Nýja uppáhalds sjónvarpsefnið mitt

eftir Tryggvi Másson

Er ekki Stranger Things. Heldur er það raunveruleikaþáttur sem hóf útsendingu sína áður en ég fæddist. Sjónvarpsefnið sameinar spennu, drama, sorg og skemmtun á einstakan máta sem fátítt er í öðrum sambærilegum þáttum. Áhuginn minn á þessum þætti kviknaði nýverið þegar skipt var út aðalpersónu þáttanna í miðri seríu. Það er óvenjulegt, en vanalega er þessum aðila skipt út á 5 ára fresti svo hann hefur nægan tíma til þess að koma sér inn í hlutverkið og láta til sín taka, en ekki í þetta skiptið.

Þættirnir heita Prime Minister‘s Questions (PMQ) eða „Spyrjum forsætisráðherrann“ (eins og ég kýs að kalla þá). Um hádegi hvers miðvikudags koma allir þingmenn (MPs) saman í þingsalnum við Westminster í London (þegar breska þingið er við störf). Þá hefst hálftíma fyrirspurnartími þar sem forsætisráðherra svarar spurningum annarra þingmanna við svokallað Dispatch box sem er ekkert annað en trékassi sem notaður er sem einhverskonar ræðupúlt. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar hefur einnig aðgang að slíkum trékassa andspænis forsætisráðherranum og honum fylgja venjulega 6 spurningar fyrir forsætisráðherrann. Annars geta þingmenn tilkynnt forseta þingsins að þeir hafi spurningu með því að standa upp. Dregið er svo að handahófi þann þingmann sem spyr næstu spurningar.

Á þessum stutta hálftíma er hlegið, öskrað, klappað og jafnvel grátið og eru gagnrýnendur einróma sammála um að fyrir áhorfendur er þetta hin mesta skemmtun. Það sést einna best á því að áhorfendastúkurnar eru troðfullar út að dyrum í hvert einasta skipti og fólk bíður í röðum eftir því að fá miða á „sýninguna“.

Aðhald stjórnarandstöðunnar við ríkisstjórnina – og öfugt?

Þessi vikulegi viðburður breska þingsins er tækifæri stjórnarminnihlutans til þess að spyrja forsætisráðherrann spjörunum úr og rekja úr honum garnirnar. Oftar en ekki sinna leiðtogar minnihlutans þessu hlutverki af mikilli alvöru og nýta sér þau tækifæri sem gefast þegar ríkisstjórnin misstígur sig. Núverandi leiðtogi minnihlutans, Jeremy Corbyn, hefur verið gagnrýndur mikið fyrir að vera ekki nógu beinskeittur við fyrrverandi forsætisráðherra, David Cameron. (1) (2) (3) Upp á síðkastið hefur þetta einhverra hluta vegna snúist við og David Cameron hefur svoleiðis látið Jeremy Corbyn finna fyrir þeim innbyrðis deilum sem Verkamannaflokkurinn á í.

Á síðasta PMQ David Cameron, þann 13. júlí, fékk Corbyn svo enn eitt tækifærið til þess að snúa taflinu við og hefja sók Verkamannaflokksins í ljósi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um áframhaldandi viðveru Bretlands í Evrópusambandinu. Það var eftir að Cameron sagði af sér en hann var hlynntur áframhaldandi veru í sambandinu en Corbyn ekki. Þrátt fyrir að Corbyn hafði slík vopn undir höndum náði Cameron að láta fyrirspurnartímann snúast um innbyrðis deilurnar innan Verkamannaflokksins í stað niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar:

  • Cameron tjáði Jeremy Crobyn að brátt yrði staðan 2:0 fyrir Íhaldsflokknum þegar kæmi að kvenkyns þjóðarleitogum. (00:00)
  • Cameron skaut á Verkamannaflokkinn fyrir að á meðan síðustu viku sinni í embætti stóð náði hann að segja af sér, nýjir frambjóðendur í formann stigu fram og formannskjör var háð á meðan Verkamannaflokkurinn er ekki enn búinn að ákveða hverjar reglur þeirra formannskjörs verða. (00:47)
  • Cameron dáðist að þrautsegju Corbyn og líkir honum við svarta riddarann í Monty Python myndinni the Holy Grail sem segist aðeins vera með skrámur þó hann sé búinn að missa báðar hendur og neitar að gefast upp. (01:54)
  • Að lokum las hann upp bréf sem hann fékk frá einhverri konu að nafni Judith sem bað Cameron að fara ljúfum höndum um Corbyn í hans fyrsta PMQ þar sem hann myndi hvort eða er sundra flokkinn innan frá. (02:10)

Síðasta tækifæri Corbyn til þess að sanna sig sem framtíðarleiðtoga Verkamannaflokksins kom svo í fyrstu PMQ nýs forsætisráðherra Theresu May þann 20. júlí síðastliðinn. En Theresa May steig fullmótuð að kassanum, líkt og hún hafi æft þetta alla ævi. May var vel upplýst og nýtti sér bitlausar spurningar Corbyn til þess svara vel fyrir sig og skjóta föstum skotum.

