Mun einhver hjálpa Úígúrum?

eftir Esther Hallsdóttir

Ef gervihnattarmyndir af sjálfsstjórnarhéraðinu Xinjiang í norðvestur-Kína eru skoðaðar nokkur ár aftur í tímann má sjá gríðarlega uppbyggingu stórra bygginga á svæðum þar sem ekkert var fyrir nema sandur og víðátta. 

Byggingarnar hýsa það sem kínverjar kalla „endurmenntunarskóla“ fyrir Úígúra, þjóðarbrot af tyrkneskum ættum, og aðra minnihlutahópa múslima í Xinjiang. Sameinuðu þjóðirnar telja að kínversk stjórnvöld haldi allt að milljón manns nauðugum í hundruðum „endurmenntunar“búða í héraðinu án dóms og laga.

Í búðunum fer fram nokkurs konar heilaþvottur en fangarnir eru neyddir til að lýsa yfir hollustu við kommúnistaflokkinn, skrifa gagnrýni á sjálfa sig og fjölskyldu sína heilu dagana, afneita trú sinni og tala mandarín. Fyrrum fangar hafa lýst andlegum og líkamlegum pyntingaraðferðum sem beitt er gegn þeim sem ekki hlýða. Þá virðist sem fáir snúi aftur úr búðunum og talið er að margir hafi dvalið þar í nokkur ár. „Skólarnir“ svokölluðu líta heldur ekki út eins og hefðbundnir skólar, enda umkringja þá háir veggir með gaddavír, eftirlitsmyndavélar og öryggisverðir.

Utan búðanna hafa kínversk yfirvöld gert Xinjiang að hátæknilegu lögregluríki og komið á fót gríðarlega umfangsmiklu eftirlitskerfi. Lögreglumönnum hefur verið fjölgað í 500 fyrir hverja hundrað þúsund íbúa en þeir manna þétt net eftirlitsstöðva þar sem Han kínverjar fara auðveldlega í gegn en Úígúrar eru stöðvaðir, skilríki þeirra og andlit skönnuð, fingraför og DNA sýni tekin og innihaldi farsíma þeirra halað niður fyrir síðari yfirferð. Slíkar stöðvar geta verið fjórar eða fimm á hverjum kílómeter og Úígúrar fara í gegnum þær oft á dag. Eftirlitsmyndavélar og andlitsskannar eru á hverju götuhorni, bæði í borgum og í afskekktum þorpum, og sérstök tæki víða um héraðið fylgjast með virkni síma og talva sem tengdar eru þráðlausu neti innan ákveðins radíus. Þá er öllum gert að niðurhala forriti í símann sinn sem gerir yfirvöldum kleift að fylgjast með því sem þar fer fram. Gögnum um hvern og einn er safnað á afar markvissan hátt.

Minnstu atriði geta verið ástæða þess að einstaklingur er sóttur og sendur í búðirnar. Meðal þess sem þykir benda til öfgakenndrar hegðunar er að skoða erlenda vefsíðu, tala við ættingja sem er erlendis, sýna kommúnistaflokknum ekki hollustu, að biðja eða vera með skegg. Þeir sem eiga ættingja erlendis eru í sérstakri hættu á að enda í búðunum og heilu fjölskyldurnar hafa horfið. Stundum virðist fólk sent í búðirnar eingöngu af handahófi. Settar hafa verið strangar reglur í héraðinu sem banna meðal annars löng skegg, búrkur, bænastundir, föstu á Ramadan og jafnvel nöfn sem eru algeng meðal íslamstrúar. Úígúrum er einnig bannað að ferðast og þeim hefur verið gert að afhenda passann sinn yfirvöldum til geymslu.

Þá hefur Mannréttindavaktin greint frá því að starfsmenn hins opinbera fari reglulega í svokallaðar „heimagistingar“ hjá Úígúrískum fjölskyldum og fylgist með daglegum athöfnum þeirra inni á heimilinu. Talið er að yfirvöld hafi á sínum snærum fleiri en milljón manns sem stundi slíkar heimsóknir. Yfirvöld hafa auk þess beitt hótunum til að fá fólk til að njósna og segja frá fjölskyldumeðlimum sínum og nágrönnum. Eftirlit hins opinbera er því alltumlykjandi og Úígúrar geta hvergi komist undan, hvorki á götum úti né innan veggja síns eigin heimilis.

„Glaðir og þakklátir nemendur“

Kínversk yfirvöld segja tilgang „endurmenntunarskólanna“ vera að stemma stigu við öfgastefnu og hryðjuverkum með fræðslu. Þau þvertaka fyrir að fangelsa Úígúra án dóms og laga og segja þau dvelja í búðunum sjálfviljug. Myndir í kínverskum ríkisfjölmiðlum sýna kennslustofur fullar af þakklátum og glöðum nemendum sem segjast hafa lært af mistökum sínum og að þeir verði góðir þegnar er þeir snúa aftur heim.

