Lögfræðingar geta verið árangursríkir frumkvöðlar

eftir Erna Sigurðardóttir

Í almennri umræðu er sú staðalímynd oft dregin upp af lögfræðingum að þeir séu reiðubúnir til að veita hverjum sem er fulltingi sitt gegn greiðslu, sama hver málstaður viðkomandi er. Lögmenn birtast þannig oft sem samviskulausir og fégráðugir málaliðar, sem selja sannfæringu sína og kunnáttu í lögum þeim sem best borgar hverju sinni.[1] Hin neikvæða mynd sem almenningur hefur af lögfræðingum, felst helst í því að þeir eru fokdýrir, einstaklega samviskusamir í innheimtum, taka að sér hvaða skítaverk sem er og einstaklega forhertir ef því er að skipta.[2] Þá er stundum talað um að frumkvöðlar þoli ekki lögfræðinga.

Aftur á móti, lögfræðinga vegna, án þess að telja upp þær skyldur sem hvíla á þeim samkvæmt siðareglum þeirra, má segja að það sé krafa um að sýna sjálfstraust, benda á áhættur, hugsa á meðan þeir ræða málin og vera hreinskilnir í því skyni að vernda viðskiptavinina.  Sama hegðun, en mismunandi viðhorf getur komið fram í því sem lögfræðingar telja vera faglega hegðun, en frumkvöðlar líta á sem algert metnaðarleysi. Það er því greinilega djúp gjá á milli frumkvöðla og lögfræðinga.

Alþjóðlegt orðspor lögfræðingastéttarinnar hefur líklega einhver áhrif, og í hreinskilni sagt, þá hafa bandarískir sjónvarpsþættir ekki beint hjálpað við að vinna gegn þessari staðalímynd. Lögfræðingar eru oftast sýndir sem sjálfhverfir eiginhagsmunaseggir, sem virðast vera oflaunaðir en vinna þó sjaldnast, svipað og Harvey Specter, hinn litríki persónuleiki í lögfræðidramanu „Suits“.

Á meðan flestir lögfræðingar tengja lögfræðistörf við skjalaflóð sem þeir þurfa að komast til botns í, þá virðist áðurnefndur Harvey ekki hafa eitt einasta blað á skrifborðinu sínu. Á meðan hinn almenni raunheima lögmaður er fastur við skrifborðið sitt meginhluta sólarhringsins rýnandi í ógrynni skjala, fræðirita og dóma svona til að fá samhengi í mál það sem umfjöllunar er hverju sinni. Þá hefur Harvey ávallt nægan tíma til að spássera fram og til baka um lögmannsstofuna sína í e.k. algeru iðjuleysi. Á meðan lögfræðingar raunheima eru samvaxnir tölvu sinni, þá virðist hann nærri undantekningalaust hafa allar helstu upplýsingar í kollinum, hvar og hvenær sem er. Það er því langsótt að ímynda sér hvernig hinn glæsilegi og vel smurði Harvey Specter sem ávallt er við stjórnvölin, gæti skyndilega breyst í skapandi stofnanda nýsköpunarfyrirtækis, klæddur í hettupeysu.

Með þessa brengluðu ímynd af lögfræði-frumkvöðli (e. lawtrepreneur) í huga má velta fyrir sér hvernig lögfræðingar gætu passað inn í teymi hjá stofnendum dæmigerðs nýsköpunarfyrirtækis. Ekki einungis sem faglegir ráðgjafar heldur sem mikilvægir hlekkir í hópi stofnenda.

