Mynd fyrir hvern?

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

„Selfie stöng? Í alvöru? Ég held við seljum þær bara ekki lengur…“

-„Hvað gerir fólk þá?“

„Ég bara.. veit það ekki.“

 

Svona hljómaði eftirminnilega og hálf-vandræðalega samtalið sem ég átti við manninn sem afgreiddi mig áður en ég lagði af stað í stutt ferðalag til Írlands með Halla fósturpabba mínum. Þar sem Halli er lamaður og á erfitt með að taka myndir hugsaði ég að það væri eins gott að kippa einni selfie stöng með svo við ættum einhverjar myndir af okkur saman. Og kannski einhverja mynd af mér þar sem ég er ekki með fjórtán undirhökur, bjagað andlit og hvít-upplýstan bakgrunn af kirkju, kastala eða höll, eða einhverju sem skiptir ekki máli því það sést hvort sem er ekki á myndinni fyrir andlitinu mínu. En ég þurfti víst að leita annað, því sjálfur (e. selfies) við falleg minnismerki eru greinilega ekki lengur vörumerki í símabúðum. Það fékk mig til að hugsa.

Ertu á prósentu?

Ég renndi yfir þær myndir sem hafa prýtt Instagrammið mitt upp á síðkastið í huganum. Myndum, sem líta út fyrir að vera teknar af fagfólki með svaka græjur, fer fjölgandi. Á þeim myndum eiga fyrirsæturnar, sem oftast eru einar á myndinni, það gjarnan sameiginlegt að horfa dreymandi út í lofið, eins og þær hafi ekki hugmynd um að einhver hafi verið að smella af þeim mynd. Líkt og að ljósmyndaranum hafi tekist „að fanga augnablikið“. Vinurinn eða makinn, sem líklega var beðinn um að taka myndina, var samt í rauninni ekki að fanga neitt sérstakt móment. Hann var til að mynda ekki að fanga augnablikið sem samvera þeirra fól í sér. Einstaklingurinn á myndinni verður söluvara. Myndin er uppstillt, líkt og gína í búðarglugga.

Eftir myndatökuna tekur síðan við ferli sem getur varað lengi. Það felur í sér að velja réttu myndina, skera hana, laga lýsinguna, velja filter og svo framvegis. Þar með er hætta á því að samveran fari að snúast um myndina í stað þess að myndin snúist um samveruna. Þar að auki njóta fyrirtæki góðs af þeirri vinnu sem fara í myndatökur og spara heilmikinn auglýsingakostnað þegar notendur ákveðinnar vöru sjá sjálfir um að auglýsa hana. Ef þú fékkst ekki greitt fyrir myndina er næstum því hægt að ganga svo langt að segja að þú hafir verið hafður að fífli.

Dreymin samstarfskona

Ég átti samtal við vinkonu mína um daginn sem hafði verið í vinnuferðalagi og í því bað samstarfskona hennar, sem hún þekkti lítið, um að taka af sér mynd. Vinkona mín átti að velja stellingu og stað, hvert hún átti að horfa og allt þetta helsta. Henni þótti þetta bæði skrýtið og kjánalegt en gerði þetta samt. Eftir myndatökuna var samstarfskonan niðursokkin í símann sinn í dágóðan tíma. Þegar loks var búið að opinbera myndina fyrir alheiminum tók við læk-biðin og var konan verulega annars hugar. Daginn eftir bað samstarfskona hennar aftur um mynd og vinkona mín varð við því, ekkert mál. Og síðan aftur. Og aftur… Í þessari þriggja daga ferð birtust nokkrar dreymandi myndir af samstarfskonu hennar á Instagram og hún fékk samtals nokkur hundruð læk. En vinkona mín og samstarfskona hennar töluðu lítið sem ekkert saman í ferðinni og kynntust því ekkert sérstaklega vel.

Samsek

Nú ætla ég ekki að firra mig allri ábyrgð og láta eins og ég hafi aldrei tekið þátt í þessum leik. Í ferðinni minni og Halla til Írlands tók ég nokkrar myndir. Það fór oft í taugarnar á mér hvað það sást vel í selfie stöngina (sem ég fann og keypti í annarri búð) eða hvað það sást illa í bakgrunninn. Mér fannst myndirnar síðan hallærislegar og ekki nógu flottar til að „pósta á Insta“. En Halli var ekkert að pæla í því, hann var með allt annan smekk á myndum en ég. Honum fannst margar af þessum myndum  alveg frábærar og ég skildi ekki af hverju. Það var ekki fyrr en hann sagði: „Jú, sjáðu hvað við lítum bæði vel út á þessari mynd, við erum bæði svo glöð“ að ég áttaði mig.

Þetta fleygði mér aftur niður á jörðina. Af hverju erum við að taka myndir? Hvaða augnablik erum við að reyna að fanga? Er það fallegt móment eða skemmtileg minning? Það eru ólíkar ástæður fyrir því að við smellum af. En þegar ég lít til baka, hef ég eytt of miklum tíma í myndatökur og of litlum tíma í að njóta þess augnabliks sem upphaflega stóð til að fanga.

Fyrir hvern?

Staldraðu aðeins við og hugsaðu hver var hugsunin á bakvið myndina sem þú settir síðast inn á Instagram eða Facebook. Var það fyrir einhvern strák/stelpu? Vildir þú láta vita hvar þú varst stödd og með hverjum? Varstu að athuga hvort að sá/sú sem þú hrífst af myndi líka við myndina þína?

Hvort sem þú ert að byggja upp prófil í von um að ná yfir 1K fylgjendum á Instagram til þess að meika það, koma einhverjum skilaboðum áleiðis, ert á leið í prófkjör eða einfaldlega að fanga athygli hins kynsins (eða sama kyns), er gott að hafa í huga hversu hár fórnarkostnaðurinn er á bakvið hverja mynd. Gerði myndatakan mómentið eftirminnilegt og skemmtilegt, eða snerist mómentið upp í andhverfu sína og fór að snúast um myndatökuna?

Ég held að allir hafi gott af því að hugleiða þetta af og til. Ég er þar ekki undanskilin og þess vegna skrifaði ég þennan pistil.

 

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.