Nú þegar Ísland er komið á kortið

eftir Gylfi Þór Sigurðsson

„Ísland er svo lítið og þess vegna verður þetta að vera svona.” Þetta er frasinn sem ég heyrði ófáum sinnum í gegnum uppeldið. Á sama tíma leit ég á landakortið og sá þessa litlu eyju, staðsetta út á miðju hafi. Við litum svo sannarlega út fyrir að vera einangruð, og með þessum rökum hefur verið fært að skerða ýmis lífsgæði Íslendinga – sem öðrum Evrópubúum þykir sjálfsögð. Hluti vandamálsins var sagður vera lítil þekking útlendinga á landinu og markmið Íslendinga virtist oft vera að „koma Íslandi á kortið.“ Þannig urðu til að mynda Jón Páll, Björk og Sigur Rós að hálfgerðum þjóðarhetjum vegna góðrar landkynningar.

Síðan þá hefur hins vegar runnið upp fyrir mér að það sé ekki Atlantshafið eða fjöldi Íslendinga sem fjarlægir Ísland frá umheiminum. Með meiri alþjóðavæðingu og minnkandi ferðakostnaði ætti Ísland aldrei að hafa verið nær öðrum ríkjum. Landkynning er heldur ekki lengur vandamál og enginn talar lengur um að koma þurfi Íslandi á kortið. Afþreying og flest menningargildi innleiðum við strax annað hvort frá Evrópu eða Norður Ameríku, jafnframt hefur fjöldi ferðamanna og þá sérstaklega í Reykjavík sett svip sinn á menninguna og núorðið upplifa margir Reykjavík sem hefðbundna evrópska borg.

Sjálfsköpuð vandamál

Það eru aðrir þættir sem fjarlægja samt sem áður Ísland frá hinu alþjóðlega samfélagi. Sjálfsskapaðir þættir. Þarna á ég við regluverk sem lætur Ísland líta sveitalega út í alþjóðlegum samanburði. Maður spyr sig, til dæmis, af hverju ekki megi nota Uber á Íslandi, af hverju takmörk séu fyrir því hversu mikið leigja megi út með Airbnb og af hverju það hafi tekið okkur sex ár að ákveða hvort Netflix ætti að vera leyft hér á landi. Þetta eru dæmi um takmarkað val íslenskra neytenda í samanburði við aðrar þjóðir vegna ósveigjanlegrar regluumgjarðar hér á landi.

Regluverkið á þó ekki aðeins við um einstakar vörur og þjónustu heldur geta þær haft áhrif á heila samkeppnismarkaði með neikvæðum áhrif á neytendur. Það er vert að spyrja sig af hverju komi aðeins tvö gámafyrirtæki til Íslands og fjögur olíufyrirtæki? Af hverju má ég ekki taka fasteignalán hjá þýskum banka eða borða svissneskan ost og spænskt nautakjöt? Þó rekstraraðstæður sumra atvinnugreina séu vissulega með þeim hætti að erfitt sé að hafa mörg fyrirtæki í keppni þá verður að lágmarka skaðann með hagkvæmu regluverki. Annars þurfa neytendur að sitja uppi með reikninginn.

Regluverk með þveröfug áhrif

Regluverk myndast hægt og rólega og á það til að flækjast með tímanum. Regluverk er samheiti yfir fjölda laga og reglna sem eiga yfir ákveðinn iðnað. Í regluverki geta falist leyfisumsóknir og skilyrði fyrir leyfi sem oft getur verið kostnaðarsamt að uppfylla. Reglugerðir þessar eru oft réttlættar út frá neytendasjónarmiðum, en koma á endanum niður á neytendunum sjálfum. Gott dæmi um þetta er rökstuðningur leigubílstjóra gegn Uber. Sumir telja að leigubílstjórar með tiltekin réttindi veiti neytendum öryggi sem væri ekki hægt að tryggja ef hver sem er fengi að keyra leigubíl.

Regluverk hækkar kostnað fyrirtækja og fækkar þannig samkeppnishæfum fyrirtækjum á hverjum markaði. Slík fákeppni, eða jafnvel einokun, skilar sér síðan í verðlagið með hærri álagningu. Þannig má rekja rætur frasa um hátt vaxtastig, hátt matvæla- og olíuverð og ófjölbreytni í vöruúrvali og afþreyingu til regluverks sem vinnur gegn samkeppni – og þar af leiðandi neytendum.

Að búa í alþjóðlegri borg á Íslandi

Eftir að hafa dvalist í Frakklandi sem skiptinemi í nokkra mánuði hef ég áttað mig á ýmsu. Ég hef áttað mig á því að mig langar til þess að búa í alþjóðlegri borg en mig langar til þess að búa á Íslandi. Mig langar til þess að geta valið úr sömu vörum og þjónustu og aðrir Evrópubúar en mig langar til þess að búa á Íslandi. Ég vil búa í landi þar sem ég get valið úr fjölda fyrirtækja sem starfa í samkeppni eins og unnt er en mig langar að búa Íslandi.

Hver veit nema einn daginn verði allir þessir draumar að veruleika. En til að það gangi upp ættu stjórnmálamenn kannski að hætta að banna alltaf fyrst og leyfa svo. Regluverkið þarf ekki að vera jafnflókið og raun ber vitni, og ættu stjórnmálamenn að leita leiða til að einfalda það. Þannig er kostnaður fyrirtækja minnkaður sem leiðir til meira úrvals og lægra verðs fyrir neytendur og þannig samkeppnishæfari lífsgæða fyrir Íslendinga.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund

Gylfi Þór Sigurðsson

Pistlahöfundur

Gylfi Þór er hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands en starfar núna hjá tryggingarfélagi. Áhugamál hans eru félagsstörf, ferðalög og líkamsrækt.