  • May svaraði þeirri spurningu, sem hún kvaðst hafa margoft fengið frá Verkamannaflokknum, um hvað Íhaldsflokkurinn gerði fyrir konur á eftirfarandi hátt: „Tja heldur bara áfram að gera okkur að forsætisráðherrum“. (03:40)
  • May segir við Jeremy Corbyn: „Hann talar um ósvífna stjórnendur og að það séu jafnvel margir hjá stjórnarminnihlutanum sem kannast við ósvifinn stjórnanda. Stjórnanda sem hlustar ekki á starfsmenn sína. Stjórnanda sem lætur suma starfsmenn vinna helmingi meira en aðra. Jafnvel stjórnanda sem nýtir sér reglurnar til þess að halda lífi í eigin starfsframa.“ Þarna á hún við Jeremy Corbyn sjálfan. (10:35)

Með þessu hafa bæði David Cameron og Theresa May slegið vopnin úr höndum Corbyn rétt eftir að honum hafði verið rétt þau á silfurfati. Stjórnmálamenn ættu ávalt að geta staðið á bakvið sínar eigin ákvarðanir og rökstutt þær skilmerkilega, hvort sem það sé undirbúið eða ekki. PMQ eru dæmi um viðburð þar sem slíkt á sér stað og veitir bæði stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu aðhald til þess sinna starfi sínu af heilum hug.

Óundirbúinn fyrirspurnartími á Alþingi – froðusnakk?

Ef bera mætti saman Prime Minister Questions við eitthvað hér á landi yrði það einna helst óundirbúinn fyrirspurnartími ráðherra á Alþingi. Þá koma þingmenn upp í pontu og leggja fram fyrirspurn fyrir ákveðinn ráðherra sem þarf að svara fyrir hann. Þessi fyrirspurnartími er oftar en ekki í upphafi þingfundar þar sem þingmenn spyrjast fyrir um einhver ákveðin mál við einhverja ákveðna þingmenn. Líkt og hjá Corbyn eru þetta oftar en ekki bitlausar spurningar sem auðvelt er fyrir ráðherra að svara og rata ekki í fjölmiðla einfaldalega vegna þess að það er ekkert fréttnæmt við þær, hvorki spurningarnar né svörin.

Þessi fyrirspurnartími er tækifæri fyrir stjórnarandstöðuna til þess að reka ráðherran á gat. Þetta er tækifæri fyrir stjórnarandstöðuna til þess að gera stöðu sína vænlegri fyrir komandi kosningar. Koma með vel undirbúnar spurningar sem setja ráðherra í erfiða stöðu. Tækifæri fyrir stjórnarandstöðuna að sýna kjósendum, fjölmiðlum og samþingmönnum sínum af hverju þeirra sjónarmið og hugsanir ættu að hafa meiri skírskotun til almennings.

Ég vil að óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi séu líka uppáhalds sjónvarpsefnið mitt. Ég vil að þingmenn tækli ráðherra (beint í boltann) sama hverjir eru við stjórnvöllin hverju sinni. Þetta er frábær leið til að virkja aðhaldshlutverk stjórnarandstöðunnar og getur einnig vakið áhuga okkar, almennings, á starfi þingsins með skemmtilegum hætti.

Það er gömul tugga að breyta þurfi umræðuhefðinni á Alþingi en á saman tíma hefur lítið verið um tillögur að lausnum í þeim efnum. Ég ætla að koma með eina tillögu. Gerum óundirbúinn fyrirspurnartíma á Alþingi að alvöru dagskrálið, ekki bara einhverjum hjáverkum svona í upphafi þingfundar. Gerum þennan fyrirspurnartíma meira eins og Prime Minister’s Questions.

Tryggvi Másson

Ritstjórn

Tryggvi er viðskiptafræðingur sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands vorið 2016. Hann starfar sem sérfræðingur á Efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins. Tryggvi var hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 ásamt því að sitja í ráðinu og hefur áður setið í stjórn Vöku fls. Aðaláhugamál Tryggva eru félagsstörf, hagsmunabarátta og stjórnmál. Skrif hans í Rómi eru að mestu leyti tengd menntamálum og viðskipta- og efnahagsmálum.