Maðurinn sem ögraði ríkjandi valdhöfum

eftir Björn Már Ólafsson

„Vonandi fæ ég frið í Napoli,” sagði Diego Armando Maradona í flugvélinni á leið til Napoli eftir stormasamt tímabil hjá Barcelona. Sennilega er hann fyrsti og síðasti einstaklingurinn í sögunni sem fer til Napoli til að fá frið.

Í vikunni sá ég kvikmyndina Diego Maradona eftir leikstjórann Asif Kapadia. Það eru ekki gerðar sérlega margar knattspyrnutengdar kvikmyndir, hvað þá sem sýndar eru í bíó. Eða þá hef ég kannski bara viljandi þurrkað út úr minni mínu myndir á borð við She’s the man og Bend it like Beckham.

Loftsteinninn lendir á Stadio San Paolo

Það hafa verið gerðar heimildarmyndir um Diego Maradona áður og sennilega hefur öll hans saga þegar verið sögð. Fíknin, gæðin og greddan. En það sem gerir þessa myndi svo stórkostlega er myndefnið. Myndband af því þegar hann hittir nýfædda dóttur sína í fyrsta skiptið, þegar hann kennir henni að syngja niðrandi söngva um Juventus og ljósmyndir úr hinum og þessum veisluhöldum, allt er þetta mikilvægur þáttur í að gera myndina að því sem hún er.

En það skemmtilegasta af öllu er myndefnið sem sýnir einfaldlega vinsældir Maradona í Napoli. Að sjá aðkomuna að Stadio San Paolo árið 1984 þegar haldin er leikmannakynning og fyrsti blaðamannafundur Maradonas er eins og að horfa á heimsendakvikmynd. Það er eins og loftsteinn hafi lent á miðjum leikvanginum í Napoli og allir bæjarbúar lögðu frá sér verkfæri sín og byrjuðu strax að hlaupa í átt að loftsteininum til að sjá hann betur. Loftsteinninn var auðvitað Maradona.

Sjálfur hef ég einu sinni komið til Napoli. Þegar ég steig út af Stazione Napoli Centrale út á Piazza Garibaldi hefur hitastigið sennilega verið svipað og þegar Maradona lenti með flugvélinni eftir dvölina hjá Barcelona árið 1984. Móttökurnar voru líka svipaðar. Við kærasta mín röltum greinilega í vitlausa átt út af járnbrautartorginu og rakleiðis inn í mjög skuggalegt hverfi. Túristalúkkið okkar og kannski helst mjög ljósu lokkar kærustu minnar ollu fjaðrafoki í götunni og strax byrjuðu nokkrir heiðursborgarar sem hreiðrað höfðu um sig fyrir framan húsin sín að hreyta í okkur vel völdum orðum um ferðamenn og mjög hvítt fólk. Napoli lætur engan ósnortinn sem heimsækir borgina, hvorki besta knattspyrnumann heims eða leikmann tímabilsins hjá Knattspyrnufélaginu Mídas í fjórðu deild á Íslandi.

Hrópin og köllin frá bæjarbúum urðu samt til allrar hamingju ekki til þess að ég þróaði með mér kókaínfíkn.

Maradona hefur yfir sér goðsagnakenndan blæ og er það ekki að ósekju. Mörkin tvö sem hann skoraði gegn Englandi á HM 1986 í skugga Fálklandseyjastríðsins sitja sem brennd á sjónhimnu allra knattspyrnuáhugamanna. Karakter Maradonas er líka stór hluti af goðsögn hans og kannski helsta ástæðan fyrir því að margir telja hann besta knattspyrnumann allra tíma. Því hann er það, er það ekki?

Bestur á kaldastríðsárunum – Maradona gegn Márunum

Föst rök má færa fyrir því að Lionel Messi sé besti knattspyrnumaður allra tíma og fast á hæla hans komi Portúgalinn knái sem skírður var í höfuðið á Ronald Reagan. En það er afneitun á sögunni að afskrifa alla þá sem spiluðu knattspyrnu á árum áður, jafnvel þótt Messi og Ronaldo hafi slegið öll met hvað varðar markaskorun og titla.

