,,Makríll, makríll, makríll”

eftir Hallveig Ólafsdóttir

Flestir Íslendingar eru ókunnugir flökkufisknum makríl og finnst hann ekki á hefðbundnum matseðli Íslendinga. Enda ekki langt síðan hann fór að venja komur sínar í íslenska lögsögu. Makríllinn heldur sig í miklu magni í Norðursjó en hefur á undanförnum árum aukið mjög útbreiðslu sína í Norðaustur-Atlantshafi. Má það teljast einstaklega ánægjulegt fyrir eyríkið Ísland en fyrir það var lengi aðeins að finna flækinga hér við strendur. Veiði á makrílnum hófust ekki af fullum þunga fyrr en í upphafi hrunáranna sem var jú afar heppileg tímasetning fyrir íslenskt þjóðarbú.

Þrátt fyrir að skapa gríðarleg verðmæti á ári hverju er sjaldan lognmolla í kringum flökkufiskinn sem hefur marg oft ratað í fréttir vegna ýmissa deilumála. Má þar nefna hina svokölluðu ,,makríldeilu” sem Íslendingar áttu við ,,vinaþjóðir” okkar Norðmenn, Evrópusambandið og Færeyingar. Deilan byggist á því að Ísland gerir tilkall um ákveðna hlutdeild (kvóta) af ráðlögðum heildarafla sem hinar þjóðirnar samþykkja ekki. Af því leiðir að Ísland hefur ekki verið hluti af milliríkjasamningum um stjórn á veiðum á makríl og sett sér einhliða kvóta.

Makrílinn hefur einnig skapað deilur um stjórn veiðanna hér innanlands, en nokkrar útgerðir hafa kvartað til Umboðsmanns Alþingis og síðan fengið úrlausn mála sinni fyrir dómstólum. Rökstuðningur útgerðanna snérist um að þær töldu að skilyrði til þess að hlutdeildarsetja makríl hafa legið fyrir árið 2011 og byggja ætti þá hlutdeild (kvóta) á veiðireynslu á árunum 2008, 2009 og 2010. Bæði Umboðsmaður Alþingis og Hæstiréttur Íslands hafa tekið undir sjónarmið útgerðanna, en rétt fyrir jól birtist dómur Hæstaréttar sem viðurkenndi skaðabótaskyldu íslenska ríkisins. Í örstuttu máli þýðir það að þær útgerðir sem eiga í hlut hafa verið hlunnfarnar um hlutdeild frá árinu 2011, þ.e.a.s. að þær hafa mátt veiða minna en þeim ber samkvæmt lögum. Útgerðirnar unnu sér inn rétt til hlutdeildar byggt á veiðireynslu og ber ríkinu að bæta útgerðum það tjón sem þær hafa orðið fyrir vegna þess. Ljóst þykir að tjónið hlaupi á mörgum milljörðum og með hverju árinu sem líður án þess að leiðrétta hlutdeildina eykst tjónið. Dómurinn er formdæmisgefandi og eru allar líkur á því að fleiri útgerðir eigi einnig möguleika á skaðabótakröfu.

Mikilvægt er að hafa skýrar reglur um úthlutun aflaheimilda og telur undirrituð að allra hagur sé án nokkurs vafa að ráðherrar eigi að fylgja þeim lögum sem liggja fyrir. Í grunninn byggist löggjöfin á einfalda hátt á “fyrstur kemur fyrstur fær” aðferð. Sú aðferð er heppileg fyrir margar sakir. Í fyrsta lagi myndast mikill hvati fyrir útgerðir að stunda tilraunaveiðar á tegundum sem ekki er búið að takmarka veiðar á, með því fæst betri nýting á auðlindinni. Í öðru lagi, í dæmi makrílsins, og þá sérstaklega þar sem um deilistofn er að ræða, skapaðist samningsstaða Íslands gagnvart öðrum fiskveiðiþjóðum vegna veiðanna. Því fyrr sem íslenskar útgerðar fóru að veiða makríl því fyrr fengu íslensk stjórnvöld að setjast við samningaborðið. Í þriðja lagi má færa haldbær rök fyrir því að þær útgerðir sem lengst hafa stundað veiðar eru betur til þess fallnar að halda áfram að veiða því þær hafa betri þekkingu og reynslu af veiðunum, þar af leiðandi nýtist auðlindin best.

Nú standa stjórnvöld frammi fyrir tveimur verkefnum; annars vegar munu útgerðirnar sækja sér skaðabætur úr hendi ríkisins og hins vegar að hlutdeildarsetja makrílveiðar, en í dag er veiðum á makríl stjórnað með reglugerð sem gefin er út árlega. Sú leið þykir ekki heppileg leið við stjórnun veiða. Dómur Hæstaréttar er staðfesting á áliti umboðsmanns Alþingis og allan tíman hefur verið vitað að reglugerðir hafi verið byggðar á veikum lagalegum grundvelli. Þrátt fyrir það hafa fimm ráðherrar úr fjórum flokkum ekki lagt í að hlutdeildar setja makríl. Hægt er þó að horfa á björtu hliðarnar á öllum þessu deilum og vafaatriðum í kringum makrílinn og megum við Íslendingar teljast heppin að hafa makrílinn til að rífast um. Hingað til hefur makríllinn streymt inn í íslenska lögsögu á hverju sumri líkt og hver annar ferðamaður en engin vissa er fyrir því að svo munu verða áfram. Stutt er síðan hann kom og getur makrílinn alveg tekið upp á því að koma hér í minni mæli eða hreinlega ekki láta sjá sig ef aðstæður í umhverfinu breytast.

Hallveig Ólafsdóttir

Pistlahöfundur

Hallveig Ólafsdóttir er hagfræðingur og stafar hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Samhliða námi starfaði hún sem vallarstarfsmaður á Laugardalsvelli og á greiningardeild Vinnumálastofnunar ásamt því að sitja í ritstjórn Studentablaðsins.