Ljósin í myrkrinu

eftir Páll Óli Ólason

Það kannast eflaust margir við það á haustin að lundin þyngist og það er aðeins erfiðara að koma sér fram úr rúminu. Flestir finna ekki neitt fyrir því, nokkrir eitthvað aðeins en einhverjir mun meira, jafnvel svo mikið að það tekur að hamla þeirra daglega lífi. Hjá þeim sem finna mest fyrir þessu getur verið um að ræða hið svokallaða skammdegisþunglyndi.

Skammdegisþunglyndi er í raun tegund af árstíðabundnu þunglyndi sem kemur þegar dagurinn tekur að styttast. Einkenni þess eru þau sömu og við annarskonar þunglyndi, einkenni á borð við depurð yfir nær allan daginn nær alla daga, minni orka yfir daginn, svefnvandamál, pirringur, verri einbeiting og í erfiðustu tilvikum sjálfsvígshugsanir.

Orsök skammdegisþunglyndis er ekki þekkt en þó er talið að breyting í dægursveiflu í tengslum við minnkandi birtu geti valdið því að lundin þyngist. Einnig hefur því verið kastað fram að lækkun á serótóníni, taugaboðefni tengdu vellíðan, og melatóníni, einmitt í tengslum við minna sólarljós,  valdi því. Það fyrra virðist einmitt svara meðferð með svokölluðum SSRI-lyfjum, tegund þunglyndislyfja sem virka á þetta kerfi. Það sem einkennir skammdegisþunglyndið er að það minnkar þegar líður á vor og sumar. Þannig byggist meðferðin á ljósameðferð, áðurnefndum geðlyfjum og sálfræðimeðferð.

Fyrir þá sem kljást við skammdegisþunglyndi er þó ljós í myrkrinu!

Nú styttist í sjálfa jólahátíðina, hátíð ljóss og friðar, stress og kvíða. Margt og mikið sem þá þarf að huga að; hvað skal hafa í jólamatinn, hvaða gjafir þarf að kaupa, átti Gunna frænka að fá gjöf þetta árið eða er hún orðin of stór,  hvenær og hvernig skal skreyta. Önnur og stundum heitari umræða snýst um hvenær byrja megi að auglýsa jólavörur í búðum og að sjálfsögðu það að ekki megi byrja að spila jólalögin í fyrsta lagi 1. desember. Þannig er vaninn mjög sterkur hvað jólin varðar. Það á líka við um jólaljósin, en er það endilega rétt?

Það er ákveðin rómantík í að jólahátíðin sé um miðjan vetur enda lýsa jólaljósin upp dimma skammdegið hér á norðurhveli jarðar. Það er einmitt það sem má velta fyrir sér, hvort ekki megi lengja þennan tíma sem jólaljósin eru uppi. Af hverju að rífa þau niður þegar dimmur janúar er rétt nýbyrjaður. Þó það sé ekkert sannað að jólaljósin hafi einhver áhrif á skammdegisþunglyndið sakar það sannarlega ekki að leyfa þeim að lýsa upp skammdegið, þó ekki sé nema í janúar.

Prófum, breytum til!

 

Páll Óli Ólason

Pistlahöfundur

Páll Óli útskrifaðist úr læknisfræði við Háskóla Íslands sumarið 2017 og lauk kandídatsári í júní 2018. Hann stundar sérnám í bráðalækningum við Landspítala. Hann tók virkan þátt í starfi Vöku fls. í Háskóla Íslands og sat meðal annars sem formaður sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs í Stúdentaráði. Páll Óli sat í Útsvarsliði Árborgar frá árinu 2008-2012. Skrif hans í Rómi snúa helst að heilbrigðismálum og lýðheilsu.