Mikilvægt að gera faglegar kröfur

eftir Ritstjórn

Mikilvægt er að seðlabankar séu sjálfstæðir og geti unnið að markmiði sínu, að stuðla að stöðugu verðlagi, án þess að verða fyrir pólitískum áhrifum. Of mikill hvati er fyrir stjórnmálamenn að fórna stöðugleika fyrir atkvæði og hefur tekið áratugi að þróa seðlabanka í átt að núverandi mynd. Og enn eru þeir langt frá því að vera fullkomnir.

Seðlabanki Íslands hefur mátt þola mikla gagnrýni allt frá stofnun og sérstaklega vegna þess hversu illa honum hefur tekist að halda niðri verðbólgu. Verkfæri bankans til þess hefur fyrst og fremst verið að ákveða svokallaða stýrivexti sem ráða vöxtum almennra banka við Seðlabankann. Þeir vextir ákveða svo að miklu leyti hvernig vaxtakjör bankarnir geta boðið almenningi upp á.

Undanfarið hefur umræðan hætt að snúast um verðbólgu, enda hefur tekist að halda henni niðri, heldur er hún farin að snúast um vaxtastigið. Enginn vill þurfa að borga háa vexti og auðvelt er að finna sökudólg í þessum efnum.

Þessi gagnrýni er ekki innihaldslaus og er nauðsynlegt aðhald fyrir Seðlabankann. Á hinn bóginn verður að gefa sérfræðingunum traust og tíma, og það getur orðið mjög dýrt fyrir samfélagið ef vextir verða ákveðnir af öðrum en faglegum ástæðum.

Engar hæfiskröfur í bankaráð

Þess vegna er undarlegt að bankaráð, sem er efst í skipuriti Seðlabankans og hefur eftirlit með starfsemi bankans, sé jafnpólitísk eining og hún er. Bankaráð er skipað með kosningum á Alþingi að lokum þingkosningum, og var nýtt bankaráð kosið 25. apríl síðastliðinn. Þrír nýir aðilar var kosnir inn í þetta sjö manna ráð en þeir voru allir fyrrverandi þingmenn, og eru fyrrverandi þingmenn í ráðinu því orðnir fjórir talsins.

Hér er ekki ætlunin að gera lítið úr þeim einstaklingum sem í Bankaráði sitja enda sennilega allt ágætis fólk, vel menntað og hæft. Það skýtur þó skökku við að engin fagleg sjónarmið séu lögð til grundvallar á vali í ráðið. Ein af meginástæðum fyrir tilveru Seðlabanka er að færa vaxtasetningu og stjórn peningamálastefnu duttlungafullra stjórnmálamanna og til stofnunar sem leggur faglegt mat til grundvallar vaxtaákvarðanna en ekki tímasetningar kosninga.

Vissulega má færa rök fyrir því að fyrst peningamálastefnan hafi verið færð yfir í sjálfstæða stofnun sé æskilegt að stjórnmálin hafi einhverja aðkomu. Það sé gert til þess að tryggja pólitískan stöðugleika um tilveru og valdsvið bankans.

Jafnvel þó fallist sé á fyrrnefnd rök þarf það ekki að þýða að engar faglegar kröfur eigi að vera gerðar til bankaráðsmanna. Í eftirlitsskyldum fjármálafyrirtækjum er almennt gerð sú krafa að stjórnarmenn gangist undir hæfismat. Það hlýtur að vera eðlilegt að einstaklingur tilnefndur er í bankaráð fari í svipað eða samskonar hæfismat.

Í tilmælum frá Fjármálaeftirlitinu stendur eftirfarandi:

“Fjármálaeftirlitið bendir á að hæfi og heilindi lykilstarfsmanna er einn af grundvallarþáttunum varðandi annars vegar rekstraráhættu eftirlitsskyldra aðila og hins vegar orðsporsáhættu þeirra. Þannig er hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna einn mikilvægasti grundvöllur heilbrigðra og eðlilegra viðskiptahátta fjármálafyrirtækis og annarra fyrirtækja á fjármálamarkaði.”

Auðvelt er að taka undir með Fjármálaeftirlitinu í þessu atriði og þetta hlýtur að vera hægt að yfirfæra á bankaráð. Þó mikilvægt sé að sæmileg pólitísk sátt ríki um tilveru og valdsvið Seðlabankans er jafn mikilvægt að svo valdamikil stofnun hafi trúverðugleika gagnvart almenningi. Það einfaldlega verður að vera hægt að treysta að þeir sem sitja í stjórn Seðlabankans uppfylli lágmarkskröfur um hæfi.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.