Nokkur orð um heita potta

eftir Guðmundur Snæbjörnsson

Hugsunin á bak við vörumerki er ekki flókin. Vörumerkjum er í grunninn ætlað að tengja vöru við uppruna. Varan er merkt með tilteknu auðkenni og neytandi telur vöruna stafa frá ákveðnum framleiðanda. Vörumerki þarf jafnframt að vera hægt að greina frá vörunni sem seld er og öðrum vörumerkjum á sama sviði.

Hugverkastofan gætir þess að vörumerki hafi nægileg sérkenni til að hlotnast réttarvernd en annars skráir stofnunin ekki merkið. Vörumerki sem skortir sérkenni getur öðlast sérkenni á grundvelli notkunar. Í fljóti bragði mætti t.d. hugsa um vefsíðuna leit.is, sem er brennd í huga margra sem íslenska leitarvélin, þrátt fyrir að heita afar almennu heiti. Á hinn bóginn getur vörumerki tapað sérkenni sínu, t.d. vörumerkið Google, sem margir telja að gæti tapað vörumerkjavernd sinni eftir því sem fólki verður tamara að nota orðið „gúggla“ í daglegum samskiptum.

Hugsanir höfundar um þessi mál kviknuðu á ferðalagi hans milli heita og kalda pottsins í Vesturbæjarlaug. En á síðasta ári fóru í loftið tvær athyglisverðar vefsíður; www.heiturpottur.is og www.kaldurpottur.is. Líkt og glöggir lesendur hafa ef til vill áttað sig á eru þar um að ræða sölusvæði heitra potta. Ofangreindar vefsíður vöktu sérstaka athygli eiganda veflénsins www.heitirpottar.is, sem jafnframt selur heita potta. Hann var ekki skráður eigandi vörumerkis undir sama heiti en hafði lengi notað lénið í rekstri sínum.

Í 15. gr. a. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu kemur fram að aðili megi ekki í atvinnustarfsemi sinni nýta merki sem hann á ekki rétt til. Þá er bann lagt við að nota auðkenni sem aðili á vissulega tilkall til ef ruglast megi á vörumerkinu og merki annars fyrirtækis.  Félögum er með öðrum orðum bannað að auglýsa sig með vörumerkjum annarra félaga, eða hafa vörumerki sem eru svo lík vörumerkjum annarra félaga að ruglingi geti valdið.

Rekstraraðili heitra potta kvartaði því undan heitum og köldum potti til Neytendastofu, sem er erfitlitsaðili ofangreindra laga. Hann taldi að fólk sem vafraði á veraldarvefnum gæti fyrir misskilning smellt heitum pottum í eintölu og rambað á vefsíðu keppinautarins. Þá þarf aðeins að hella köldu vatni í heitan pott og þá er hann orðinn kaldur, eða í það minnsta volgur. Söluvörurnar væru í raun hinar sömu.

Neytendastofa tók undir með kvartanda að www.heitirpottar.is hefði fyrr komið á markað og ljóst var að samkeppni væri með aðilum. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði því mátt telja að allar forsendur væru til þess að telja aðstandendur heits og kalds potts brjóta gegn rétti kvartanda.

Hins vegar taldi Neytendastofa að hér þyrfti að líta til sérstaks eðlis vörunnar. „Heitir pottar“ er einfaldlega „heitir pottar“. Orðsambandið er almennt, lýsandi og vísar skýrlega í söluvöruna. Ekkert aðgreinir vörumerkið frá vörunni sjálfri.  Á þeim grundvelli taldi Neytendastofa að „heiturpottur“ og „kaldurpottur“ bryti ekki gegn rétti „heitrapotta“.

Af ákvörðuninni má sjá hvernig það geti  snúist í andhverfu sína ef aðili ákveður að selja vöru undir „besta heitinu“. En flestir  myndu í fljótu bragði telja að best væri að selja vöru undir sínu eigin heiti. Vörumerkið fæst mögulega ekki skráð opinberri skráningu ef sú vegferð er farin og lítið hindrar aðila á markaði  frá því að selja vörur undir sambærilegu heiti. Það er mikilvægt að velja sérkennandi vörumerki til að markaðssetja vöru áður en riðið er úr hlaði.