Námsmenn mega ekki verða að þrætuepli stjórnmálanna

eftir Kristófer Már Maronsson

Flókin mál eru flókin. Það kostar streð, svita og púl að setja sig í þau. Þungavigtarmál sem varða miklu um framtíðinna eru sjaldan mál sem hægt er að útskýra í stuttu máli. Oft þarf að lesa tugi blaðsíðna, hugsa um þær í einrúmi og skeggræða þær við aðra. Það hafa ekki allir tök né tíma til þess. Umræðan verður því óupplýst.

Óupplýst umræða er ekki heilbrigð samfélaginu. Hún getur tafið nauðsynlegar breytingar og jafnvel komið í veg fyrir þær. Á síðustu vikum hafa einhverjir lýst yfir áhyggjum vegna frumvarps til laga um námslán og námsstyrki (1, 2, 3). Stundum hefur komið mér fyrir sjónir að eitt helsta hagsmunamál stúdenta sé gert að pólitískum slag á Alþing og á það við um nýja námslánafrumvarpið. Nei, það  er ekki fullkomið og ég myndi sjálfur vilja sjá nokkrar breytingar, en í grunninn felur það í sér stórt framfaraskref fyrir háskólanemendur á Íslandi.

Förum yfir staðreyndirnar.

Hlutfallslegir styrkir eða laun – hvort viljum við?

Í núverandi lánasjóðskerfi er styrkur til námsmanna. Hann er samt flókinn og ógagnsær. Styrkurinn nær bara til þeirra sem taka námslán. Peningurinn sem nemendur fá lánaðan eru peningur sem LÍN er með á láni. LÍN fær peninginn á 3,69% vöxtum að meðlatali. Það þýðir að fyrir hverjar 1.000.000 krónur sem LÍN fær lánað, þarf LÍN að borga 36.900 krónur á ári í vexti, en vexti má líta á sem leigu fyrir pening.

Vextirnir byrja að falla á LÍN um leið og hann fær peninginn lánaðan, LÍN styrkir svo námsmenn með því að lána þeim peninginn vaxtalausan þar til þeir ljúka námi. Þá byrja að falla 1% vextir á lánþega, 10.000 krónur á ári fyrir hverjar 1.000.000 krónur sem þeir hafa fengið lánaðar.

Það má því segja að LÍN styrki lánþega um 36.900 krónur á ári fyrir hverjar 1.000.000 krónur á meðan námi stendur, en að námi loknum um 26.900 krónur á ári fyrir hverjar 1.000.000, þar sem lánþegar borga 10.000 krónur á ári til sjóðsins. Auðvelt er að sjá, að því hærra lán sem einstaklingur tekur – því meiri styrk frá ríkinu fær hann.

Þá á eftir að horfa á styrkinn sem kemur vegna affalla. Því fólk sem tekur há lán borgar yfirleitt ekki námslán sín til baka að fullu og þá er lánið afskrifað. Ástæðan er að engin endanleg greiðsludagsetning er ákveðin, heldur er greitt af láninu í hlutfalli við tekjur lánþega. Fari lánþegi seint í nám og tekur hátt lán, þá er ólíklegt að hann greiði mikið til baka. Lánið verður þá að sköttum almennings – því sjóðurinn verður að borga sitt lán til baka óháð því hversu mikið honum tekst að innheimta. Þessir peningar koma í gegnum skatttekjur og þeir eru breytilegir og ófyrirsjáanlegir, eftir því hversu hátt lán einstaklingar taka og hversu margir þeir eru. Það er ómögulegt að áætla hvað hver og einn mun fá í styrk.

