Neytendur í neðsta sæti

eftir Ritstjórn

Fátt er gleðilegra en þegar stjórnvöld ráðast í endurbætur á kerfinu. Fornaldarbáknið, sem á sér oftar en ekki annað til varnar en hefðina, berst þó yfirleitt hetjulega á móti, jafnvel svo árum skipti. Þegar sá slagur er unnin er ekki nema formsatriði að stjórnvöld stigi næsta skref. Að setja málin í bráðnauðsynlega þriggja ára nefndarvinnu með tilheyrandi frestum.

Þó Rómverjar leggi upp úr fjölbreytni í efnistökum og hafi landbúnað ekki á heilanum er tilefni til að fjalla um nýja búvörusamninga. Lengi hefur verið kallað eftir endurskoðun á landbúnaðarkerfinu en niðurstaðan fer hins vegar þvert gegn ríkjandi sjónarmiðum og er Rómverjum hulin ráðgáta. Ekki nóg með það að samningarnir kalli á bein framlög úr ríkissjóði sem nemi 132 milljörðum næstu 10 árin heldur á eftir að taka með í reikninginn gífurlegan óbeinan kostnað. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir til að mynda heildarkostnaðinn nema 220-240 milljörðum á næstu 10 árum. Jafnframt reiknaði Ásgeir Friðrik, hagfræðingur og Rómverji, óbeinan kostnað af gamla kerfinu nánast tvöfalt hærri en beina kostnaðinn í pistli síðastliðinn mánudag og má því ætla að mat Andrésar sé líklega innan skekkjumarka. Einnig hefur Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við HÍ, bent á að nýtt styrkjafyrirkomulag hvetji bændur til að framleiða eins mikið og þeir geta, burtséð frá eftirspurn, til þess að ná sem stærstum hluta úr styrkjakökunni sem ríkið bakaði. Á mannamáli kallast það sóun.

Fólk spyr sig kannski; Hversu mikið eru 220-240 milljarðar? Í Landspítalaeiningum, sem Rómverjar eru einkar hrifnir af, eru það hátt í þrír spítalar.

Samningarnir látnir fljúga undir ratsjánni

Því má einnig velta fyrir sér, hvers vegna einu aðilarnir sem koma að gerð slíkra samninga séu bændasamtökin og stjórnvöld, en ekki neytendur. Margsinnis hefur verið bent á kostnaðinn sem neytendur hljóta af núgildandi samningum og ef marka má áðurnefnda greiningu þá mun ekki draga úr honum. Þvert á móti voru búvörusamningarnir nýsamþykktu látnir fljúga undir ratsjánni, en t.d. kom ekki ein tilkynning á vef ráðuneytisins um samningana fyrr en þeir voru samþykktir og fengu hagsmunaaðilar ekki að sjá drögin fyrr en tíu dögum fyrir samþykkt þeirra.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, heldur þó öðru fram og kom samningunum til varnar á bloggsíðu sinni. Sagði hann stuðning við innlenda matvælaframleiðslu snúast um að spara gjaldeyri og að ,,stuðninginn mætti allt eins kalla neytendastyrki.” Jafnframt sagði hann stuðninginn leiða til lægra vöruverðs til neytenda. Það er varhugavert þegar forsætisráðherra fer frjálslega með staðreyndir. Styrkirnir koma úr vösum neytenda og margoft hefur verið bent á að styrkir sem þessir leiði til óhagkvæmni, sem eykur kostnað neytenda enn meira.

Samningarnir hafa þó ekki tekið gildi. Bændur eiga eftir að samþykkja hann, sem er afar líklegt, og síðan þarf að samþykkja breytingu á búvörulögum á þingi. Ljóst er hvaða afstöðu Framsóknarmenn taka en Rómverjum hefur jafnframt borist til eyrna að hinir flokkar Alþingis muni fylgja þeim eftir, stjórn jafnt sem stjórnarandstaða.

Er það liðin tíð að kjörnir fulltrúar taki afstöðu með neytendum, ,,fólkinu í landinu?”

 

Að öðru: Þökkum frábærar viðtökur

Þó nýir búvörusamningar gefi Rómverjum ekki tilefni til að fagna er nægt tilefni þó. Rómur hefur fengið viðtökur sem fara langt fram úr björtustu vonum. Undanfarna viku hafa um 6.500 manns gert sér ferð inn á síðuna og síðuflettingar verið yfir 22.000. Þá hafa fjölmiðlar gert sér mat úr Rómi en meðal annars hafa bæði Viðskiptablaðið og Viðskiptamogginn fjallað um greinaskrif okkar. Við þökkum auðmjúklega fyrir frábærar viðtökur og lofum því að Rómurinn muni hækka enn frekar næstu misserin.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.