Loforð með skekkjumörkin eitt kjörtímabil

eftir Ritstjórn

Í stjórnmálum er oft talað um að verkefni séu brýn. Brýnt er að gera þetta. Brýnt er að gera hitt. Brýnt er að hleypa brúnum og segja „Brýnasta verkefnið er að hlúa að börnum og þeim sem minna mega sín.“

En það er ekki nóg að tala um að verkefni séu brýn, það verður líka að sýna það í verki að þau verkefni sem eru brýn fái raunverulegan forgang umfram önnur verkefni.

Síðustu vikur hafa verið fluttar fréttir af því að börn í Reykjavík fái ekki leikskólapláss eða dagmömmu fyrr en þegar börnin eru orðin 26 mánaða gömul. Í dag hljómar markmið borgarinnar upp á það að geta boðið öllum börnum pláss í dagvistun við 18 mánaða aldur. Ljóst er að langt er í land og vandamálið hefur verið til staðar lengi. Þetta mál var líka til umræðu í síðutu borgarstjórnarkosningum árið 2014. Þótt hróp og köll um moskur og flugvöll hafi yfirgnæft alla vitræna umræðu þær kosningarnar, þá voru leikskólamálin svo mikilvæg að þau rötuðu í samstarfssáttmála Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar. Það er jákvætt. Sáttmálinn var á velkunnugu froðutungumáli eins og slíkir samstarfssamningar eru oft, og einungis var lofað í samningnum að „vinna áætlun um að brúa bilið milli fæðingaorlofs og leikskóla og viðræður verði teknar upp við ríkisstjórn og Alþingi um að ná því markmiði.“

Ekki bara var þetta skrifað inn í samstarfssamning flokkanna heldur skrifaði Skúli Helgason formaður skóla- og frístundaráðs borgarinnar grein í Fréttablaðið árið 2016 þar sem loforðið var ítrekað og gott betur. Gefið var í skyn að borgin væri langt á leið komin með að leysa vandamálið.

Aðra sögu er að segja um það hvernig leikskólamálin hafa þróast á kjörtímabilinu. Markmiðið um að öll börn komist í dagvistun við 18 mánaða aldur er langt frá því að nást. Og nú skömmu fyrir kosningar er birt umrædd áætlun um það hvernig brúa eigi bilið á milli fæðingaorlofs og leikskóla. Aðspurður hvort ekki sé kosningaþefur af því að þessi áætlun birtist fyrst núna segir borgarstjóri að þetta sé einfaldlega vegna þess að fyrst þurfti að glíma við mannekluvandamálið á leikskólunum áður en hægt var að útbúa áætlunina.

Og áætlunin er ekkert sérstaklega flókin. 800 ný leikskólapláss og 5-7 nýir leikskólar verði byggðir. Hvernig var ekki hægt að taka þá ákvörðun árið 2014? Það lá fyrir að Reykjavíkurborg væri ekki að standa við 18 mánaða markmið sitt.

Ef meirihluti borgarstjórnar hefði sagt árið 2014 að hún ætlaði að leggja fram áætlun árið 2018 um það hvernig ætti að ráða niðurlögum leikskólavandans, en þangað til þyrftu börn að bíða til allt að 26 mánaða aldurs, hefðu einhverjir ungbarnaforeldrar kosið þessa flokka?

Ungar konur á vinnumarkaði eru fórnarlömbin

Umræðan um dagvistunarmál er ekki bara málefni sem varðar bara ungbarnaforeldra. Að bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla sé brúað er eitt mikilvægasta baráttumálið fyrir jafnrétti kynjanna, meðal annars á vinnumarkaði. Eins og Hildur Björnsdóttir hefur bent á í pistli sínum þekkist það að konum hefur verið sagt upp í vinnu vegna vandræðagangs Reykjavíkurborgar í dagvistunarmálum. Slíkt er hreint út sagt algjör skandall og ljóst að sérstaklega þeir flokkar sem telja sig í fararbroddi fyrir jafnréttisbaráttu kvenna skulda þessum konum, og öllum þeim sem sem þurft hafa að vera heima með börnin eftir að fæðingarorlofi lauk, jafnvel þar til börnin urðu 26 mánaða gömul afsökunarbeiðni.

Stjórnmál snúast að lokum nefnilega ekki um kerfið í heild sinni heldur einstaklinga og fjölskyldur sem þurfa á því að halda. Kerfið sem meirihlutinn í borginni segist nú vera að reyna að bæta hefur brugðist fjölskyldum og sérstaklega ungum konum á undanförnum fjórum árum. Það verður ekki litið framhjá því.

Greinarhöfundur íhugar að eignast barn á næsta áratug eða svo. Það væri fínt að geta fengið áætlun um það hvenær borgarstjórn ætlar sér að vera búin að koma málunum í lag. Með skekkjumörk upp á meira en eitt kjörtímabil.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.