Námsmenn hafa lengi talað fyrir því að taka eigi upp kerfi hér á landi sem svipar til annarra Norðurlanda, þar sem styrkur og lán eru aðskilin. Í fyrirliggjandi frumvarpi eru boðaðir 2,5% vextir auk 0,5% álags vegna affalla, sem þýðir að búið er að minnka styrkinn í láninu verulega, en eitthvað er þó eftir af honum. Einnig er búið að festa hámarkslánstíma, í 40 ár en lán skal þó alltaf vera greitt niður að fullu fyrir 67 ára aldur – svo ólíklegara er að lán verði afskrifuð, en því miður verður fólk bráðkvatt og þá eru lán þeirra að sjálfsögðu afskrifuð, en til þess er 0,5% álagið. Einnig hefur verið kynntur til sögunnar námsstyrkur sem allir geta fengið óháð lántöku og er mikið fagnaðarefni fyrir nemendur. Styrkur þessi nemur 65.000 krónum á mánuði fyrir námsmann sem lýkur 30 ECTS-einingum á missiri. Þó væri réttara að tala um þetta sem laun fyrir að standa sig í skólanum, þar sem vinna þarf fyrir styrknum. Nám er 100% vinna (oft meira) og alls ekki óeðlilegt að launa námsmönnum fyrir sína vinnu.

Full framfærsla – loksins!

Í reglum sínum tilgreinir LÍN framfærsluviðmið, sem sjóðurinn telur að nægi fyrir lánþega til þess að komast af. Samkvæmt frumvarpinu verður hægt að fá námsaðstoð sem nemur öllu framfærsluviðmiðinu , 100%, en það er eitt af áratugalöngu baráttumáli stúdenta. Til að mynda var í fyrra aðeins lánað fyrir 90% af framfærsluviðmiðinu og því er mikið fagnaðarefni fyrir námsmenn að þessu sé breytt í fyrirliggjandi frumvarpi.

Framfærsluviðmið LÍN er misjafnt eftir aðstæðum, námsmenn í foreldrahúsum hafa lægst viðmið en einstæðir foreldrar með tvö börn eða fleiri hafa hæst. Það er því áhugavert að skoða framfærsluviðmið LÍN og horfa til þess fjárstuðning sem ríkið veitir námsmönnum, eftir félagslegum aðstæðum.

Barnlausir einstaklingar fá lítinn fjárstuðning frá ríkinu, en nemendur sem eiga börn undir 18 ára aldri fá aðstoð. Í eftirfarandi reikningum er miðað við að einstaklingar þurfi á fullri framfærslu að halda og standist 30 ECTS-einingar á önn. Barnlausir einstaklingar fá 65.000 krónur á mánuði í styrk og þurfa að taka lán fyrir afgangnum, í því tilfelli koma nemendur í foreldrahúsum langbest út.

Ef litið er á barnafólk koma niðurstöðurnar ef til vill mörgum á óvart. Sjá má að hlutfall heildaraðstoðar af framfærsluviðmiði, þ.e. barnabætur, meðlagsgreiðslur og námsstyrkur, er hæst hjá einstæðum foreldrum með tvö börn, eða 84%, en fyrir einstæða foreldra með eitt barn er hlutfallið 56%. Þetta eru frábærar fréttir. Þessar auka 65.000 krónur á mánuði gera það að verkum að einstæðir þurfa á minna láni að halda en áður og sleppa því við að skuldsetja sig um of. Þetta er sá hópur nemenda sem ég hafði hvað mestar áhyggjur af.

Barnafólk getur því komist upp með að taka enn þá minna lán heldur en til að mynda einhleypir einstaklingar í leiguhúsnæði til þess að ná framfærsluviðmiði sínu, og í neyðartilvikum stendur þeim enn til boða að fá mjög hátt lán. Ef eitthvað kemur uppá, þá geta þeir hreinlega beðið um meira lán en vanalega og bjargað sér í fjárhagsvandræðum.

2016_08_15 Kristo Lin 1

Í töflunni hér að ofan sést að lánsþörf barnlausra einhleypra nemenda sem ekki búa í foreldrahúsum er hæst m.v. framfærsluviðmiðin. Samt sem áður sýna útreikningar að allir hópar munu þurfa að greiða minna til baka á endanum, m.v. að þeir fái aðstoð og lán sem nemur 100% framfærsluviðmiði.

