Lögbannið á Stundina – Í andstöðu við tjáningarfrelsi?

eftir Jórunn Pála Jónasdóttir

Í liðinni viku hefur tjáningarfrelsið verið á allra vörum og ekki að ástæðulausu heldur í kjölfar ákvörðunar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að leggja lögbann við umfjöllun Útgáfufélags Stundarinnar ehf. og Reykjavík Media ehf. um gögn innan úr fallna bankanum Glitni. Gerðarbeiðandi lögbannsins var þrotabú Glitnis, Glitnir Holdco ehf., en helsti rökstuðningur fyrir beiðninni var að umfjöllunin bryti gegn lögum um bankaleynd, sbr. til dæmis ákvæði laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Flestir virðast á einu máli um það að skilyrði lögbannsins hafi hins vegar ekki verið uppfyllt. Gerðar eru strangar kröfur til slíkra beiðna, ekki síst þegar grundvallar mannréttindi líkt og tjáningarfrelsið er undirliggjandi sem er mikilvæg grunnstoð í lýðræðisríki og það má aðeins takmarka í þágu annarra veigamikilla hagsmuna. Sem dæmi má nefna að í dómi Hæstaréttar frá 24. nóvember 2011 (100/2011) var til að mynda ekki fallist á að leggja lögbann við umfjöllun um fjármál Eiðs Smára Guðjohnsen sem byggð var á upplýsingum sem lekið höfðu til fjölmiðla sem rennir stoðum undir þann skilning að fyrrnefnt lögbann hafi ekki átt rétt á sér.

Tjáningarfrelsið nýtur verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Réttur til tjáningarfrelsis byggir einnig á 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem var lögfestur á Íslandi með lögum nr. 62/1994. Hin hliðin á peningnum í þessu tilviki er aftur á móti friðhelgi einkalífs sem einnig nýtur verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. MSE.

Í tveimur dómum Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) sem kveðnir voru upp í gær þann 19. október var fjallað um mörk réttar til friðhelgis einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar. Hlutverk dómstólsins er að tryggja að aðildarríki að MSE standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum og eru niðurstöðurnar því áhugaverðar, sérstaklega í ljósi atburða vikunnar. Hér á eftir fjalla ég stuttlega um niðurstöðurnar og dreg út frá þeim ályktanir um það hvort MDE myndi telja ákvörðun sýslumanns brjóta gegn tjáningarfrelsi Stundarinnar.

Synjun um lögbann á ákveðnar staðhæfingar í blaðagrein braut ekki gegn friðhelgi einkalífs

Í MDE Fuchsmann gegn Þýskalandi (mál nr. 71233/13) frá 19. október fór einstaklingur (héðan af kvartandi), sem var leikmaður í fjölmiðlabransanum og stundaði viðskipti á alþjóðavettvangi, fram á að lagt yrði lögbann við birtingu ákveðinna fullyrðinga um hann í vefútgáfu blaðagreinar sem hafði birst í New York Times, bæði í prentuðu útgáfu blaðsins og á vefsvæði þess.

Niðurstaða MDE var sú að synjun þýska áfrýjunardómstólsins á lögbannsbeiðninni hefði ekki brotið gegn friðhelgi einkalífs kvartanda. Í niðurstöðu MDE segir meðal annars að þýski áfrýjunar dómstóllinn hefði vegið vernd friðhelgi einkalífs kvartanda, sbr. 8. gr. MSE, á móti tjáningarfrelsi dagblaðsins, sem nýtur verndar 10. gr. MSE, með sanngjörnum hætti.

MDE hefur áður staðfest að almannahagsmunir eru fólgnir í fréttaflutningi sem varðar stjórnmál eða afbrot, sbr. MDE Axel Springer AG gegn Þýskalandi (mál nr. 39954/08) frá 7. febrúar 2012. Í framangreindri niðurstöðu í máli MDE Fuschmann gegn Þýskalandi kom hins vegar til álita hvort upplýsingar sem komu fram í umfjöllun dagblaðsins, meðal annars um að grunur léki á um að kvartandi væri viðriðinn smygl á gulli, fjársvik og skipulagða glæpi, ættu erindi við almenning. Niðurstaða MDE var að undirliggjandi hagsmunir mæltu með því að upplýsingarnar væru birtar opinberlega og að almannahagsmunir réttlættu einnig að kvartandi væri nefndur á nafn sem og að blaðagreinin væri birt á vefnum. Framangreint kemur fram í 36.-37. gr. dómsins sem eru svohljóðandi:

 

  1. The Court of Appeal in its detailed judgment of 22 June 2011 held that there was a public interest in the suspicion that a German businessman was suspected of involvement in gold smuggling, embezzlement and organised crime (see paragraph 16 above). It emphasised that even though those allegations dated back some years, they had become relevant again due to the suspected involvement of a former New York City mayoral candidate in corruption. The court also pointed out that the latter was the actual topic of the article and that for the readers’ understanding of the allegations it had been necessary to elaborate on the suspicions against the applicant (see paragraph 16 above). Moreover, given the great public interest in the corruption allegations, there was also a public interest in mentioning the applicant by name.

