Mislingar á Íslandi

eftir Páll Óli Ólason

Það greip um sig ákveðin skelfing í samfélaginu um miðjan febrúar sl. Í þetta skiptið var það ekki vegna fjármálakerfisins eða frétta á vettvangi stjórnmálanna heldur uppgötvaðist að einstaklingur smitaður af mislingum hafi ekki bara komið með flugi til Íslands heldur hafði hann einnig flogið innanlands. Staðfest mislingasmit. Fljótt kom í ljós það sem flestir höfðu óttast. Fleiri einstaklingar sýndu merki um smit. Næstu smit greindust í tveimur börnum undir tveggja ára aldri. Talað var um mislingafaraldur, þann fyrsta í mörg ár.

Tvennt gerðist um leið og smitin greindust. Annars vegar fóru heilbrigðisyfirvöld með sóttvarnarlækni í broddi fylkingar á fullt í að ná böndum utan um þennan faraldur þar sem þeim einstaklingum sem vitað var að hefðu komist í snertingu við þá smituðu var skipað að vera heima hjá sér í sóttkví. Tilmæli voru gefin um bólusetningar barna undir 18 mán aldri og þeirra einstaklinga sem væri óvíst með hvort væru bólusettir.

Hins vegar voru það í raun viðbrögð samfélagsins við þessu. Það sást á viðbrögðum landans að honum stóð ekki á sama. Eldra fólk sem þekkti það að fá mislinga í bland við aðra. Frétt eftir frétt fylltust athugasemdakerfin af stuðningsmönnum bólusetninga og á flestum vígstöðum var þeim háværa minnihluta sem andstæðingar bólusetninga eru kaffært með vísindalegum rökum. Í raun falleg sjón ef þú spyrð mig.

Þessi snöru viðbrögð fyrrnefndra aðila urðu til þess að faraldurinn varð ekki stærri en svo að aðeins fjórir einstaklingar smituðust en auk þess að þrír sýndu mislingalík einkenni og allir þeir sluppu að því er virðist klakklaust frá þessu. Að auki voru um 7000 einstaklingar bólusettir og þannig hefur líkast til bætt varnir gegn mislingum en markmið heilbrigðisyfirvalda er að 95% íbúa eða fleiri séu bólusettir fyrir mislingum.  

Af hverju samt þessi hræðsla?

Mislingar eru ekki einhver saklaus kvefveira. Um er að ræða eina mest smitandi veiru sem vitað er um og það sem verra er, hún drepur. Þannig létust í kringum 110.000 manns árið 2017 úr mislingum, einna helst í þriðja heims löndum auk þess sem faraldrar hafa farið af stað í nálægum löndum. Nú síðast var lýst yfir neyðarástandi í New York vegna slíks faraldurs. Engin lyf eru til við veirunni því við munum öll úr líffræðikennslu að sýklalyf drepa bara bakteríur, ekki veirur. Meðferðin felst þannig í stuðningsmeðferð en þess vegna eru það oftast ung börn sem falla fyrir hendi veirunnar þar sem þau eru oft á tíðum vannærð og litla læknishjálp er að fá.

Veirur eru sérstakar að því leyti að þær geta ekki lifað fyrir utan hýsil nema þá í nokkrar klukkustundir. Þær eru í raun lifandi-dauðar og þurfa frumur til að lifa af. Þetta veldur því að þær lifa í mönnum og dýrum. Inflúensa finnst til að mynda ekki aðeins í mönnum heldur einnig fuglum og fleiri dýrum. Mislingaveiran hefur aðeins einn hýsil; manninn. Vegna þessa hefur stefnan lengi verið útrýming á mislingaveirunni með bólusetningum svipað og var gert með bólusótt; veiru sem átti sinn þátt í að halda niðri fólksfjölgun í heiminum í margar aldir og rinderpest; veiru náskyldri mislingaveirunni sem var í klaufdýrum og var þannig útrýmt einnig með bólusetningum.

Bólusetningar

Ég hef áður ritað grein um bólusetningar barna þar sem ég reifaði sögu bólusetninga og andstæðinga þeirra og velti því einnig upp hvort ætti að setja lög um bólusetningar barna. Enn sem komið er hafa ekki verið sett lög sem skylda börn til bólusetningar og miðað við viðbrögðin við þessari vá nú virðist almenningur að mestu hlynntur bólusetningum. Á meðan við höldum sönsum og glepjumst ekki af „rökstuðningi” andstæðinga bólusetninga erum við á fínum stað þannig að lagasetningin má bíða. Hvað viðbrögðin við þessum faraldri er aðeins eitt að segja:

Bravó!

Páll Óli Ólason

Pistlahöfundur

Páll Óli útskrifaðist úr læknisfræði við Háskóla Íslands sumarið 2017 og lauk kandídatsári í júní 2018. Hann stundar sérnám í bráðalækningum við Landspítala. Hann tók virkan þátt í starfi Vöku fls. í Háskóla Íslands og sat meðal annars sem formaður sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs í Stúdentaráði. Páll Óli sat í Útsvarsliði Árborgar frá árinu 2008-2012. Skrif hans í Rómi snúa helst að heilbrigðismálum og lýðheilsu.