Í fyrsta lagi lék Maradona knattspyrnu á erfiðum tíma fyrir sóknarmenn. Í kvikmyndinni má sjá meðferðina sem hann fékk frá varnarmönnum þess tíma. Ógnvekjandi varnardurgar lúrðu á bakvið þúfu hverja og hann hefur mátt þola fleiri spörk en flestir aðrir knattspyrnumenn sem spilað hafa leikinn fagra. Frægt er atvikið þegar hann lék með Barcelona og fékk óblíðar móttökur frá varnarjaxlinum Goikoechea. Það endaði með fótbroti hjá Maradona. Næst þegar liðin mættust fékk hann aftur svipaðar móttökur og fór svo að leikurinn leystist upp í hópslagsmálum þar sem Maradona var í aðalhlutverki.

Vellirnir á þessum tíma voru líka öllu lakari en Wimbledon grasmotturnar sem fótbolti er spilaður á í dag. Þá voru dómarar heldur ragir við að draga fram gulu ostsneiðina og veifa fram í áðurnefnda varnardurga. Spjöld fyrir uppsöfnuð brot þekktust varla – ef brotið var nægilega vægt, þá voru engin takmörk fyrir því hversu oft mátti brjóta af sér.

Í öðru lagi lék hann knattspyrnu á þeim tíma þegar aðeins tvö stig voru gefin fyrir sigur og eitt fyrir jafntefli. Þessi staðreynd er oft vanmetinn þegar nútímafótbolti er borinn saman við gömlu tímana. Á gullaldartímum ítalska boltans var sú kenning uppi að til þess að vinna titilinn væri nóg að vinna heimaleikina og sækja jafntefli í útileikjunum. Úr varð að flest lið stilltu upp varnarsinnuðum liðum, með eina tíu uppi á toppi sem átti að töfra fram eitt mark í hverjum leik. Það má líka nefna rangstöðuregluna sem hefur síðan þá tekið stöðugum breytingum. Um tíma var nóg að einn leikmaður væri rangstæður til þess að flaggið færi á loft, óháð því hvort hann væri nálægt boltanum. Að spila sem sóknaraður við þær aðstæður gat reynt á þolinmæðina.

Í þriðja lagi og kannski helsta ástæða þess að enn er litið á Maradona sem besta knattspyrnumann allra tíma er sú staðreynd að hann vann titla með Napoli. Félagi sem hafði fyrir komu Maradonas aðeins unnið tvo bikarmeistaratitla í sögu félagsins. Maradona kom ekki bara með gæði til Napoli heldur bar hann með sér trú á að hægt væri að skjóta stóru félögunum í norðri ref fyrir rass.

Eins manns her

Áður en Maradona gekk til liðs við félagið var félagið í fallbaráttu. Á fyrsta tímabilinu hans endaði liðið í áttunda sæti og Maradona veitti forseta félagins góð ráð þegar kom að leikmannakaupum. Hann fékk að velja hvaða leikmenn voru keyptir og þeim tókst að byggja upp lið sem vann tvo Scudetti (Ítalíumeistaratitla) á þeim tíma þegar deildin var upp á sitt sterkasta. Líkja má þessu við að Messi myndi ganga til liðs við Udinese og vinna titilinn fjórum árum seinna. Því miður munum við líklegast ekki fá að sjá þá tilraun verða að veruleika.

Maradona var óhræddur við að ögra ríkjandi öflum. Hann brosti framan í hættur. Með knattspyrnuóða borg á herðum sér stóðst hann pressuna, blés óreyndum liðsfélögum sínum von í brjóst og skilaði titlum.

Kvikmyndin er must-see fyrir alla knattspyrnuáhugamenn. Ekki bara er ferli hans gerð góð skil heldur er líka fjallað um fallið hans að lokum. Daðrið við mafíuna – fíknin, samsæriskenningarnar, HM 1990 og vandamálin í einkalífinu sem að lokum bundu enda á feril hans hjá Napoli. En hans er enn minnst í borginni sem hetjunni og fánaberanum sem gaf Suður-Ítalíubúum stærstu sigrana gegn öflugu öflunum í norðri. Það hefur enginn leikið eftir síðan.

Fyrir áhugasama fjallaði ég um sögu Napoli og það hvernig Diego Maradona endaði í Napoli í hlaðvarpsþætti í fyrra. Hann má nálgast hér.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.