Nú er ekki rétti tíminn

eftir Ritstjórn

Enn og aftur hefur steinn verið lagður í götu byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Það er sama þó að vista þurfi sjúklinga í bílageymslu spítalans utan háannartíma. Það er sama þó að ljóst hafi verið fyrir 15 árum síðan að húsakostur spítalans væri alltof lítill. Það er sama þó að læknar vilji ekki koma aftur til Íslands eftir nám útaf vinnuaðstöðu sinni, eða að loftræsting rúmist ekki í hluta spítalans. Það er sama þó að tæp tvö ár séu liðin frá því að þingsályktunartillaga um endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut hafi verið einróma samþykkt á Alþingi, og já líka af hæstvirtum forsætisráðherra Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Það verður samt, að mati ákveðinna aðila, að setja plönin á ís og eyða dýrmætum tíma í að ræða enn einu sinni um aðrar staðsetningar.

Einn af þeim sem hefur tekið áformin gíslingu er einmitt hæstvirtur forsætisráðherra en í blogginu sínu síðastliðinn föstudag velti hann fyrir sér ,,hvort aðrir kostir kunni að vera betri en Hringbraut miðað við núverandi aðstæður, það sem hefur breyst og það sem við höfum lært á síðustu fimmtán árum.” Hann er mjög heppinn að ráðgjöf KPMG var fengin til að kanna akkúrat þetta fyrir tæpu ári síðan og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ,,tilefni til að breyta fyrirliggjandi ákvörðun um að byggja nýjan spítala við Hringbraut.”

Ástæða uppþotsins er tillaga Gunnars Einarssonar, bæjarstjóra Garðabæjar, sem kom í fréttir á fimmtudaginn um að byggja spítalann á Vífilsstöðum í stað Hringbrautar. Kallaði hann áformin um stækkun spítalans í miðborg Reykjavíkur ,,arfavitlaus”. Það er ekki skrítið að bæjarstjóri Garðabæjar taki svo til orða um staðarvalið, í ljósu stöðu hans, en þetta mál varðar heilsu allrar þjóðarinnar og hefur mátt bíða alltof lengi.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, er ekki hrifinn af þessu útspili Gunnars og Sigmundar Davíðs. Í forstjórapistli á föstudaginn ítrekaði hann þá ,,gífurlegu” þörf fyrir nýjan spítala og sagði ekkert mætti stöðva þá uppbyggingu sem hafin væri. Jafnframt sagði hann að skyldu Vífilsstaðir verða fyrir valinu myndi sú undirbúningsvinna tefja byggingu spítalans um 5-10 ár ásamt því að dreifa starfseminni á þrjá staði vítt og dreift um höfuðborgarsvæðið til fjölda ára. Ein aðalástæða þess að byggja nýjan spítala hefur verið sú að koma allri starfsemi Landspítalans undir sama þak en ekki þrjú mismunandi.

Heilsa þjóðarinnar hefur ekki endalausan tíma

Nú þegar eru framkvæmdir hafnar við nýtt sjúkrahótel við Hringbraut og stefnt er að því að það verði tekið í notkun árið 2017. Sjúkrahótelið er fyrsta byggingin í því sem á að verða nýr Landspítali við Hringbraut. Áðurnefnd úttekt KPMG staðfesti Hringbraut sem ákjósanlegasta kostinn næstu tugi ára og það er það sem skiptir máli, að tryggja heilsu Íslendinga næstu árin.

Það kann að vera að Vífilsstaðir séu betri staðsetning um ókomna framtíð og það er upplagt að byrja að tala um næstu staðsetningu sem fyrst ef umræðan um nýjan spítala verður alltaf með þessum hætti. Það er hins vegar varhugavert af forsætisráðherra að stíga inn í umræðuna með þessum hætti. Heilsa þjóðarinnar er háð því að byggingin verði ekki tafin lengur og má ekki verða pólitískt þrætuepli enn og aftur. Það er ekki hægt að bíða lengur.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.