En hér eru allavega nokkrar ástæður tíundaðar fyrir því að við, lögfræðingar, gætum verið einn mikilvægasti hlekkurinn í nýsköpunarteyminu:

 1. Við erum vön að koma auga á hættur
  Það ætti ekki að koma á óvart ef lögfræðistörfum væri lýst sem síendurtekinni æfingu í áhættustýringu. En lögfræðingum er upplagt að hugsa og gera ávallt ráð fyrir hinu versta (e.worst case scenarios) í þeim tilgangi að geta upplýst viðskiptavin um allar mögulegar útkomur mála. Við höfum mjög góðan eiginleika til að sjá fyrir óvæntar aðstæður og tengja þær aðstæður saman á þann hátt sem enginn annar hefur tekið tillit til áður. Við hugsum bókstaflega í margvíðum möguleikum. Reyndar er slíkur hæfileiki ekki aðeins til staðar hjá lögfræðingum, en reglubundin ástundin á „hvað gæti mögulega farið úrskeiðis” hjálpar okkur vissulega við að greina aðstæður hraðar en almennt gerist. Aftur á móti, hrjáir frumkvöðla oft svokölluð frumkvöðlablinda (e.entrepreneurial optimism) er oft kemur í veg fyrir að þeir sjái aðsteðjandi áhættu réttu ljósi. Lögfræðingar gætu því verið kærkomin viðbót í frumkvöðlahópinn en ekki síst komið jafnvægi á of bjartsýnan hóp frumkvöðla, með því að draga fjölþættari sjónarmið áhættu að borðinu.
 2. Við erum vön að læra það sem við skiljum ekki
  Þó að lögfræðinám sé vissulega ekki auðvelt, þá er sannleikurinn sá að erfiði hlutinn bíður okkar þangað til að námi lýkur. Þú kynnist helstu greinum lögfræðinnar í náminu auk þess að tileinka þér ákveðna mikilvæga eiginleika. Hinsvegar byrjar alvaran þegar á vinnumarkaðinn er komið og þú áttar þig skyndilega á því að samskiptahæfileikar skipta öllu máli og eflaust hefði verið skynsamlegt að taka sálfræði sem aukafag. Þar að auki bætir þú stöðugt við þig þekkingu á frekar tæknilegum sviðum. Í rauninni, þá þarftu sífellt og stöðugt að læra og bæta þig á hinum margvíslegu og ólíkum sviðum þjóðlífsins. Lögfræðingar hafa því þjálfun og getu til að ná góðum tökum á öðrum fræðigreinum og geta því tekið að sér margbreytileg hlutverk í nýsköpunarteyminu.

 3. Við erum þrautseig
  Það að vera lögfræðingur er stöðug barátta ekki aðeins fyrir hönd viðskiptavina okkar heldur fyrir lögformlegum skiladögum, fyrir stöðu í teymi og jafnvel fyrir andlegri heilsu. Þrautseigja er einn af þeim eiginleikum sem við þurfum því að þróa með okkur eða bæta á meðan á námi stendur. Hvort sem við verjum öllum frítíma okkar á bókasafninu við að lesa þykkar torskiljanlegar fræðibækur með smáu þéttu letri, eða í tólf tíma heimaprófi . Enn fremur, erum við oft í mikilli samkeppni, hvort sem er á almennum vinnumarkaði eða innan vinnustaðar okkar. Þrautseigja er því einkar mikilvæg í starfi lögfræðingsins líkt og gildir um frumkvöðlastarf.

 4. Það eru ekki fullmótaðar leiðbeiningar til staðar um framkvæmd starfa okkar
  Lögfræðingar starfa í umhverfi sem er að miklu leyti ófyrirsjáanlegt og það getur allt gerst. Í mörgum tilvikum geta þeir ekki, án nokkurs vafa, spáð fyrir niðurstöðu í dómsmáli eða fyrir hegðun gagnaðila. Það eru einfaldlega of margar og óþekktar breytur til staðar. Lögfræðingar láta því oft reyna á ákveðna stefnu og breyta henni eða aðlaga hana á meðan verkefni stendur. En þetta er nákvæmlega það sem frumkvöðlar þurfa nauðsynlega að gera og jafnframt það sem oftast fer forgörðum hjá þeim.Margir stofnendur í nýsköpunarfyrirtækjum hafa tæknilegan bakgrunn, jafnvel verkfræðigráðu, svo þeir eru vanir að beita vísindalegum aðferðum sem veita þeim nákvæmar hlutlægar niðurstöður. En því miður gengur hvorki lögfræðistarf né frumkvöðlastarf svona  fyrir sig. Við þurfum að aðlagast og um leið nota innsæi, sem vissulega er langt í frá og gerólíkt hlutlægri vísindalegri nálgum. Sem stofnandi nýsköpunarfyrirtækis þarft þú oft að gera slíkt hið sama. Þú getur og þú munt lenda í aðstæðum þar sem þú þarf að taka ákvarðanir þegar í stað, án þess að hafa fullnægjandi upplýsingar, og ert jafnvel undir mikilli tímapressu. Það að geta notað þjálfað innsæi sem verkfæri getur reynst dýrmætt fyrir nýsköpunarfyrirtæki.

