Mörg framboð en lítil eftirspurn

eftir Ritstjórn

Oft hefur verið haft á orði að það sem er óvenjulegt eða óhefðbundið sé fréttnæmt. Því sé það ekki saga til næsta bæjar þegar hundur bíti mann en gerist það að maður bíti hund, sé það sannarlega frétt. Af þeim sökum verður vart hjá því komist að spyrja sig hvort það teljist enn fréttnæmt þegar einhver íhugar eða lýsir yfir forsetaframboði. Í hið minnsta er það orðið býsna hversdagslegt þegar þrettán manns hafa staðfest að þau muni bjóða sig fram til forseta og a.m.k. 10 sagðir íhuga stöðu sína eða máta sig við embættið. Til viðbótar við þá sem nú hafa komið fram í fjölmiðlum hefur nokkrum Rómverjum borist til eyrna að Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, íhugi nú framboð. Því getur auðveldlega komið upp sú staða að sigurvegarinn hljóti aðeins 15-20% atkvæða og þá yrði vert að spyrja hvort að forseti með svo lítinn hluta þjóðarinnar á bakvið sig geti talist sameiningartákn.

Framkvæmd kosninganna gamaldags

Fólk virðist nú almennt sammála um að framkvæmdin á kjöri til forseta sé orðin harla gamaldags þar sem almenningi gefst aðeins kostur á að merkja við einn frambjóðenda og aðeins er kosið í einni umferð. Það bætir ekki úr skák að hver frambjóðandi þarf aðeins að hafa 1.500 meðmælendur en samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar yfir fólk 18 ára og eldra jafngildir það því að 168 manns geti mest verið í framboði. Því verða kröfur um fjölda meðmælenda máttlaus prófsteinn um eftirspurn almennings eftir tilteknum frambjóðenda og býsna auðvelt er að komast á kjörseðilinn. Upphaflega hugmyndin árið 1952 var sú að rétt væri að frambjóðendur hefðu stuðning a.m.k. 1% þjóðarinnar en sú tala var hins vegar sett fram á nafnvirði og hefur því ekki þróast með mannfjöldanum. Þá má einnig velta því upp hvort að aldursskilyrði frambjóðenda beri að afnema þar sem óljóst er hvers vegna stjórnarskráin ætti að grípa inn í vilja almennings í lýðræðisríki sé viljinn sá að ungur einstaklingur gegni embættinu.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár er lagt til að fest verði sú regla að frambjóðendur skuli hafa meðmæli 1% kosningabærra manna. Jafnframt er lagt til að kosningin fari fram eftir forgangsröðun þar sem kjósendum bjóðist að forgangsraða frambjóðendum eftir eigin vali. Það myndi verða mikil bót á fyrirkomulagi forsetakjörs, skyldu þessar hugmyndar ná fram að ganga, þó jafnvel væri skynsamlegt að frambjóðendur þyrftu enn hærra hlutfall meðmælenda. Hins vegar er þar ekki lagt til að afnema þau aldursskilyrði og engin rök lögð til grundvallar þeirri afstöðu.

Einstaklingur sem kann á pólitík en hefur ekki stundað hana

Ljóst er að forsetakosningarnar í ár munu ráða miklu um það hvernig forsetaembættið þróast. Mun það halda áfram að taka á sig pólitískari mynd í anda Ólafs Ragnars Grímssonar eða mun embættið hverfa aftur í fyrra horf? Þjóðin virðist býsna óviss í þeirri afstöðu og hefur það verið haft á orði sem líkleg skýring að þjóðin vilji forseta með skilning og getu í pólitík án þess að hafa nokkru sinni stundað neina pólitík. Þá hefur jafnframt þótt nauðsynlegt að sé sem gegnir embættinu hafi grundvallarþekkingu á stjórnskipan landsins enda er það hlutverk forseta að veita umboð til ríkisstjórnarmyndunar. Sökum þessarar óvenjulegu stöðu um horfur og þróun embættisins mun einstaklingurinn sem hlýtur kjör hafa mikið að segja um framtíð þess og kjósendur vita það.

Þrátt fyrir þennan mikla fjölda frambjóðenda virðast þeir hingað til ekki höfða nægjanlega vel til kjósenda ef marka má samfélagsumræðuna og mætti segja að framboð hafi verið mörg en eftirspurn lítil.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.