Nám og falskar vonir

eftir Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir

Aldamótakynslóðin (millennials) ólst upp hjá foreldrum sem dásömuðu ekki bara nám heldur forrituðu afkvæmi sín til mennta sig sama hvað. Þetta var allt af góðum vilja gert enda var háskólagráða ekki bara stöðutákn í þeirra augum heldur táknaði hún líka frelsi. Uppgangskynslóðinni (baby-boomers) var kennt að ríghalda í stöðugleika og finna gleði í starfsöryggi en eftir fimmtán ár við sama skrifborðið óskuðu þau börnum sínum betra lífs. Betra lífs sem finna mátti við enda háskólagráðunnar.

Ísland stærir sig af því að vera þekkingarsamfélag í takt við uppeldi aldamótakynslóðarinnar. Mastersgráðan er nýja stúdentsprófið. Doktorsgráðan er nýja bachelorgráðan. Án íhugunar heldur aldamótakynslóðin beint áfram í mastersnám án nokkurrar viðkomu á atvinnumarkaðnum. Leiðin er greið enda eru nánast engar inngöngukröfur gerðar af hálfu háskóla nema bachelorgráða. Ísland fjöldaframleiðir háskólamenntaða.

Eftir tveggja ára mastersnám þarf neminn að horfast í augu við blákaldan veruleikann. Við enda háskólaregnbogans blasir ekki við milljón á mánuði, skrifstofa með útsýni og heitur hádegismatur. Eftir fimm ára nám er draumastarfið ekki í höfn. Höfnun, eftir höfnun, eftir höfnun birtist í innhólfinu og allar starfsauglýsingar í Fréttablaðinu gera ráð fyrir reynslu. Til þess að einstaklingur sé fýsilegur kostur í augum atvinnurekanda er ákjósanlegt að viðkomandi hafi einhvers konar staðfestingu á því að hann virki á atvinnumarkaðnum og þá helst innan fagsins sem hann er menntaður í.

Það er nefnilega það. Háskólanám er ekki atvinnureynsla. Tilgangur háskóla er undirbúningur fyrir atvinnulífið. Það er ekki samasemmerki á milli þess að fá níu á prófi og að vera frábær starfskraftur.

Þegar neminn loksins kemst í starf sem tengist náminu er raunveruleikinn mögulega sá að þetta starf á engan veginn við hann. Neminn eyddi fimm árum í nám sem skilaði honum engu í hamingjukapphlaupinu.

En hver er lausnin? Hugmyndum um starfsnám hefur verið kastað fram. Í Bandaríkjunum hefur starfsnám tíðkast í þeirri mynd sem mætti kalla nútíma þrælahald. Háværar raddir hafa undanfarin ár krafist þess að lög varðandi starfsnám verði hert þar í landi og tilsjón aukin. Fyrirtæki hafa í síauknum mæli nýtt sér örvæntingafull ungmenni sem hlaupa annað hvort launalaus eða á lágmarkslaunum á milli hæða með kaffibolla og kruðerí fyrir yfirmenn sína í von um að fá meðmæli eða góða línu á ferilskránna. Nýlegar kannanir hinu megin við hafið hafa svo meira að segja sýnt fram á að ógreitt starfsnám auki ekki atvinnumöguleika eftir útskrift.

Sú atvinnugrein á Íslandi sem hefur hvað mest nýtt sér starfsnám er láglaunageirinn, ferðabransinn. Námsmenn, oftast erlendir, svara tölvupóstum ferðamanna og taka tólf tíma vaktir í móttöku. Launalaust. Á meðan veski atvinnurekenda í gullgrafaraæðinu tútna út.

Í staðinn fyrir afturhvarf til fortíðar og að herma eftir 50 ára gamalli hugmynd Bandaríkjamanna, hvernig væri að við skoðuðum nýstárlegri lausnir?  Háskólar í Bandaríkjunum, Evrópu og víðar hafa þrengri skilyrði fyrir inngöngu í fjölmargt mastersnám. Án þess að horfa í hillingum á himinhá háskólagjöld þá væri í staðinn hægt væri að gera kröfur um reynslu á atvinnumarkaði og meðmælabréf úr nokkrum áttum. Laða að hæfari kennara með reynslu úr viðkomandi fagi og hækka staðalinn með krefjandi verkefnum og prófum.

Þá er líka hægt að gera ungu fólki grein fyrir því að háskólamenntun hefur verið gengisfelld. Mastersgráða er ekki uppáskrift að draumastarfinu. Eftir útskrift þarf kannski bara að byrja á botninum og þiggja starf í þjónustuveri en ekki búast við stjórnunarstöðu á silfurfati.

Á Íslandi er um 3% atvinnuleysi. Afskaplega margir samlandar okkar eru með mastersgráðu. Það er ekki erfitt að finna vinnu. Það er erfitt að finna vinnu fyrir þá sem halda að þeir séu yfir hin ýmsu störf hafnir.

Það er heldur ekki lífsnauðsynlegt að halda áfram í mastersnám beint eftir grunnnám. Það er kannski bara stórgóð hugmynd að fikra sig aðeins áfram á atvinnumarkaðnum og átta sig á því hvar áhugasviðið raunverulega liggur.

Ef það er ógnvænlegur kostur þá er alltaf hægt að næla sér í vinnu með skóla eða á sumrin. Það mætti kalla það greitt starfsnám. Reyna sitt besta að fá starf sem tengist þó ekki sé nema agnarögn náminu sem viðkomandi er í. Vinna sig upp. Foreldrar aldamótakynslóðarinnar hefðu kannski átt að leggja aðeins meiri áherslu á gildi góðrar vinnu og aðeins minni áherslu á hamingjuna við enda mastersgráðunnar.

 

Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir

Pistlahöfundur

Vinga er viðskiptafræðingur með MBA gráðu frá IE Business School Í Madrid og Bs gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands/University of Wyoming. Hún starfar í dag sem markaðsstjóri hjá bandaríska hátæknifyrirtækinu NetApp. Áður hafði hún að mestu fengist við markaðsmál, almannatengsl og vörumerkjastjórnun ásamt því að koma að fyrirtækjarekstri og frumkvöðlastarfsemi.