Neyta eða njóta?

eftir Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Á hverjum degi er okkur sagt að kaupa meira, neyta meir og eiga meir. Hvort sem sannfæringarnar koma gegnum beinar auglýsingar eða gegnum svokallaða áhrifavalda, er okkur talin trú um mikilvægi aukinnar neyslu á áþreifanlegum varning, algerlega óháð okkar raunverulegum þörfum. Með aktívri þátttöku í þessu veraldlega kapphlaupi okkar virðumst við með engu móti gera okkur grein fyrir raunverulegum áhrifum okkar gjarða á heimsmyndina eða að við afsökum okkur og teljum okkur sjálfum trú um að við séum jú einungis “one-in-8-billion” og að okkar neyslumynstur skipti þar með litlu sem engu máli. En erum við tilbúin til að sætta okkur við afleiðingarnar?

Sem svörun við núverandi heimsmynd og neyslumynstri heimsbyggðar innleiddu Sameinuðu Þjóðirnar hin svokölluðu Sjálfbærnimarkmið eða Heimsmarkmið (e. Sustainable Development Goals) í september 2015. Þessi markmið eru samansafn af 17 metnaðarfullum markmiðum sem stefna að algerlega sjálfbærum heimi fyrir árið 2030. Tilgangurinn er að neysla okkar bitni hovrki á lífskilyrðum annarra af sömu kynslóð t.d. af öðrum heimssvæðum, né á komandi kynslóðum.

Á heimsvísu hafa fleiri samþykktir verið innleiddar eins og Parísarsamkomulagið, sem munu jafnvel hafa ákveðnar hagfræðilegar afleiðingar fyrir lönd og fyrirtæki sé þeim ekki fylgt eftir, þó vægar séu þær. Á sama tíma fyrirfinnst aukinn þrýstingur frá almenningi sem að má að einhverju leyti rekja til vaxandi vitundarvakningar á samfélagsmiðlum, sem hafa opnað augu margra gagnvart ástandinu annars vegar en í sínum eigin heimabæ. Það eru því margir sem þegar vilja sjá breytingar og hafa jafnvel hafið breytingar á eigin hegðunarmynstri.

En þetta virðist einfandlega ekki vera nóg. Þrátt fyrir Parísarsamkomulagið, Sjálfbærnimarkmiðin, málefnalega vitundarvakningu og fleiri aðgerðir, bæði meðal almennings, fyrirtækja og meðal alþjóðlegra stofnanna og ríkisstjórna, þá stefnum við enn með hraðbyr á að eyðileggja fyrir okkur sjálfum sem og komandi kynslóðum. Þrátt fyrir að við verðum var við viðurstyggilegt myndefni af ströndum yfirfullum af plasti höldum við áfram að taka plastpoka og kaupa matvörur vafnar inn í óþörf lög af plasti. Þrátt fyrir að horfa upp á jarðhlýnun, miklar veðurfarsbreytingar, útdauða fleiri fleiri sjávardýra sem og annarra dýra höldum við áfram að keyra um á einkabílnum okkar og versla inn vörur sem við getum ekki einu sinni rakið upprunann af. Þrátt fyrir að vita að hungursneyð og matarsóun séu ein helstu vandamál heimsins hendum við mat eins og við fáum borgað fyrir það, neytum of mikils og skiljum eftir til þess að líta út fyrir að hafa einhverskonar sjálfstjórn. En hvenær er komið nóg?

Tilraun hefur verið gerð að skilgreina hin svokölluð landfræðileg mörk (e. planetary boundaries) af Rockström ofl. (Rockström et al.), sem rekja það hve langt mannkynið hefur gengið að jörðinni. Af þeim níu skilgreindu mörkum hefur okkur þegar tekist að rjúfa þrjú þeirra á óafturkræfan hátt: tap á líffræðilegum fjölbreytileika, hringrás köfnunarefna, og loftlagsbreytingar. Eins sorglegt og þetta kann að hljóma, þá er engu að síður hægt að stöðva þetta ferli eða í það minnsta hægja á því. Rök hafa meira að segja verið færð fyrir því að heimsmarkmiðunum geti verið náð (Michael Green, TED Talk: Social Pogress Index, https://www.socialprogressindex.com/). Sitjum því ekki lengur á rassgatinu og horfum á þessa hryllingsmynd gerast, heldur tökum öll til hendinnar og leggjum okkar af mörkum: vörumst plast og önnur óþörf efni, verum meðvituð um uppruna okkar neysluvarnings, sýnum nægjusemi, endurnýtum, endurvinnum, og minnkum neyslu. Ef ekki fyrir okkur sjálf, þá í það minnsta fyrir þá sem þetta bitnar mest á í heiminum, eða komandi kynslóðir og afkomendur okkar.

Spyrjum okkur svo að lokum: Er ég meiri manneskja ef ég á meira eða ef ég gef meira af mér?

 

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Ragnheiður Björk er meistaranemi í stjórnun ásamt iðnaðarverkfræði í Tækniháskólanum í Munchen og lauk BSc í iðnaðarverkfræði frá HÍ. Hún vinnur nú að meistaraverkefni sínu um lokun virðisaukakeðju vöruframleiðanda og hefur reynslu úr iðnaðnum eftir að hafa unnið hjá McKinsey, Daimler Mercedes Benz Cars og BMW í Þýskalandi. Áður stýrði hún Formula Student liði HÍ við hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls. Skrif hennar í Rómi beinast að femíniskum viðhorfum og áhrifum hnattvæðingar og gróðurhúsaáhrifa á alþjóðasamfélagið.