Má bjóða þér kakó?

eftir Björn Már Ólafsson

Ég verð seint sakaður um kirkjurækni, eða jafnvel guðrækni, á þeim 12 árum sem liðið hafa frá því ég fermdist. Fermingafræðslan sjálf var raunar minni en almennt gerist á meðal guðhræddra unglinga í dag, þar sem ég bjó í Noregi og þurfti að ferðast lengri vegalengdir til þess að hlusta á biblíusögur. Svo fáir voru fermingafræðslutímarnir sem ég sótti að ef líkja mætti fræðslunni við Ökuskólann, þá sat ég aðeins Ökuskóla 1.

Hápunktur fræðslunnar var þó án alls efa fermingabúðirnar sem við krakkarnir fórum í til Svíþjóðar. Drekkhlaðin rúta af íslenskum unglingum með norskan hreim, töskurnar voru fylltar af eins miklu sænsku nammi og við gátum í þær troðið. Áfangastaðurinn var sænski bærinn Ljungskile í nágrenni Gautaborgar. Þar leyndist fallegt safnaðarheimili og auðséð var að við vorum komin í einhvers konar sænska sumarparadís. Svo sænska að maður bjóst við að vakna við lætin í börnunum í Ólátagarði á nóttunni eða við öskrin í pabba Emils með músagildruna á tánni.

Tekist á við hrekkjusvín

Fræðslan var fjölbreytt og fór þar fremstur í flokki ungur maður sem lagði okkur lífsreglurnar með ágætum. Eins og væntanlega tíðkast í öðrum slíkum fermingabúðum var rætt um móral, náungann, hinn og þennan. Ég væri að ljúga ef ég segðist muna margt af því sem þar fór fram en eitt sem þessi ungi kennari sagði fannst mér fyndið og hefur fundist alla tíð síðan. Ekki vegna þess að þetta er í sjálfu sér fyndið, heldur vegna þess að frasinn sem hrökk af vörum hans hefur ekki látið mig í friði síðan. Frasinn var stuttur og áreynslulaus og tæpast hefur kennarinn haldið að þar væri á ferðinni einhver ódauðleg setning sem ætti eftir að fylgja ungum pilti alla ævi, en samt hefur þetta endurómað í höfðinu á mér mun oftar en ég kæri mig um að viðurkenna.

Umræðuefnið var framkoma í garð náungans, og sérstaklega það, hvernig koma skuli fram við einstakling sem kemur illa fram við þig. Hrekkjusvín eða leiðindapúka. Siðblindingja jafnvel. Hann bað okkur um tillögur að því hvernig best væri að hegða sér við slíkar aðstæður og ekki vantaði tillögurnar: „forða sér”, „svara í sömu mynt,” „láta leiðindin ekki á sig fá,” sögðu óhertu unglingarnir.

Svarið hans var á þá leið að maður ætti að koma fram við alla eins og vini sína, jafnvel þótt þeir væru að ausa yfir mann leiðindum. Fróðari menn (og áhugasamari) geta eflaust tengt þetta við kennisetningu spámannsins um að bjóða hinn vangann. Einn fermingabróðir minn var heldur ósáttur með svarið, enda ekki sú manngerð sem var líkleg til að gefa tommu eftir ef til átaka kæmi. „Hvað meinaru, á ég að vera góður við hrekkjusvínið í skólanum?

„Bjóddu honum kakó” svaraði kennarinn um hæl, og þar við sat.

Ausið úr skálum reiðinnar á netinu

Það fyrsta sem flaug í huga mér við að heyra þetta var tilhugsunin um sjálfan mig, bjóðandi hrekkjusvíninu í skólanum mínum kakó úr meðferðis hitabrúsa sem mamma hefði útbúið um morguninn, á meðan hrekkjusvínið var önnum kafið við að troða snjó ofan í buxnastrenginn á einhverjum ólukkans samnemanda, sem hafði ekkert sér til sakar unnið annað en að vera  veiklulegt fórnarlamb aðstæðna á snævi þakktri skólalóðinni í úthverfi Oslóar.

En þessi súrrealíska hugsun eltir mig stöðugt og hún kætir mig oft í hinu daglega lífi því ég get einfaldlega ekki hætt að yfirfæra þessar ímynduðu aðstæður á þær aðstæður sem á vegi mínum verða í samfélaginu í dag, hvort sem heldur á netinu eða í raunheimum.

Þegar stormar sem mest og einhver gífuryrtur bloggari með minnimáttarkennd úthúðar einhverju greyi útí bæ, eða eitthvað nafnlaust nettröll eys úr skálum reiði sinnar yfir einhvern óheppinn einstakling og sakar hann um dauðasyndirnar sjö (afsakið biblíutilvísunina, ég stóðst ekki mátið), vegna afstöðu hans í málefnum verðtryggingarinnar eða stjórnarskrárnefndarinnar þá get ég ekki varist brosi um leið og ég sé fórnarlambið fyrir mér rölta upp að úthúðara sínum og bjóða honum kakó. Þetta er svona mín útgáfa af hinu sígilda ráði sem veitt er einstaklingum með sviðsskrekk: „Sjáið áhorfendur fyrir ykkur nakta. Þá verður þetta bara fyndið og skemmtilegt.”

Að öllu gamni slepptu þá held ég að sannleikurinn sem felist í þessu ráði sé einfaldlega sá að þeim sem ganga fram með ofsafengnum hætti, líður einfaldlega ekki vel. Og hvað er betur til þess fallið til að bæta líðan fólks en að bjóða því kakó? Bregst einhver illa við því?

Ljósmyndir teknar af Håkon Broder Lund

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.