Meira um hræsni Kára Stefánssonar

eftir Gestahöfundur


Eftir Kára Stefánsson.

Það minnka alltaf áhyggjur mínar af framtíð þessarar þjóðar þegar ég sé eða heyri til þess leiftrandi skýra unga fólks sem er að bíða eftir því að taka við af okkur gamlingjunum. Stundum verður maður hins vegar að sætta sig við að verða var við snilld unga fólksins þegar það hjólar í mann af krafti eins og Alexander Freyr Einarsson gerði við mig í gærmorgun í vefritinu Rómi. Við fyrstu sýn virtist mér hann vera að veitast að manninum, mér, en ekki þeim skoðunum sem ég hafði tjáð um útlendingaspítalann, vegna þess að hann byrjaði pistilinn sinn á heldur yfirborðslegu þvaðri um persónu mína. Þetta mat mitt reyndist alrangt og ljóst að byrjunin var bara stílbragð sem leiddi til umfjöllunar um tvær röksemdir sem ég hafði sett fram til stuðnings þeirri skoðun að útlendingaspítalinn í Mosfellsbæ væri óæskilegur. Þetta var sem sagt lögleg tækling. Hann fór í boltann, ekki manninn og sýndi fram á að hann hefur nef fyrir aðalatriðum.

Röksemdirnar tvær sem honum finnast greinilega að haldi ekki vatni eru:

  1. Sú staðreynd að útlendingaspítalinn ætli að ráða þúsund manns til starfa á meðan erfitt reynist að manna heilbrigðiskerfi landsmanna sé ástæða til þess að sporna gegn honum.

Ég er sammála þeirri grundvallarhugsun sem Alexander tjáir að það sé oftast vafasamt að koma í veg fyrir aukin atvinnutækifæri fyrir fólk af hvaða stétt sem er og að til þess að réttlæta slíkt þurfi býsna mikilvægar ástæður. Ég held því fram, andstætt Alexander, að þær ástæður séu fyrir hendi í íslensku heilbrigðiskerfi í dag. Það er illa mannað og mér skilst til dæmis á stjórnendum Landspítalans að hann þoli ekki að missa einn einasta hjúkrunarfræðing eða sjúkraliða án þess að af því hlytist slys. Í því samhengi má ekki heldur gleyma að á Landspítalanum vinna 800 hjúkrunarfræðingar sem komast á eftirlaunaaldur innan örfárra ára. Heilbrigðiskerfið hlúir að þeim sem eru sjúkir og meiddir og ef það er svo illa mannað að það geti ekki sinnt sínu hlutverki er hætta á því að fólk þjáist og jafnvel deyi þegar hefði verið hægt að koma í veg fyrir það. Mín skoðun er sú að rétturinn til lífs og umönnunar sé svo ríkur að rétturinn til meira starfsvals eigi í þessu tilfelli að víkja fyrir honum, í það minnsta tímabundið. Þessi skoðun nýtur töluverðs fylgis meðal þeirra sem ættu meira starfsval ef útlendingaspítalinn yrði reistur. Til dæmis hefur formaður félags hjúkrunarfræðinga látið hafa eftir sér að við yrðum fyrst að manna íslenskt heilbrigðiskerfi áður en við leyfðum svona spítala fyrir útlendinga.

Þarna eru tvær skoðanir, annars vegar mín sem er sú að við eigum að vera reiðubúin til þess að fórna ákveðnum réttindum heilbrigðisstéttanna til þess að geta sinnt sjúkum og meiddum Íslendingum og hins vegar Alexanders sem er sú að við eigum ekki að gera það. Alexander kallar mína skoðun hræsni vegna þess að: „Þarna er einn ríkasti maður Íslands, sem er sjálfur læknir að mennt en kýs að reka (mjög flott) fyrirtæki í stað þess að skera upp sjúklinga á Landspítalanum, að kvarta undan því að vel menntað fólk geti fengið betri tækifæri í lífinu.“ Þessi setning er með tvær staðreyndavillur. Í fyrsta lagi er ég ekki að kvarta undan því að heilbrigðisstarfsfólk fá betri tækifæri. Ég vil tækifæri þeirra sem flest og mest. Ég er hins vegar á því að við verðum að færa fórnir til þess að geta sinnt meiddum og sjúkum í okkar samfélagi. Í annan stað hef ég aldrei kosið að reka fyrirtæki. Ég kaus að vera vísindamaður sem vinnur að mannerfðafræði á stórum skala og fórnin sem ég varð að færa til þess að geta það var að vinna fyrir fyrirtæki vegna þess að það var engin önnur leið til þess að fjármagna vísindin. Ég er handviss um að með því vísindastarfi sem ég hef unnið á síðustu tuttugu árum hef ég lagt meira að mörkum til heilbriðgisþjónustu á Íslandi sem annars staðar en ef ég hefði unnið á Landspítalanum þótt ég viðurkenni fúslega að Alexander gæti haft töluvert til síns máls ef hann væri á annarri skoðun.

  1. Stéttaskipting í heilbrigðiskerfinu er „óþolandi”

Alexander lítur svo á að heilbrigðisþjónusta sé eins og bílar og föt og hús og þeir sem séu ríkir eigi að geta keypt sér betri heilbrigðisþjónustu en þeir sem eru fátækir. Ég er þessu einfaldlega ósammála vegna þess að ég lít svo á að rétturinn til lífs eigi að vera sá sami hjá öllum, jafnt fátækum sem ríkum. Það má nefnilega leiða að því rök að sá sem geti keypt sér betri heilbrigðisþjónustu hafi ríkari rétt til lífs en sá sem getur það ekki. Þar af leiðandi á það ekki að vera hægt. Þetta er skoðun sem byggir á tilfinningum frekar en rökhugsun. Þessa skoðun telur Alexander einnig vera hræsni af því sé nægilega fjáður til þess að geta keypt mér betri heilbrigðisþjónustu. Ég viðurkenni fúslega að gamall sósíalisti sem vaknar dag einn sem auðugur maður býður upp á þann möguleika að það sé hæðst að honum fyrir jafnréttishugmyndir hans og eins gott fyrir hann að taka öllum bröndurunum þar að lútandi með bros á vör. Það breytir því ekki að ég sæki mína heilbrigðisþjónustu, sem hefur verið meiri en ég hefði viljað á síðustu árum, í hið laskaða heilbrigðiskerfi okkar og ég hef nýtt aðgang minn að fjármagni til þess að hlúa að því.

 

Kári Stefánsson er læknir og erfðafræðingur að mennt. Hann starfar sem forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar (deCODE) og er í forsvari fyrir undirskriftarsöfnun um endurreisn heilbrigðiskerfisins ásamt því að vera virkur í samfélagsumræðunni og þá sérstaklega þegar kemur að heilbrigðismálum.

Þessi pistill er svar Kára Stefánssonar við pistli Alexanders Freys Einarssonar sem birtist í gær.