En hvar eru annars allir lögfræðingarnir?

Nú þegar við vitum að lögfræðingar eru að líkindum mjög verðmætir meðlimir í hópi stofnenda nýsköpunarfyrirtækja, er spurningin sú, hversvegna eru þeir það ekki? Það eru náttúrulega alltaf einhverjir lögfræðingar sem gerast frumkvöðlar og mörg ný LegalTech nýsköpunarfyrirtæki eru að verða til, en í raun eru ekki margir lögfræðingar á þessu sviði. Svo hvað þarf að gerast til að beina lögfræðingum í átt að frekara frumkvöðlastarfi?

 1. Í hlekkjum hugarfarsins
  Til þess að verða góðir meðstofnendur (e. co-founders) þurfa lögfræðingar að breyta hugarfari sínu. Úr því að vera einungis fókuseraðir á ráðgjöf yfir í að framkvæma, úr því að kynna margar hugsanlegar lausnir yfir í að velja eina, frá því að túlka yfir í að búa til eitthvað, úr því að útiloka hættu yfir í að taka áhættu. Það er almenn vitneskja að nýsköpunarfyrirtækjum mistekst oftar en þau ná árangri og að möguleikinn á að verða atvinnulaus eigandi verðlausra hluta í misheppnuðu nýsköpunarfyrirtæki vofir stöðugt yfir. Mörg fyrirtæki og lögfræðistofur leitast við að kynna frumkvöðlastarf fyrir starfsmönnum sínum í auknum mæli, þar sem mistök eru óaðskiljanlegur partur af heildarferlinu. Þessi breyting er hins vegar ennþá „work in progress“.
 2. Breyttar áherslur í námi
  Hugarfarsbreytingin verður auðveldari ef (framtíðar) lögfræðingar upplifa frumkvöðlastarf í fyrsta skipti strax á meðan á námi stendur. Laganám á Íslandi hefur að ýmsu leyti tekið miklum framförum á síðustu árum, aukið námsframboð, fjölbreyttari háskólar, valfrelsi nemenda, áhersla á verkefnatengt nám og fleira. En almennt hafa lagadeildir, með undantekningum þó, þokast hægt í átt að breytingu. Aðalatriðið er að koma sköpunargáfu (e. creativity), sem er drifkraftur frumkvöðlastarfs, inn í námsskrá lagadeilda. Sköpunargáfa í skilningi núverandi lögfræði er oftar en ekki bundin við nýjar og frumlegar leiðir til lagalegrar túlkunar. En nýsköpunarfyrirtæki hagnast ekki endilega á því. Nemendur ættu því að fá að takast á við flókin viðskipta -, fjármála-, markaðssetningar- eða lagaleg vandamál sem þeir þurfa að nálgast frá mörgum mismunandi sjónarhornum. Eðli máls samkvæmt, geta nemendur ekki verið sérfræðingar í öllum þessum ólíku greinum en sköpunargáfa getur hér skipt sköpum og bætt upp reynsluleysið. Á sama tíma, að hafa ekki hugmynd um hvernig á að leysa vandamál en jafnframt að taka af skarið og takast á við áskorunina, er hornsteinn sjálfstæðis og sjálfstraust einstaklingsins, eitthvað sem er í hávegum haft á hinum almenna vinnumarkaði.
 3. Ný reynsla
  Þó að lögfræðinám sé dýrmætt innlegg inn í mótunartímabili háskólanemans, getur raunveruleg reynsla verið sá hornsteinn, sem brúar bilið milli lögfræðinnar og frumkvöðlaheimsins. Sú stoð sem veitir dýrmæta þjálfun í að beita fræðilegri þekkingu á raunveruleg viðfangsefni. Nemendur eða nýútskrifaðir lögfræðingar sem hafa tækifæri til að upplifa nýsköpunarumhverfi á eigin skinni geta breyst úr hefðbundnum lögfræðingum yfir í svokallaða “lawtrepreneurs”. Í þessu samhengi er viðeigandi grundvöllur (e. platforms) líkt og s.k. „startup legal clinics“, sem tíðkast víða, mikilvægur vettvangur sem gerir laganemum og nýútskrifuðum lögfræðingum kleift að upplifa nýsköpunarumhverfi. Það að eiga kost á að fylgjast með frumkvöðlum takast á við stórar áskoranir og gefast ekki upp, upplifa umhverfi þar sem stöðugt er hvatt til nýrra hugmynda, þar sem starfskröfurnar eru „að hugsa út fyrir kassann“, er reynsla sem getur opnað augu fólks bæði, faglega og persónulega, og gert þá hæfari að takast á við störf sín til framtíðar, óháð vettvangi.
 4. Hlutverkaskipting
  Þegar þú starfar sem lögfræðingur skilgreinir þú þig sem lögfræðing og fólk í kringum þig gerir sér grein fyrir því hvað þú vinnur við hverju sinni. Að vera stofnandi í nýsköpunarfyrirtæki er mjög ólík reynsla. Þú getur varla skilgreint verkefnin þín enda gerir þú einfaldlega það sem þarf að gera hverju sinni. Einn daginn ertu í leit að fjármagni, annan daginn ertu vöruframleiðandi og á þriðja degi ertu sérfræðingur í markaðsfræðum og ert að byggja upp markaðsherferð eða í hlutverki sölumanns við að selja afurð nýsköpunar. Ekki síst býrðu við stöðugt neyðarástand. Líkt og einn frumkvöðullinn orðaði það, það að eiga nýsköpunarfyrirtæki er eins og að veita endurlífgun 24/7. Þessi hæfileiki til skipta frá einu hlutverki til annars á skjótan og einfaldan hátt er líklega einn af stærstu áskorunum núverandi og framtíðar sérfræðinga sem gerast frumkvöðlar.

