Með gæðum við græðum

eftir Erna Sigurðardóttir

Síðast liðna helgi gafst verðandi háskólanemum tækifæri til að kynna sér nám á Háskóladeginum. Þar voru kynntar yfir 500 námsbrautir og því úr mörgu að velja. Áður en endanleg ákvörðun er tekin eru þó nokkrar spurningar sem verðandi háskólanemar þurfa að spyrja sig að,

  • Hvaða skóla langar mig að fara í?
  • Hvernig standast þessir skólar samanburð?
  • Hvaða nám langar mig að leggja stund á?
  • Hvaða skólar bjóða upp á þá námsbraut?
  • Hvaða skóli skarar fram úr í þessu fagi?
  • Get ég treyst á gæði gráðunnar og framtíðarvirði?
  • Munu kjör mín á vinnumarkaði endurspegla fjárfestinguna í menntuninni?

Get ég treyst gæðum gráðunnar?

Til þess að nemendur sjái hag sinn í því að leggja stund á háskólanám hérlendis verður háskólakerfið að vera nægilega gæðadrifið til að byggja undir þekkingarsamfélag sem og auka samkeppnishæfni og lífsgæði einstaklinga. Stór skref hafa verið stigin á síðustu árum til að efla gæðamat í háskólum sem taka mið af alþjóðlegum mælikvörðum í starfi háskóla, bæði hvað varðar kennslu og rannsóknir. En árið 2010 var Gæðaráð íslenskra háskóla (e. Quality Enhancement Framework) sett á laggirnar. Gæðaráðið er skipað sex erlendum sérfræðingum sem framkvæma úttektir á gæðum náms við íslenska háskóla. Gæðaráðið hefur sett fram rammaáætlun um eflingu gæða á sviði æðri menntunar á Íslandi (e. Icelandic Quality Enhancement Framework) og birt í sérstakri handbók. Felst matið annars vegar í sjálfsmati háskólanna á faglegri starfsemi sinni og hins vegar í ytra mati Gæðaráðs á háskólunum.

Samþykkt hefur verið að í næstu úttekt (e. Quality Enhancement Framework; QEF2) fái Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) að tilnefna einn fulltrúa með atkvæðisrétt og einn áheyrnarfulltrúa í Gæðaráðið til tveggja ára í senn. Þetta er leið til að tryggja gott samstarf nemenda við alla sem að úttektinni koma á öllum stigum ferlisins og til að stuðla að því að horft sé til hagsmuna þeirra við alla ákvarðanatöku.  Þetta er mikið framfaraskref fyrir íslenska háskólanema. LÍS hyggst skipa í stöðuna, erlendan aðalfulltrúa úr röðum European Students’ Union (ESU), því samtökin telja að erlendur aðili með fjölþætta þekkingu á þessu sviði sé betur í stakk búinn til þess að sinna stöðunni en heimamaður, enda eru gæðamál á þessum vettvangi tiltölulega skammt á veg komin hér á landi í evrópskum samanburði. Tilgangurinn með áheyrnarfulltrúa er að afla þekkingar svo að einn daginn gæti LÍS skipað stúdent á eigin vegum sem aðalfulltrúa.

Samhliða Gæðaráðinu starfar ráðgjafarnefnd sem er skipuð fulltrúum háskólanna sem koma að gæðamálum og tveimur fulltrúum stúdenta sem tilnefndir eru af LÍS. Með nefndinni funda einnig fulltrúi frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu ásamt framkvæmdastjóra Gæðaráðsins. Samhliða því vera Gæðaráði til ráðgjafar um framkvæmd rammaáætlunarinnar er ráðgjafarnefndin samráðsvettvangur háskólanna og gengst fyrir málþingum og fræðslu um gæðamál almennt.

Fyrsta og önnur umferð gæðaúttektar Gæðaráðs háskóla

Hver deild innan einstaka háskóla gerði sjálfsmatsskýrslu, skólarnir gerðu svo hver sína rýniskýrslu og loks gerði Gæðaráðið stofnanaskýrslu um hvern skóla. Þegar úttektarferlið var hannað á sínum tíma var ákveðið að skólarnir fengju ekki aðeins ítarlega umsögn og mat á starfsemi sinni, heldur yrði þeim líka gefin einkunn á fjögurra þrepa skala. Ráðið gat lýst yfir „fullu trausti“ (e. full confidence), „trausti“ (e. condifence), „takmörkuðu trausti“ (e. limited confidence) og „engu trausti“ (e. no confidence). Það var reyndar ákveðið að í þessari fyrstu umferð gæðamatsins fengi enginn skóli „fullt traust“.

