Ný peningastefna – nýtt Ísland

eftir Ritstjórn

Gangur virðist kominn í endurskoðun á peningastefnu landsins sem eru tvímælalaust stærstu fréttir vikunnar. Verkefnisstjórn um endurmat peningastefnunnar hefur verið skipuð þeim Ásgeiri Jónssyni, Ásdísi Kristjánsdóttur og Illuga Gunnarssyni. Markmiðið er að finna leiðir til þess að draga úr sveiflum á gengi krónunnar enda leiða þær til óstöðugleika alls efnahagslífsins og hærra vaxtastigs.

Athygli vakti að meðal hlutverka verkefnastjórnarinnar var að skoða mögulegar útfærslur á fastgengisstefnu í hefðbundnu formi eða í formi myntráðs. Þrátt fyrir það virðist gengið út frá því að krónan verði áfram álitinn framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar. Viðurkenna verður að svo mótsagnakennd skilaboð eru dálítið ruglingsleg. Svo virðist sem ennþá eigi ríkisstjórnin erfitt með að ákveða sameiginlegaa í hvaða átt hún vilji fara með peningastefnuna.

Svo virðist þó sem flestir stjórnmálamenn og álitsgjafar lesi í stöðuna að krónan sé að fjarlægjast yfirvöldum sem framtíðarkostur. Össur Skarphéðinsson, fyrrum þingmaður og ráðherra, dró þann lærdóm helstan úr skipan verkefnisstjórnarinnar að hún væri vilhöll undir Evruna. Samtímis er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, verndarengill krónunnar, farinn í hart við fjármálaráðherra yfir orðum hans um að krónan sé slæmur framtíðarkostur.

Sigmundur segir rök fjármálaráðherrans ekki halda vatni: „Skondnust eru þó rökin. Áður var krónan sögð ómöguleg vegna þess að hún var of veikur gjaldmiðill og fólk væri að flytja til útlanda af þeim sökum. Nú segir ráðherrann vandamálið vera að krónan sé of sterkur gjaldmiðill og því færist störf úr landi.“ Erfitt er að átta sig á því hvort Sigmundur gerir sér grein fyrir því að með orðum sínum varpar hann ljósi á helstu rökin fyrir upptöku nýs gjaldmiðils. Það er nefnilega ekki svo endilega að krónan sé annaðhvort of sterkt eða of veik heldur eru einmitt sveiflur hennar vandamálið.

Í því ljósi er mjög athyglisvert að hugsa um orð fjármálastjóra Advania, Evu Sóleyjar Guðbjartsdóttir, á peningamálafundi Viðskiptaráðs í nóvember síðastliðnum. Þar sagði hún að fyrirtækið hefði lagt upp með þá stefnu að flytja út hugvit til Norðurlandanna í ljósi lágs gengis krónunnar og þar með tiltölulega ódýrum mannauði í hlutfalli við önnur Norðurlönd. Innan fárra ára hafi hins vegar krónan sveiflast svo mikið að nú væri fyrirtækið eiginlega orðið að innflytjanda hugvits sökum sterks gengis krónunnar. Það er augljóst hversu erfitt er fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki að gera raunhæfar langtímaáætlanir í slíku efnahagsumhverfi. Þess ber að geta að krónan hefur hækkað um 17,7% gagnvart Evru á síðastliðnu ári.

Þá ber jafnframt að nefna vangetu Seðlabankans til þess að mæta verðbólgumarkmiði í ljósi þess hve verðlag er næmt fyrir breytingum á gengi krónunnar. Á Íslandi er jafnan talað um að gengisleiðni sé um 30-40%. Það þýðir að ef krónan lækkar um 1% hækkar almennt verðlag um sem nemur 0,4%. Þegar þjóðarbúið verður fyrir skelli mun verðbólga skjótast upp í hæstu hæðir líkt og gerðist árið 2008-2009. Seðlabankinn á því í jafnmiklum erfiðleikum með að halda verðlagi stöðugu og fyrirtæki að gera langtímaplön sem ganga upp.

Þegar kemur að útskipingu krónunnar er sá galli á gjöf Njarðar að vinnumarkaðurinn verður að taka stakkaskiptum og um svona afdrifaríkar aðgerðir þarf að ríkja pólitísk samstaða. Þrátt fyrir að allir stjórnmálaflokkar vilji breytta peningastefnu vill aðeins helmingur þeirra taka upp nýja mynt eða ígildi þess (myntráð). Þá eru úrslit formannskosninga í VR áhyggjuefni en nýkjörinn formaður hefur lýst yfir andstöðu við SALEK samkomulagið sem er grundvöllur fyrir stöðugum vinnumarkaði.

Ef skipta á um gjaldmiðil, sem yrði farsælast fyrir þjóðarbúið til langtíma, er sennilega best að gera það hægt en örugglega. Undirstöðuatriðin þurfa að vera í lagi – landsmenn þurfa tíma til þess að byggja upp samstöðu og treysta vinnumarkaðinn. Verkefnisstjórnin leggur því vonandi til upptöku nýs gjaldmiðils í 15-20 ára plani.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.