Mælingar og pælingar um íslenska heilbrigðiskerfið

eftir Páll Óli Ólason

Það hefur fátt verið jafn mikið á milli tannanna á Íslendingum síðustu ár og heilbrigðiskerfið. Rökræður um staðsetningu nýs Landspítala, launamál heilbrigðisstétta, einkarekstur í heilbrigðisþjónustu, lengd biðlista, kostnað sjúklinga, bólusetningar, skort á geðheilbrigðisþjónustu og fjársvelti kerfisins hefur valdið því að fólk horfir misfögrum augum á kerfið. En hvar stendur íslenska heilbrigðiskerfið miðað við önnur heilbrigðiskerfi? 

Nú um miðjan maímánuð kom út grein í hinu virta tímariti The Lancet þar sem heilbrigðiskerfi 195 landa og landsvæða í heiminum voru borin saman. Fréttamiðlar voru fljótir að bregðast við niðurstöðum þeirra og fréttir um að Ísland væri í 2. sæti yfir bestu heilbrigðiskerfi í heiminum birtust á stærstu fréttamiðlum landsins.

Niðurstöður þessarar greinar voru fengnar úr hinni svokölluð The Global Burden of Disease Study (GBD) sem hefur verið í gangi frá árinu 1990. Notast var við nýja vísitölu, Healthcare Quality and Access (HAQ) index sem gefur niðurstöður frá 0 uppí 100. Því hærra, því betra. Þessi vísitala var reiknuð út frá dánartíðni 32 sjúkdóma sem talið er að væri hægt að koma í veg fyrir eða lækna í fyrsta flokks heilbrigðiskerfi og á þannig að meta eins og nafnið gefur til kynna gæði og aðgang að heilbrigðisþjónustunni. Eins og kemur fram hér að ofan skoraði Ísland 2. sætið þetta árið sem er reyndar það sama og Ísland gerði árið 1990.  

Það sem hægt er að draga úr þessari skýrslu er vissulega það að íslenska heilbrigðiskerfið stendur sig vel í því að hindra ótímabær dauðsföll hinna ýmsu sjúkdóma. Það kemur ekki á óvart þar sem ungbarna- og mæðradauði eru hér einna lægstir í heiminum, bólusetningar standa sterkum fótum og okkur hefur gengið vel í meðhöndlun á hjarta- og æðasjúkdómum svo dæmi séu tekin. Þessar niðurstöður segja okkur þó lítið um hvernig heilbrigðiskerfið tekur á þeim sem eru lifandi með þá sjúkdóma sem taldir eru upp sem og sem hafa sjúkdóma sem valda ekki dauða en skerða lífsgæði umtalsvert. Þannig er ekki hægt að meta lífsgæði út frá þessum niðurstöðum.  

Annar mælikvarði á heilbrigðisþjónustu er Euro Health Consumer Index sem gefinn er út árlega af Health Consumer Powerhouse. Sá mælikvarði er öðruvísi en HAQi, hann ber saman sex flokka; rétt sjúklings og upplýsingaflæði til hans, aðgang að þjónustu, gæði meðferða, forvarnir og notkun lyfja og vegur hver flokkur um sig mismikið. Mest er hægt að fá 1000 stig. Upplýsingar um þessa þætti sækja rannsakendur í aðrar rannsóknir og gagnagrunna, m.a. frá WHO.

Árið 2016 var Ísland í 5. sæti á EHCI listanum og hafði þannig hækkað úr 8. sæti frá því árið áður. Hæst skorar Ísland í meðferðarflokknum eða 288 af 300. Það að Ísland skori hátt í þeim flokki kemur lítið á óvart sé horft til niðurstöðunnar úr HAQi. Efsta landið á þessum lista er Holland með 927 stig. Á lista HAQi er Holland í 9. sæti með 90 af 100.

Vandamálið við þennan lista liggur í því hvað rannsakendur notast við mælingar. Alls eru skoðaðir 48 hlutir og skorað í gott, miðlungs eða lélegt. Þannig væri hægt að hafa áhrif á niðurstöðurnar með því einu að breyta um breytur. Þó nefna þeir að Holland myndi líklegast alltaf vera í efsta sæti. Hvað Ísland varðar nefna þeir ástæður fyrir svo háu sæti liggja í því að læknar sem hér vinna eru sérfræðimenntaðir erlendis. Slíkt valdi því að þeir eru vel menntaðir sem og að þeir hafa gott tengslanet við sjúkrahús erlendis ef sjúklingur þarf á aðgerð að halda sem ekki verður framkvæmd hérlendis.

En hvernig ætlum við að túlka þessar niðurstöður?

Varlega! Báðir þessir mælikvarðar gefa einhverja mynd af stöðu mála. Íslenska heilbrigðiskerfið er gott en það er margt sem má bæta. HAQi segir lítið sem ekkert um lífsgæði og rannsakendur EHCI nefna það sérstaklega að fara þurfi varlega í að túlka þeirra niðurstöður þar sem þeir séu að bera saman tölur frá löndum sem hafa mismunandi mælikvarða. Þeir standa þó fast á sínu að þeir vilja sýna þessar tölur fyrir notandann þrátt fyrir að þær séu ekki fullkomnar.

Það er því svo að þegar kemur að því að mæla gæði íslenska heilbrigðiskerfisins er ekki ein gullin lausn. Það eina sem við getum gert er að halda áfram þeim gríðarlega mörgu rannsóknum sem í gangi eru meðal annars m.t.t. sjúkdóma og lýðheilsu. Eins verður að styrkja innviðina og tryggja það að þau sem starfa innan heilbrigðisgeirans vilji starfa þar og fái mannsæmandi laun. Ef slíkt gleymist gæti fallið á þessum blessuðu listum orðið ansi hátt.

Páll Óli Ólason

Pistlahöfundur

Páll Óli útskrifaðist úr læknisfræði við Háskóla Íslands sumarið 2017 og lauk kandídatsári í júní 2018. Hann stundar sérnám í bráðalækningum við Landspítala. Hann tók virkan þátt í starfi Vöku fls. í Háskóla Íslands og sat meðal annars sem formaður sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs í Stúdentaráði. Páll Óli sat í Útsvarsliði Árborgar frá árinu 2008-2012. Skrif hans í Rómi snúa helst að heilbrigðismálum og lýðheilsu.