Í töflunni hér að neðan má sjá samanburð á endurgreiðslufjárhæð nemenda, tölurnar, sem allar eru jákvæðar, þýða að nemendur munu að loknu 5 ára námi m.v. 100% framfærsluviðmið greiða minna til baka. Þetta á þó einungis við um þá nemendur sem ekki taka skólagjaldalán. Hér er búið að taka tillit til allra þátta; svosem að vextir byrja að falla á strax við lántöku í nýja kerfinu, byrjað er að borga ári fyrr, vextir eru 3% m.v. frumvarpið og lánið er jafngreiðslulán í nýja kerfinu en tekjutengdar afborganir í því eldra. Einnig má sjá í töflunni mismunandi lánþega, eftir því hvaða nám þeir stunda. Þar sem ekki allar gráður hafa eigin stéttarfélög má sjá stéttarfélagið Fræðagarð, sem er fyrir alla þá sem hafa lokið BS prófi.

2016_08_15 Kristo Lin 2

Það sem taflan sýnir í stuttu máli er að miðað við framfærsluviðmiðin sem við höfum skoðað hér að ofan og aðstoð við þá hópa munu allir greiða minna til baka til LÍN sem taka framfærslulán út 5 ára námsferil og standast 30 einingar á hverju missiri verði frumvarpið að lögum. Þá má einnig sjá í greiningu Stúdentaráðs að greiðslubyrði virðist minni hjá flestum í mismunandi námsgreinum miðað við meðallán lánþega. Til dæmis má sjá að neðan hefðbundinn hjúkrunarfræðinema sem tekur námslán og klárar Bachelor gráðu, 240 ECTS-einingar. Á vinstri ás má sjá þá upphæð sem greidd er sjóðnum á  hverju ári þar sem bláu hringirnir miða við núverandi kerfi með tekjutengingu. Appelsínugulu hringirnir miða við 40 ára jafngreiðslulán eins og lagt er til í fyrirliggjandi frumvarpi, en greiðslubyrðin er rúmum 50 þúsund krónur lægri fyrstu árin og enn lægri þegar á líður. Á hægri ásnum eru tölur yfir heildarendurgreiðslu, en punktarnir í vinstra horni grafsins sýna hana. Þannig má sjá að endurgreiðsla hjúkrunarfræðings í núverandi kerfi yrði 5.636.204 krónur en miðað við nýtt kerfi yrði hún lægri, 5.449.668 krónur.
2016_08_15 Kristo Lin 3

Ekki fullkomið – en samt miklu betra

Það er kannski ekki hægt að búa til fullkomið lánasjóðskerfi, en það er hægt að búa til betra lánasjóðskerfi. Kerfisbreytingarnar sem hafa verið boðaðar falla klárlega undir þá kröfu, en gott má alltaf bæta. Í umsögn Stúdentaráðs, sem hefur verið send mennta- og menningarmálaráðherra, eru rök færð fyrir breytingum á ýmsum atriðum sem ráðið telur nauðsynlegt að tekið verði tillit til. Hér að neðan eru fimm atriði, en fleiri punkta og nánari upplýsingar má finna í umsögn og greiningu Stúdentaráðs.

  1. Námsaðstoð verði greidd út mánaðarlega.
  2. Lánað verði fyrir að a.m.k. 540-ECTS einingum.
  3. Ekki verði 30 eininga þak á missiri í 45 mánuði heldur 300 eininga þak á 45 mánuðum.
  4. Námsleiðir sem þarfnast meira en 300 ECTS-eininga til þess að klára bachelor- og meistaragráðu, eins og t.d. hjúkrunarfræði (360 ECTS), fái fleiri ECTS-einingar í styrk og lán.
  5. Ekki verði sett þak á námslán

Með þessum pistli vonast ég til þess að lesendur séu aðeins fróðari um Lánasjóð íslenskra námsmanna og það frumvarp sem mennta- og menningarmálaráðherra mun kynna í dag ef marka má dagskrá Alþingis. Ég vona innilega að umræðan um þetta frumvarp verði byggð á staðreyndum, en ekki tilfinningum. Ég vona að eitt helsta baráttumál stúdenta undanfarin ár verði ekki að einhverjum kosningaslag stjórnmálaflokka. Ég vona að það verði hlustað á okkur stúdenta og hagur okkar hafður að leiðarljósi.

 

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.