  Að vera frumkvöðull/stofnandi í nýsköpunarfyrirtæki er líklega eitt mest krefjandi starf sem til er. En það að vera stofnandi að árangursríku nýsköpunarfyrirtæki er jafnframt örugglega eitt mest gefandi starfið. Ef vel tekst til að stýra lögfræðingum í þessa átt með þeim leiðum sem raktar hafa verið hér að ofan, munum við vera vitni að fæðingu „lawtrepreneurs“, nýrri kynslóð lögfræðinga sem geta verulega hjálpað nýsköpunarfyrirtækjum á leið þeirra til sigurs.

Greinin birtist fyrst í Háskólablaðinu.

[1] Arnar Þór Jónsson, „Dul og rangvirðing: Þankar um samfélagslegt hlutverk lögmanna“ (2013) Úlfljótur 3, 249

[2] Ellert B. Schram, „Siðferðileg ímynd lögfræðinga í augum almennings“ (1993) Tímarit Lögfræðinga 43, 25.

Erna Sigurðardóttir

Pistlahöfundur

Erna stundar meistaranám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Um þessar mundir er hún fulltrúi nemenda í Gæðaráði íslenskra háskóla. Hún var hagsmunafulltrúi HR-inga, sat í stjórn Stúdentafélagsins jafnhliða námsráði HR. Hún gegndi embætti formanns Lögréttu, félags laganema, skólaárið 2015-2016 auk þess sem hún átti sæti í hagsmunaráði laganema frá 2013-2016. Skrif hennar í Rómi snúa meðal annars að menntamálum og þá sérstaklega hagsmuna- og gæðamálum, lögfræðilegum álitaefnum og málefnum líðandi stundar.