Niðurgreidd hagsmunagæsla

eftir Ritstjórn

Í vikunni sem leið snerist umræðan að mestu leyti um tvennt, frumvarp menntamálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna og forsetakosningar. Það var viðbúið og var síðasti pistill ritstjórnar býsna sannspár um viðbrögðin við frumvarpi Illuga þótt ef til vill verði róðurinn örlítið þyngri fyrir ráðherrann heldur en vonir stóðu til. Í raun verður það að teljast fádæma afrek að fá svo slæma umræðu um eins gott frumvarp og raun ber vitni.

Það er ansi ómálefnalegt ef koma á í veg fyrir umræðu um frumvarpið. Líkast til ráða þar skammtímahagsmunir einstakra flokka, í stað langtímahagsmuna þjóðarinnar, enda hafa stúdentar kallað eftir því að frumvarpið verði rætt

 

Hlutverk hins opinbera

Í hamaganginum var þó öllu minna fjallað um annað mál sem í upphæðum telst smátt í samanburði við fyrrnefnt frumvarp um lánasjóðinn. Það mál er þó ansi mikilvægt því það fjallar um hlutverk hins opinbera en þau Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson lögðu fram frumvarp þess efnis að Lög um Félagsmálaskóla alþýðu féllu á brott. Frá árinu 2007 hafa 160 milljónir runnið til skólans, sem sér um fræðslustarfsemi ASÍ og BSRB fyrir trúnaðarmenn, stjórnarmenn og starfsfólk stéttarfélaga.

Það er sjálfsagt og ef til vill þarft fyrir hagsmunasamtök sem þessi að halda úti fræðslu fyrir liðsforingja sína í skotgröfunum. Hins vegar verður ekki framhjá því litið að það skýtur skökku við þegar ríkissjóður er farinn að greiða fyrir hagsmunagæslu sem er ætlað m.a. að hafa áhrif á starfsemi ríkisvaldsins. Slíkt þekkist ekki, nema kannski í tilfelli Bændasamtakanna sem hafa haft nánast opinn tjékka ríkisvaldsins til þess að stunda sína sérhagsmunagæslu með árangri eftir því.

 

Reiði hinna réttlátu

Rétt er hægt að ímynda sér reiði hinna réttlátu ef Samtök atvinnulífsins eða Viðskiptaráð, svo dæmi séu nefnd, væru á ríkisspenanum. Ef svo bæri undir, væri reiðin svo sannarlega réttmæt enda ótækt með öllu að hagsmunagæsla sé niðurgreidd.

Í þessu samhengi þarf einnig að líta til þess að launþegum er skylt að greiða umtalsverðar fjárhæðir í hverjum mánuði til stéttarfélaga sem að renna svo að einhverju leyti til móðursamtakanna. Í því ljósi er eðlilegt að Alþýðusambandið og BSRB greiði sjálf fyrir fræðslu þegar kemur að eigin hagsmunabaráttu. Harðri baráttu sem nú í síðustu viku skilaði þeim því að frumvörp Eyglóar Harðardóttur í húsnæðismálum, sem með réttu ættu að vera kölluð frumvörp um aukna aumingjavæðingu Íslendinga, voru samþykkt á Alþingi.

Þegar á heildina er litið má með sanni segja að frumvarp þeirra Vigdísar og Guðlaugs Þórs sé mjög þarft, sérstaklega ef það veikir baráttu ASÍ fyrir því að Íslendingar verði bótavæddir. Því hlutverk ríkissins á svo sannarlega ekki að vera að niðurgreiða baráttu fyrir úr sér gengnum hugmyndum.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund. 

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.