Nei, ég er með flensuna…

eftir Páll Óli Ólason

„Nei, ég komst ekki, var heima með flensu“ er eflaust setning sem flestir kannast við að hafa notað, þar sem átt er við efri öndunarfærasýkingu með einkennum eins og kvefi, hósta, mögulega hita og slappleika. Veikindi sem ullu því að við vorum heima undir sæng að horfa á heilu þáttaraðirnar á Netflix. Í flestum tilvikum er þó ekki um sjálfa inflúensuna að ræða heldur aðrar veirupestir, eins og kvefpestirnar sem geta verið ansi lúmskar. Nú um miðjan september var byrjað að bólusetja við inflúensu, árgangi 2017-2018 og því ekki úr vegi að skerpa á því hvað inflúensan er, hver einkennin eru, hvers vegna það er bólusett fyrir henni árlega og hverjir þurfa hana frekar en aðrir.

Hvað er inflúensan?

Hin árlega inflúensa er sýking sem stafar af veiru, ekki bakteríu, sem þýðir að sýklalyf virka ekki gegn henni. Sárafá lyf gagnast við henni sem gerir bólusetningu ennþá mikilvægari, og þar með bestu vörnina gegn henni. Inflúensuveiran kemur úr hópi orthomyxoveira, einum hópur RNA-veira og flokkast í inflúensu A, B, C og D þar sem fyrstu þrjár sýkja okkur mannfólkið. A er þeirra skæðust enda var einn frægasti inflúensuheimsfaraldurinn ein týpa hennar, svokölluð spænska veikin sem herjaði á heiminn mili 1918 og 1920 og felldi tugi milljóna manna. Það er misjafnt milli ára hvenær hún kemur til landsins en oftast er það á tímabilinu frá október fram í janúar. Hún stendur að jafnaði yfir í um 2-3 mánuði en getur þó verið lengur eftir hennar hentisemi. Í ár hefur sóttvarnarlæknir fengið nokkur staðfest tilfelli um inflúensu en þó þykir full snemmt að áætla að inflúensutíðin sé hafin.

Frá smiti að fyrstu einkennum líða yfirleitt um tveir dagar. Einkennin byrja skyndilega og eru þau helstu: hár hiti (yfir 38,5°C), beinverkir, hálssærindi, þurr hósti, höfuðverkur og stöku nefrennsli, auk slappleika sem fær fólk oftar en ekki til að steinliggja undir sæng. Hitinn varir alla jafna í 4-5 daga, bein- og höfuðverkur eru verstir fyrstu 2-3 daga sem og hóstinn á meðan nefrennslið getur verið í meira en viku og þreytan í nokkrar vikur. Inflúensan er smitsjúkdómur og byrjar einstaklingurinn að smita út frá sér um það bil einum degi fyrir fyrstu einkenni. Hann er síðan smitandi í um 10 daga eftir það. Oftast gengur þetta yfir án vandkvæða þar sem einstaklingurinn þarf aðeins að fara vel með sig, halda sig heima og hvílast, taka hitalækkandi lyf og ná pestinni úr sér. Þar er það þolinmæðin sem gildir og maður þarf að passa sig að fara ekki of geyst af stað og vera frekar lengur heima, bæði fyrir sjálfan sig og til að minnka líkur á frekara smiti.

Af hverju bólusetning og þarf að fara á hverju ári?

Þó svo að alla jafna sé inflúensan hættulaus á hún sínar hættulegu hliðar. Veikir einstaklingar, sérstaklega þeir sem vegna annarra undirliggjandi sjúkdóma hafa ekki líkama sem er í stakk búinn til að takast á við hana, geta fengið alvarlega fylgikvilla á borð við lungnabólgu. Bæði getur inflúensan sjálf valdið lungnabólgu en einnig getur bakteríulungnabólga komið ofan í veiruna og þannig valdið í versta falli ótímabæru andláti viðkomandi. Einkenni lungnabólgu koma fram seinna í veikindunum og er stundum talað um tvífasa veikindi þar sem einstaklingurinn varð veikur, lagaðist aðeins en versnaði síðan aftur. Það er vegna þessa sem bólusetningin er svo mikilvæg.

Eins og fram kemur hér að ofan er bólusetning sú aðgerð sem minnkar hvað mest líkur á því að veikjast. Þannig eru einstaklingar 65 ára og yngri í um 60-85% minni hættu á að smitast séu þeir bólusettir. Þó er það misjafnt á milli ára þar sem bóluefnin eru misjöfn milli ára.  Ástæðan fyrir því er í stuttu máli að veiran skiptir um genasamsetningu sem veldur því að bóluefnið virkar ekki. Þannig er bóluefni hvers árs byggt á eldri stofnum og er þannig verið að skjóta á þá stofna sem líklegast eru að valdi komandi pest. Það er alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sem ákveður hvaða stofnar eru valdir en bóluefnið sjálft er þrígilt, þ.e. inniheldur þrjá stofna. Tveir af þeim eru af Influensu A stofni og einn af B.

Hverjir þurfa bólusetningu?

Það þurfa ekki allir að fá bólusetningu við inflúensu. Í ár er búið að panta hingað til lands 65.000 skammta eða sem samsvarar um ⅙ þjóðarinnar. Mælt er með að eftirfarandi einstaklingar hafi forgang á bóluefnið (tekið orðrétt frá síðu sóttvarnarlæknis):  

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
  • Þungaðar konur.

Er það gert til að tryggja það að þeir sem nauðsynlega þurfa að sleppa við hana geri svo. Þannig má koma í veg fyrir erfiðari veikindi sem kalla á spítaladvöl, jafnvel dýra gjörgæslumeðferð, og ótímabær andlát. Þannig sýna bólusetningar enn og aftur mikilvægi sitt sem forvörn sem er bæði ódýr og auðvelt að nálgast. Fyrir þau ykkar sem munuð ekki fá bólusetningu er það gamli góði handþvotturinn í bland við almennt hreinlæti sem kemur ykkur ansi langt!

Páll Óli Ólason

Pistlahöfundur

Páll Óli útskrifaðist úr læknisfræði við Háskóla Íslands sumarið 2017 og lauk kandídatsári í júní 2018. Hann stundar sérnám í bráðalækningum við Landspítala. Hann tók virkan þátt í starfi Vöku fls. í Háskóla Íslands og sat meðal annars sem formaður sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs í Stúdentaráði. Páll Óli sat í Útsvarsliði Árborgar frá árinu 2008-2012. Skrif hans í Rómi snúa helst að heilbrigðismálum og lýðheilsu.