Loksins nýjungar hjá Strætó

eftir Jórunn Pála Jónasdóttir

Síðustu árin hafa verið tíðindalítil hjá Strætó þegar kemur að því að kynna til leiks nýjar hugmyndir og lausnir í vali á strætisvögnum. Í fleiri ár hefur verið spurt að því hvort ekki væri hagkvæmara að nota minni vagna á ýmsum leiðum sem keyra um höfuðborgarsvæðið. Með því væri hægt að færa þjónustuna nær notandanum en í samanburði við sveitarfélög erlendis með sambærilegan íbúafjölda er Reykjavík og nágrannasveitarfélög strjábýl. Auk þess myndi  aukin nálægð við notendur henta vel í íslenskri veðráttu. Þetta gæti aukið líkur á að Strætó geti verið raunhæfur ferðamáti fyrir fleiri allt árið um kring.

Hugmyndir um borgarlínu gera reyndar ráð fyrir því gagnstæða, eða færri stoppistöðvum en Strætó býður upp á, og búast má við að flestir notendur þurfi að ganga lengra út á borgarlínustöð en strætóstöð. Jafnvel myndu margir þurfa að taka strætó í borgarlínuna?

Nú hefur loksins verið farið af stað með tilraunaverkefni hjá Strætó sem gengur einmitt út á að smárútur þjónusti leið sjö sem ekur á milli Mosfellsbæjar og Grafarvogs. Í fréttatilkynningunni kemur einnig fram að nú þegar hafi þetta fyrirkomulag reynst vel í Urriðaholti. Þessu ber að fagna, þótt fyrr hefði verið. Nýjungin vekur á sama tíma upp spurningar um það hvort ekki megi setja aukinn þunga í nýjungar hjá Strætó áður en ráðist verður í uppbyggingu borgarlínu fyrir fleiri milljarða.