Lögleg eiturlyf ávísun á vandræði?

eftir Ágúst Ingi Guðnason

Þann 26. október síðastliðinn lýsti Donald J. Trump, Bandaríkjaforseti, yfir neyðarástandi vegna umfangsmesta vímuefnafaralds í sögu Bandaríkjanna. Boðaði Trump til aðgerða og aukinnar fjármagnsveitingar til stofnana í fremstu víglínu. Upphaf vandans má rekja til loka 20. aldarinnar og hefur hann farið ört vaxandi síðan þá. Viðvörunarljós hafa lengi verið á lofti og ýmsir sérfræðingar stigið fram og bent á hvað sé í uppsiglingu. Hins vegar hafa stjórnvöld vestanhafs brugðist takmarkað við og á það bæði við ríkisstjórnir Obama og Trump.

Árið 2016 dóu yfir 64.000 manns af völdum ofskömmtunar vímuefna í Bandaríkjunum. Þetta er fjölgun um 22% frá árinu 2015, en þá létust 52.404. Frá árinu 2000 til 2014 varð 147% aukning í dánartíðni sökum ofskömmtunar vímuefna. Til að setja þessar tölur í samhengi, þá láta fleiri lífið á einu ári vegna þessa heldur en sem nemur heildarmannfalli Bandaríkjamanna í Víetnamstríðinu. Fleiri deyja nú árlega vegna ofskömmtunar vímuefna heldur en í bílslysum eða af völdum skotvopna og ofskömmtun vímuefna er í dag helsta dánarorsök Bandaríkjamanna undir fimmtugu.

Aukninguna má helst rekja til svokallaðra ópíóða. Af dauðsföllunum árið 2015 má rekja 63% til ofskömmtunar ópíóða en dauðsföll vegna þeirra hafa aukist um rúm 200% frá árinu 2000. Tölurnar fyrir árið 2016 byggja enn á spám en margir telja þær vera jafnvel vanmetnar.

En hvað eru ópíóðar?

Ópíum er þykkni úr safa Papaver Somniferum, betur þekkt sem valmúi. Inniheldur efnið morfín sem hefur verið notað í læknisfræði- og félagslegum tilgangi í þúsundir ára. Flestir ópíóðar eru afleiður af morfíni, en ópíóðar tengjast meðal annars ópíóðaviðtakanum (e. receptors). Viðtakar eru prótínbyggingar á frumum sem stýra viðbrögðum þeirra við efnaáreiti svo sem vegna lyfja. Notkun ópíóða er algeng í læknisfræði enda eru ópíóðaviðtakar á víð og dreif um líkamann. Þeir eru m.a. notaðir við verkjastillingu, til þess að stöðva niðurgang og til þess að halda niðri hósta. Áhugi okkar snýr þó að þeim ópíóðum sem tengjast svo kölluðum μ-ópíóðaviðtökum. Þeir eru á víð og dreif um heilann og mikil þéttni í þeim svæðum sem stjórna sársaukaskyni, tilfinningaviðbrögðum við sársauka og verðlaunastöðvum heilans. Dreifing viðtakans skýrir hvernig ópíóðar minnka sársauka og orsaka vellíðan (e. euphoria). μ-viðtakinn er þó líka á svæði í heilanum sem kallast heilastofn (e. brain stem.), hann tekur þátt í stjórnun ýmissa innri ferla líkamans, meðal annars öndun. Virkni ópíóða í heilastofni veldur öndunarbælingu og í nægilegu magni getur þessi bæling valdið dauða.

Dæmi um ópíóða:

 • Hydrocodone
 • Heróín
 • Morfín
 • Fentanýl

Vandinn í dag snýst þó ekki aðeins um ólögleg vímuefni heldur spilar misnotkun löglegra vímuefna einnig stóra rullu. Stór hluti nýrra heróínneytanda í Bandaríkjunum segjast hafa byrjað að nota lyfseðilskyld verkjalyf. Margir samverkandi þættir spila saman í faraldrinum en ýjað hefur verið að því að breytt viðhorf gagnvart verkjum í lok 20. aldarinnar sé þar stór þáttur. Ávísanir lyfseðilsskylda ópíóða fjórfölduðust í Bandaríkjunum frá árinu 1991, en 2012 voru 259 milljón lyfjaávísanir ópíóða. Til samanburðar búa í Bandaríkjunum um 320 milljónir, en stærsti hluti þessara lyfjaávísanna er þó til skamms tíma. Þess má geta að ópíóð-lyfið hydrocodone er ávísað einna oftast vestanhafs. Í dag eru rúmlega tvær milljónir Bandaríkjamanna háðir ópíóðum og daglega þurfa um þúsund manns einhvers konar aðstoð á bráðamóttöku vegna misnotkunar ópíóða.

Eins og myndin sýnir hér að ofan sýnir virðist sem þróuninni hafi verið haldið á lofti af hinum algengt ávísuðu ópíóðum. Nú í dag virðist heróín og lyfið fentanýl hafa tekið við því vafasama hlutverki. Lyfið Fentanýl hefur verið nokkuð í fréttum hérlendis síðustu ár en það er notað við langvinnum verkjum sem eru næmir fyrir morfínlyfjum eins og sársauka af völdum krabbameina. Fentanýl er gríðarlega sterkur ópíóði og allt að 50 til 100 sinnum sterkari en morfín og margfalt sterkari en heróín. Mikil aukning hefur verið á dauðsföllum tengdum fentanýli í Bandaríkjunum. Árið 2013 létust um 3000 manns af völdum þess í en árið 2016 var sú tala orðin 20.000. Dauðsföll tengd ofskömmtun annarra vímuefna eins og kókaíns eða amfetamíns hafa einnig aukist en ná þó ekki með tærnar þar sem ópíóðar hafa hælana.

Hvað er til ráða?

Í dag eru Bandaríkin að glíma við vímuefnavanda sem á sér engan líkan í þeirra sögu, sannkallaðan faraldur. Þrátt fyrir ýmsa ókosti ópíóða komumst við varla án þeirra en ópíóðar eru hornsteinn ýmissa verkjameðferða. Vandinn er flókinn og lausnin er talsvert flóknari, en sérfræðingar virðast þó vera á sama máli um eftirfarandi þætti:

 • Ávísanir ópíóða verði studdar vísindalegum rökum og að heilbrigðisstarfsmenn styðjist við nýjustu meðferðarleiðbeiningar.
 • Vægi kennslu verði að auka sem og fræðslu um sársauka og fíkn í námi heilbrigðisstétta.
 • Fjármagn verði að auka til rannsókna á sársauka.
 • Aðgengi  að skaðaminnkandi úrræðum verði bætt
 • Dreifing og kennsla um notkun naloxone verði efld, en naloxone er mótefni sem snýr við áhrifum ópíóða.
 • Aðgengi að úrræðum fyrir vímuefnaneytendur verði bætt.
 • Síðast en ekki síst að forvarnarstarf verði eflt, betra heilt en vel gróið.

 

Ágúst Ingi Guðnason

Pistlahöfundur

Ágúst Ingi er 5. árs læknanemi í Háskóla Íslands og starfar á geðsviði Landspítalans. Hann er varaformaður Hugúnar geðfræðslufélags og fyrrverandi gjaldkeri sama félags. Einnig hefur hann setið sem varamaður í stúdentaráði og fulltrúi nemenda í kennslunefnd heilbrigðisvísindasviðs. Áhugamál Ágústs Inga eru læknisfræði, taugavísindi og sagnfræði.