Gæðaráðið kom með mikilvægar ábendingar í fyrstu úttektinni hvað varðar innra starf háskólanna, en einnig varðandi háskólakerfið í heild sinni. Það er reyndar ekki víst að margir viti af þessari úttekt en hún tók alls fimm ár og lauk árið 2015. Tveir háskólar gerðu sérstakar aðgerðaáætlanir í kjölfar úttektanna voru skoðaðar af Gæðaráði með tilliti til eftirfylgni í byrjun febrúar 2016, og lauk því ferli með útgáfu skýrslna fyrir hvorn skóla. Margar ábendingar frá hagsmunaaðilum bárust eftir úttektina og mátti draga margvíslegan lærdóm af þessari fyrstu lotu sem nýttur var í undirbúning að annarri lotu rammaáætlunar Gæðaráðs.  Gæðaráð býður til ráðstefnu í hátíðarsal Háskóla Íslands, þriðjudaginn 14. mars kl. 13:30 – 16:00 en tilgangur ráðstefnunnar er að kynna nýja handbók um aðra rammaáætlun um eflingu gæða í íslenskum háskólum Ráðstefnan fer fram á ensku og er öllum opin á meðan húsrúm leyfir en einnig er beint streymi af fundinum fyrir áhugasama sem sjá sér ekki fært að mæta á staðinn.

Efling stúdenta í gæðastarfi háskólanna

Halda þarf uppi öflugri umræðu um mikilvægi þess að menntun hérlendis þróist og eflist í takt við nýja tíma og samræmist alþjóðlegum stöðlum. Eins og áður kom fram er ein af stærri breytingum frá fyrri handbók Gæðaráðs aukið samstarf við stúdenta og aukin ábyrgð þeirra í ferlinu. Nemendur eiga að sjálfsögðu að taka virkan þátt í að byggja háskólana upp enn frekar, en til þess að það takist sem best þarf að virkja þá og fá til þess að tjá sig enn frekar. Ennfremur er mikilvægt að skapa samráðsvettvang fyrir stúdenta hér á landi þar sem rætt er opinskátt um gæðamál háskólanna með það að markmiði að auka gæði náms með virkri þátttöku stúdenta. Þema landsþings LÍS í ár, sem haldið verður 17. – 19. mars nk., tengist gæðamálum í háskólum. Þar mæta fulltrúar nemenda frá öllum háskólum á landinu en nauðsynlegt er að þeir stúdentar sem eru í forsvari fyrir hagsmuni háskólanema séu meðvitaðir um stöðu þessara mála og fái tækifæri til að láta rödd sína heyrast í þeim efnum og gefist þar með tækifæri til þess að hafa áhrif. Stúdentar sem hafa áhuga gæðamálum geta sótt um að vera í gæðanefnd LÍS sem hefur það hlutverk að breiða út þekkingu á gæðastjórnun háskóla á meðal stúdenta.

Gæðamiðuð hugsun og stöðugar umbætur

Hafa verður í huga að við eigum ekki að lesa mat Gæðaráðsins eins og um sé að ræða e.k. áfellisdóma yfir skólana sem í hlut eiga. En það þarf að leggja áherslu á hvernig skólarnir hyggjast bæta úr þeim vanköntum sem gæðaráðið dregur fram þ.e. að þeir nýti sér gagnrýnina með markvissum hætti, taki á vandamálum og endurhugsi það sem veikast stendur með það að markmiði að bæta nám það sem boðið er upp á svo að næsta gæðaúttekt fari enn betur, og svo koll af kolli.  Enda er markmiðið eingöngu að stuðla að góðu háskólasamfélagi og veita háskólunum utanaðkomandi aðhald svo þeir hafi tækifæri til að verða enn betri. Gæðaráð íslenskra háskóla er því öflugasta vopnið sem við höfum til þess að stuðla að úrbótum á gæðum náms og kennslu á Íslandi. Þessi reynsla mun svo nýtast okkur við að takast á við ný verkefni og áskoranir í framtíðinni.

Erna Sigurðardóttir

Pistlahöfundur

Erna stundar meistaranám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Um þessar mundir er hún fulltrúi nemenda í Gæðaráði íslenskra háskóla. Hún var hagsmunafulltrúi HR-inga, sat í stjórn Stúdentafélagsins jafnhliða námsráði HR. Hún gegndi embætti formanns Lögréttu, félags laganema, skólaárið 2015-2016 auk þess sem hún átti sæti í hagsmunaráði laganema frá 2013-2016.