auknum mæli inn í heilbrigðisþjónustu. Á endanum hlítur eitthvað að bresta því útgjöld geta ekki aukist endalaust. Þá mun annað hvort þurfa að skerða þjónustu eða finna leiðir til þess að draga úr kostnaði við hvert verk án þess að gæðin rýrni.

Fyrri kosturinn hugnast fáum en svo hægt sé að feta braut seinni möguleikans kemur í rauninni aðeins eitt til greina. Það er aukin framleiðni eða það sem á mannamáli útleggst sem meiri afköst á hverja hendi, öllu heldur að nota tæknina í sem mestum mæli til þess að starfsfólk geti sinnt fleirum og nýtt tíma sinn betur til þess að sinna því sem nauðsynlegt er að manneskjur sinni.

Allt að fimmtungi fjár sóað

The Economist gerir þetta efni að umfjöllun sinni nú í vor en þar segir að sívaxandi kostnaður setji aukna pressu á heilbrigðiskerfi heimsins. Að fjármunir séu oft illa nýttir og að allt að fimmtungi fjárveitinga til heilbrigðiskerfisins sé sóað á Vesturlöndum. Það sé því jákvætt að tæknivæðing fái í auknum mæli byr í seglin á alþjóðlegum vettvangi.

Það er þó ekki að sjá að þessi umræða sé að eiga sér stað á Íslandi og þess þá síður að mælikvörðum um aukna tæknivæðingu eða skilvirkni sé til að dreifa. Á Íslandi virðist eini mælikvarðinn á gæði og framþróun heilbrigðiskerfisins vera sá, hversu mikil fjárútlátin eru. Sú umræða er að mínu mati of grunn.

Ég er ekki sá fyrsti til þess að gagnrýna þetta fyrirkomulag en það hefur talsvert verið gagnrýnt án þess að nokkuð hafi verið aðhafst, nú síðast af Viðskiptaráði í umsögn þeirra um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2018 og af Ásgeiri Jónssyni, deildarforseta Hagfræðideildar HÍ, í viðtali á Sprengisandi síðastliðinn sunnudag en þar sagði hann m.a.:

„Hvernig skilgreinum við gott heilbrigðiskerfi? Það eru engir mælikvarðar til. Það sem er alltaf talað um er hvað við eyðum miklum peningum í heilbrigðismál. Það er ömurlegur mælikvarði, vegna þess að það eru til lönd sem eyða miklum peningum í sín heilbrigðiskerfi, eins og Bandaríkin, en eru samt með ömurlegt kerfi.

Forgangsröðun skiptir máli. Hvaða mál eru það sem skipta mestu? Þessi umræða er bara ekki enn til staðar á Íslandi.“

Undir orð Ásgeirs er auðvelt að taka. Þetta er eitthvað sem ný ríkisstjórn verður að huga að, hvernig eigi að leysa fram úr þessari áskorun, að tryggja nauðsynlega tækni innleiðingu og framleiðniaukningu í heilbrigðiskerfinu því annars mun það á endingu éta okkur að innan.

Ef ekki er stemning fyrir því að innleiða einkarekstur í auknum mæli, sem alla jafna býr yfir hvötum til nýsköpunar, verða stjórnvöld að svara spurningunni, hvað þá?

Ísak Einar Rúnarsson

Pistlahöfundur

Ísak starfar sem sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands. Hann hefur áður starfað fyrir Háskóla Íslands, var formaður Stúdentaráðs og blaðamaður á Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.