 

  1. The Court agrees with the conclusion of the Court of Appeal that the article contributed to a debate of public interest and that there was public interest in the alleged involvement of the applicant and mentioning him by name. (undirstrikanir undirritaðrar)

 

Eins og sjá má staðfestir MDE niðurstöðu þýska áfrýjunardómstólsins. Athygli vekur að þýski dómstóllinn lítur til þess að í umfjöllun New York Times var einnig fjallað um hugsanleg tengsl fyrrum frambjóðanda til borgarstjóra við spillingu og tekið fram að það hefði í reynd verið aðalumfjöllunarefni fréttarinnar og vegna þess hefði verið nauðslengt að fjalla um grun sem beindist að kvartanda. Þá er lögð áhersla á að jafnvel þótt ásakanir gegn kvartanda hefðu verið orðnar nokkurra ára gamlar við birtingu fréttarinnar hefðu þær öðlast þýðingu á ný vegna umfjöllunar um fyrrnefndan frambjóðanda.

Einnig er áhugavert að síðar í dómnum, sbr. 39. gr., fjallar MDE einnig um framlag internetsins við að varðveita upplýsingar og gera þær aðgengilegar í þágu menntunar og sagnfræðilega rannsókna, sérstaklega þar sem aðgengi almennings að slíkum gagnagrunnum er mjög gott og að kostnaðarlausu.

Lögbann Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í ljósi dóms MDE

Hvort sem íslenskir dómstólar muni staðfesta lögbann sem sýslumaður samþykkti á dögunum, eða fella það úr gildi, er ekki útilokað að úrlausninni verði á síðari stigum skotið til MDE af öðrum hvorum málsaðila. Dómstóllinn hefur áður tekið afstöðu til slíkra álitamála, sbr. framangreind niðurstaða MDE Fuschmann gegn Þýskalandi og annað dæmi er MDE Verlagsgruppe droemer knaur gegn Þýskalandi (mál nr. 35030/13) frá 19. október sl. Í síðarnefnda málinu taldi MDE ekki tilefni til þess að endurskoða niðurstöðu þýsks áfrýjunardómstóls sem taldi að tjáningarfrelsi bókaútgefanda hefði ekki verið heft þrátt fyrir að lögð hefði verið sekt við umfjöllun hans um meint tengsl ríkisborgara Ítalíu sem búsettur var í Þýskalandi við ítölsku mafíuna.

Ýmis skilyrði þurfa þó að vera uppfyllt til þess að MDE taki slíkar kvartanir til meðferðar en til að mynda þurfa þær ásakanir sem birtar hafa verið í umfjöllun, sem farið hefur verið fram á að lagt verði lögbann við, að vera nægjanlega alvarlegar til þess að þær raski friðhelgi einkalífs kvartanda. MDE taldi það skilyrði uppfyllt í fyrrnefndu máli MDE Verlagsgruppe droemer knaur gegn Þýskalandi. Þá hefur MDE farið varlega í að endurskoða niðurstöður dómstóla aðildarríkja um mörk friðhelgis einkalífs og tjáningarfrelsis, sjá MDE Verlagsgruppe droemer knaur gegn Þýskalandi,  og því ekki gott að segja hvort dómstóllinn myndi treysta sér til þess að endurskoða niðurstöðu íslenskra dómstóla í lögbannsmálinu. Telja má að til þess þyrftu dómstólar að fara mjög á mis í samanburði sínum á vægi réttindanna.

Í ljósi ofangreindra niðurstaða er fróðlegt að velta fyrir sér hvort MDE myndi telja fyrrnefnt lögbann hafa brotið gegn tjáningarfrelsi Stundarinnar. Slíkar vangaveltur byggja á þeirri ímynduðu stöðu að annar hvor málsaðili skjóti niðurstöðu Hæstaréttar Íslands til MDE og að MDE telji skilyrði til þess að taka kvörtunin fyrir. Auðvitað þarf að fara varlega í að álykta um slíka niðurstöðu þegar málið er á frumstigi sem þessu en telja má að sjónarmiðið um að umfjöllunin hafi varðað viðskipti fjölmargra opinberra persóna, sem hefðu sumar hverjar verið í framboði til Alþingis í undanfara þess að lögbannið var lagt á, myndi vega þungt.

Bent skal á að í framangreindri máli MDE Fuschsmann gegn Þýskalandi er það einstaklingur sem kvartar en ekki fjármálastofnun líkt og í tilviki þrotabús Glitnis. Því er spursmál hvort friðhelgi einkalífs kæmi til skoðunar með sama hætti ef þrotabú Glitnis myndi kvarta til MDE. Þá kæmi væntanlega til skoðunar þýðing bankaleyndar, sem nýtur verndar í íslenskum lögum, og mörk hennar gagnvart friðhelgi einkalífs.

Undirrituð vill í lokin taka fram að ekki ber að líta á framangreinda umfjöllun sem tæmdandi lögfræðirannsókn um þýðingu ofangreindra dóma, eða um lögbannsmál þrotabús Glitnis og Stundarinnar, heldur er ætlunin að velta því upp hvaða ályktanir megi draga af framangreindum niðurstöðum MDE frá 19. október 2017.

Jórunn Pála Jónasdóttir

Pistlahöfundur

Jórunn Pála er lögfræðingur og búsett í Reykjavík. Hún sat áður sem formaður LÍS, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs formaður Vöku fls., og gjaldkeri Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík. Hennar helstu áhugamál eru hjólreiðar, fjallgöngur og ferðalög.