Miðjumoðið

eftir Ritstjórn

Það verður að segjast að á undanförnum dögum og vikum hefur það komið mörgum sem telja sig frjálslyndismenn á óvart að Viðreisn skuli sækja svo inn á miðjunna og jafnvel til vinstri. Orð frambjóðenda í efstu sætum, Þorsteins Víglundssonar og Pawels Bartoszek, um að flokkurinn muni leitast eftir að starfa með Pírötum hafa fallið í afar grýttann farveg á hægri vængnum.

Upphaflega þótti mörgum kjósendum tilvalið að Viðreisn starfaði með Sjálfstæðisflokknum að loknum kosningum og að Viðreisn myndi leysa úr læðingi frjálslynda arm síðarnefnda flokksins. Þannig væri hægt að ráðast í ýmsar kerfisbreytingar en gæta aðhalds í ríkisrekstri og stöðugleika á sama tíma.

Leiða má líkum að því að heill her óskilgetinna hægri manna bölvi framgöngu þeirra Þorsteins og Pawels og sjái draumastjórnina renna úr greipum sér. Reyndar hlýtur það að teljast óskiljanlegt að flokkurinn sæki inn í svo þéttann pakka á miðju stjórnmálanna því fylgið þar var nú þegar dreift á marga flokka. Afraksturinn er sá að Píratar minnka sífellt og allt stefnir í að enginn ‚miðjuflokkanna‘ svokallaðra verði yfir fimmtán prósentustig þegar talið er upp úr kjörkössunum.

Mögulegt er að fjórflokkurinn á miðjunni, Píratar, Viðreisn, Samfylkingin og Björt Framtíð verði með meirihluta á þingi þann 30. október en kjósendur hljóta að spyrja sig hvort ríkisstjórn fjögurra flokka geti haldið. Það getur verið erfitt, eins og hefur sýnt sig á síðustu tveimur kjörtímabilum, að gera málamiðlanir tveggja flokka og gengið hefur á ýmsu. Málamiðlanir milli fjögurra flokka hljóta í því ljósi að vera nær ómögulegar enda hefur slík stjórn aldrei verið mynduð áður á Íslandi. Þá væri allt eins gott að mynda utanþingsstjórn embættismanna og kjósa upp á nýtt.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.