Litla, viðkvæma og óttaslegna karlmennskan

eftir Oddur Þórðarson

Eitt heitasta umræðuefni dagsins í dag er án efa umræðan um femínisma. Umræðan um femínisma hefur svolítið staðið föst í hálsinum á sumum og eru margir sem eiga enn eftir að renna niður þessari hugmyndafræði sem femínismi er. Það sem margir halda um femínisma er að hugtakið sé eitthvað nýtt af nálinni, svo er einfaldlega ekki. Femínismi er sagður hafa, sem hugmyndafræði, verið til svo öldum skiptir og að femínistar dagsins í dag séu hluti af þriðju bylgju femínisma, á eftir þeirri fyrstu og annarri.

Margar ranghugmyndir eru einnig til um hugmyndafræði femínisma, ranghugmyndir sem menga hug sumra karla og þeirra sem streitast í örvæntingu sinni gegn réttmætri þróun kynjajafnréttis í heiminum. Þessar ranghugmyndir byggjast yfirleitt á því að femínismi gangi út að það að gera konur æðri karlmönnum og að karlkynið verði á endanum undir. Þetta er auðvitað alrangt en er samt sannfæring mjög margra. Þessum ranghugmyndum þarf að útrýma svo að þær haldi ekki áfram að leggja stein í götu þeirra sem berjast fyrir jafnrétti kynjana.

Viðhorf karlmanna

Á meðan baráttumál kvenna hafa breyst í gegnum tíðina hefur viðhorf karlmanna breyst hægar. Vissulega eru karlmenn dagsins í dag almennt séð mun opnari gagnvart hugmyndum femínista en karlmenn 19. og 20. aldar en viðhorfið í grunninn er ennþá það sama: Hvað hefur femínismi upp á að bjóða fyrir mig sem karlmann? Karlmenn eiga það sumir til að spyrja sig einhverra slíkra spurninga og er það augljóslega merki um ótta, vantraust og þekkingarleysi gagnvart hugmyndafræðinni allri.  Margir karlmenn trúa því hreinlega bara ekki að hér sé komin hugmyndafræði sem þjóni einhverjum öðrum en þeim og snýst að mestu leyti ekki um vilja þeirra og þrár, heldur vilja og þrár einhverra annarra. Skiljanlega veldur þetta ótta og vantrú hjá karlmönnnum, sem í gegnum rás sögunnar hafa hagað málum þannig að allt snúist um þá og það að aðrir lúti þeirra vilja.

Það er hvimleiður vandi femínista að þurfa í sífelllu að vera að auglýsa feminísma fyrir andfeminískum karlmönnum svo að þeir skilji að femínismi gagnist okkur öllum, ekki bara konum. Þessir karlmenn verða að átta sig á að í aldanna rás hafa það einmitt verið karlmenn sem skapa vandamál kvenna með því að kúga þær, beita þær ofbeldi og hvaðeina. Karlmenn þurfa einfaldlega að líta í eigin barm og taka ábyrgð á þeim mögulega skaða sem samfélagið, sem skapað var í kringum þá, hefur gert konum.

Þegar sagt er að karlmennska sé viðkvæm þá er átt við að karlar óttist aukin umsvif kvenna, vegna þess að það þá missa þeir aldagamla forréttindastöðu sína, en það er einmitt sá ótti sem hægir á öllum framförum kynjajafnréttis í heiminum. Næsta skref í baráttu femínista fyrir jafnrétti er það karlmenn fari í algjöra sjálfskoðun og hugsi með sér hvort andfeminískar tilhneigingar þeirra sumra komi ekki niður á einhverjum fleirum en konum, þeim sjálfum jafnvel.

Karlmennskan

Í stað þess að átta sig á því að stundum sé enginn að sækjast eftir áliti þeirra þá eiga sumir karlmennn það oft til að hrútskýra, grípa fram í og snúa út úr fyrir konum af einhverjum ótta við að vera ekki nógu miklir karlmenn. Að sama skapi er sumum karlmönnum það ekki auðvelt að axla ábyrgð og mótmæla andfeminískri hegðun kynbræðra sinna af hræðslu við að missa virðingu annarra karlmanna.

Karlmennska er eitt af því viðkvæmasta sem til er og því þarf að breyta. Séu sumir karlmenn uppnefndir hommar eða faggar þá fara þeir alveg í kerfi vegna þess að þeir vilja sko alls ekki líta út fyrir að vera kvenlegir eða hommalegir, hvað sem það nú þýðir. Þegar sumir karlmenn eru sagðir vera lélegir bílstjórar, lélegir grillarar eða óhæfir í almennu viðhaldi heima við þá er eins og himinn og jörð farist en á sama tíma þykir þeim eðlilegt og jafnvel merki um sanna karlmennsku að segja að konur séu lélegir bílstjórar, grillarar eða að þær séu með lélegt smiðsauga. Til eru óteljandi dæmi um að karlmenn sem óttast að vera úthrópaðir kerlingar fyrir það eitt að hafa áhuga á einhverju sem ekki telst karlmannlegt að hafa áhuga á. Þetta leiðir auðvitað til þess að margir karlmenn breyta hegðun sinni til að þóknast öðrum karlmönnum sem skapar vítahring bældra tilfinninga, minni lífsfyllingar, geðrænna vandamála og hugsana um sjálfsskaða.

Tilhneiging flestra karlmanna til þess að tjá ekki tilfinningar sínar skapar einnig gríðarleg vandamál fyrir karlmenn og þá sem standa þeim nálægt. Þetta viðhorf í samfélagi karla um að karlmenn megi ekki gráta, tala um vanlíðan sína og þunglyndi eða jafnvel finna til samkenndar með öðrum er viðhorf sem þarf að breytast hratt.

Það þurfa allir að átta sig á því að „karlmennska“ sem hugtak er gallað, úrelt, mengað hugtak sem á heima á ruslahaugum sögunnar. Konur og menn eiga að vera jafningjar bæði fyrir landslögum og á vinnumarkaði, en ekki síður í hugum okkar allra og í gjörðum okkar. Hættum að segja að konur séu hitt og þetta og að karlar séu ekki alvöru karlmenn nema þeir geri hlutina svona eða hinsegin. Karlmenn verða að vera duglegri við að líta í eigin barm og spyrja sjálfan sig hverjum þeir eru raunverulega að þóknast þegar þeir bæla niður tilfinningar sínar, tala niður til kvenna eða gera sér upp áhuga á „karlmannlegum“ hlutum.  

Mesta hræsnin er svo kannski að ég, undirritaður, er karlmaður. Hér er ég, karlmaður, að segja hvernig aðrir eiga að hugsa og hvernig aðrir eiga að haga sér og þar með gríp fram í fyrir konum í þeirra baráttu fyrir jafnrétti. Svo er sennilega enn meiri hræsni að ég óttist að vera ekki álitinn nægilega mikill karlmaður með þessum skrifum mínum um femínisma.  Mesta hræsnin væri þó fólgin í því að hugsa um að skrifa þessa grein en gera það svo ekki og þar með samþykkja viðvarandi ástand í samfélaginu.

Ég sagði áðan að karlmenn þyrftu að líta í sinn eigin barm og axla ábyrgð á sinni hegðun. Núna ætla ég því að færa ábyrgðina  í hendur allra andfemínískra karlmanna í heiminum og biðja þá um að spyrja sig ekki hvað femínismi hafi upp á að bjóða fyrir þá, heldur hvað hafa þeir upp á að bjóða fyrir femísnima – bæði í þágu jafnréttis og ekki síður í þeirra eigin þágu.

 

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.