Úígúrar hafa talsverða menningarlega sérstöðu í Kína en þau tala sitt eigið tungumál og eru að mestu leyti íslamstrúar, ólíkt meginþorra kínverja. Menningarlega og útlitslega eiga þau margt sameiginlegt með íbúum mið-Asíu en Xinjiang héraðið, þar sem flestir Úígúrar búa, á meðal annars landamæri við Afganistan, Mongólíu og Kirgisistan.

Áður en kommúnisminn tók yfir í Kína árið 1949 var Xinjiang á tíðum sjálfstætt ríki og eftir að þeir urðu varanlega hluti af Kína árið 1949 hafa þeir veitt yfirvöldum talsverða mótstöðu. Efnahagslegur uppgangur í Xinjiang undanfarin ár, sem skýrist meðal annars af náttúruauðlindum svæðisins, hefur dregið að vel menntaða Han kínverja frá öðrum svæðum og Úígúrum hefur í kjölfarið fækkað hlutfallslega úr 80 prósent íbúa Xinjiang í um 45 prósent íbúa. Han kínverjar sem fluttu til svæðisins fengu gjarnan vel launuð störf og margir Úígúrar upplifðu sem að ávinningi af uppganginum væri misskipt, sem olli reiði og óánægju þeirra á meðal. Þá hafa aðgerðir yfirvalda til að þrengja að trú og menningu Úígúra gert illt verra.

Árið 2009 varð vendipunktur er fjöldamótmæli og óeirðir brutust út í höfuðborg héraðsins, Urumqi. 200 manns létu lífið í mótmælunum, flest Han kínverjar samkvæmt yfirvöldum. Síðan þá hafa hundruðir týnt lífi í árásum, óeirðum og lögregluaðgerðum í Xinjiang. Auk þess segja kínversk og sýrlensk yfirvöld að fjöldi Úígúra hafi farið til að berjast með íslamska ríkinu í Sýrlandi. Kínversk yfirvöld telja Úígúra og aðra minnihlutahópa múslima ógn við frið í Kína og mannréttindabrot gegn þeim eru framkvæmd í nafni „stríðs gegn hryðjuverkum“. Xinjiang er auk þess mikilvægur hlekkur í metnaðarfullum áformum Kína um „belti og braut“ (Belt and road initiative) þar sem svæðið tengir saman Mið-Asíu og Kína. Ætla má að aðgerðum yfirvalda sé einnig ætlað að koma í veg fyrir að óeirðir skaði viðskipti á svæðinu.

Ærandi þögn

Viðbrögð alþjóðasamfélagsins við grófum mannréttindabrotum kínverskra yfirvalda í Xinjiang hafa hingað til verið þróttlítil. Á fundi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í nóvember síðastliðnum lýstu vestræn ríki, þar á meðal Frakkland, Þýskaland og Bandaríkin, yfir áhyggjum af ástandinu og kölluðu eftir því að Kína lokaði búðunum og sleppti föngunum lausum. Ekkert landanna hefur þó beitt sér af þunga í málinu í kjölfarið. Þögn meðal íslamskra ríkja hefur vakið athygli, en Tyrkland hefur eitt fordæmt mannréttindabrotin í yfirlýsingu sem send var út fyrir um viku síðan.

Ætla má að mörg ríki séu treg til að tala opinberlega gegn einu valdamesta ríki heims og stofna í hættu viðskiptasambandi sínu við landið. Þeir hagsmunir eru dýrkeyptir fyrir Úígúra í Xinjiang, en ólíklegt er að kínversk yfirvöld hafi í hyggju að láta af aðgerðum sínum í bráð. Á þessari stundu er lítill alþjóðlegur þrýstingur á Kína að breyta stefnu sinni að nokkru leyti, þó að hann fari að vísu vaxandi. Viðbrögð stjórnvalda í hverju landi verða þó ekki til í tómarúmi og mótast að miklu leyti af því hvort að þrýstingur sé til staðar frá almenningi að bregðast við. Almenningur þarf því fyrst og fremst að láta sig málið varða. 

Esther Hallsdóttir

Pistlahöfundur

Esther er með B.A. gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og starfar hjá UNICEF á Íslandi. Hún er jafnframt ungmennafulltrúi Íslands til Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda. Áður hefur hún setið í Stúdentaráði Háskóla Íslands og í stjórn Vöku fls. ásamt því að gegna formennsku í fjármála- og atvinnulífsnefnd SHÍ.