Líknardráp – dauðans alvara

eftir Elís Orri Guðbjartsson

Klukkan er að ganga hádegi á friðsælum sunnudagsmorgni, fjórtánda júní síðastliðinn, og ég sit rósamur við eldhúsborðið með rjúkandi heitan kaffibolla. Ég dreypi á kaffinu, fletti blöðum og horfi út um gluggann, blíðskaparveður var til tilbreytingar í borginni og ekki ský á himni. Síminn hringir, og er móðir mín á hinni línunni. Röddin titrar er hún segir mér að amma mín hafi dáið um morguninn. „Elsku mamma,“ segi ég meyr og votta henni samúð mína er ég heyri tárin falla. „Mikið er yndislegt að hún hafi loksins farið yfir móðuna miklu,“ bæti ég við, ekki af því að okkur ömmu kom illa saman, þvert á móti, heldur var langþráður draumur hennar, að deyja, orðinn að veruleika.

Amma greindist með Alzheimer árið 2007, er hún var nýorðin sjötug, og hafði því glímt við sjúkdóminn í átta ár áður en hún lést. Fyrst um sinn var lítinn mun á henni að sjá; fágaðri og virðulegri konu höfðu augu mín aldrei litið, með óbilandi sjálfstraust, heilsteypt í gegn, lífsglöð og geislandi. Það var því sorglegt ferli að fylgjast með persónuleika hennar koðna niður eins og visnað gras, og horfa djúpt í tómleg augu sem áður brunnu af lífsþrótti og ástríðu. Síðustu árin var amma mín fangi í eigin líkama, vissi hvorki í þennan heim né annan, ófær um að sjá um sig sjálfa og átti þann draum heitastan að deyja – með reisn.

Hvað er líknardráp? – Kostir og gallar

Líknardráp, eða beinn líknardauði, hefur verið skilgreint sem sá verknaður að binda enda á líf af ásetningi, að beiðni sjúklings, þar sem hann er að deyja úr banvænum sjúkdómi, í líknandi skyni vegna óbærilegra ómeðhöndlanlegra þjáninga.

Helstu rökin, sem reifuð hafa verið með líknardrápi, eru af tvennum toga; mannúðarrarrök, þ.e. að það sé sjúklingi fyrir bestu að deyja, og réttindarök, þ.e. að sjúklingurinn ráði yfir eigin lífi og dauða.

Samkvæmt mannúðarrökunum er líknardráp réttlætanlegt í þeim tilvikum þegar athöfnin er sjúklingi og fjölskyldu hans fyrir bestu og brýtur ekki á rétti neins. Það sé mannúðlegra að binda enda á þjáningar sjúklinga, þegar ekkert annað en kvalafullur dauðdagi er framundan. Samkvæmt réttindarökunum er líknardráp réttlætanlegt ef athöfnin er í samræmi við skynsamlega hagsmuni sjúklingsins, sem metnir eru á hans eigin forsendum, framkvæmd að hans ósk og skaðar ekki aðra. Sjálfræði einstaklingsins er þannig í hávegum haft – við stjórnum lífi okkar og ættum að geta valið að binda enda á það, séum við hæf til þess.

Helstu rökin sem reifuð hafa verið gegn líknardrápi eru aftur á móti þau að líknardráp brjóti gegn grundvallarlögmálum læknisfræðinnar, þ.e. þeirri skyldu heilbrigðisstarfsfólks að vernda lífið og virða það, og að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk, sem menntar sig til að halda fólki á lífi, séu neydd í hlutverk böðla, sem taka líf í stað þess að vernda það, og þá skyldu sé ekki hægt að leggja á nokkurn mann.

Ákvörðunar(ó)frelsi

Samkvæmt 21. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga ber sjúklingur ábyrgð á heilsu sinni eftir því sem það er á hans færi og ástand leyfir, líkt og réttindarökin segja til um. Samkvæmt 23. og 24. gr. sömu laga skal lina þjáningar sjúklings eins og þekking á hverjum tíma leyfir og eiga dauðvona sjúklingar rétt á því að deyja með reisn, rétt eins og mannúðarrökin segja til um.

Ríkjandi löggjöf er líknardrápi þungur ljár í þúfu. Í dag er athöfnin andstæð meginreglum refsiréttarins, þ.e. að refsivert sé að drepa annan mann, sbr. 211. gr. almennra hegningarlaga, svipta annan mann lífi þrátt fyrir beiðni hans, sbr. 213. gr. sömu laga, og stuðla að því að annar maður ráði sér sjálfum bana, sbr. 214. gr. áðurnefndra laga.

Sé einhver vilji sterkastur þá er það lífsviljinn. Það vilja allir heilbrigðir einstaklingar lifa, og sést það einna best í því hversu ötullega einstaklingar, sem eiga lítið sem ekki neitt, berjast í bökkum, þó þeir stefni ekki endilega á að brjótast úr fátækt í bjargálnir heldur einungis að næstu sólarupprás.

Líknardráp á alþjóðavísu

Í Benelux löndunum þremur, Belgíu, Hollandi og Lúxemborg, eru líknardráp heimiluð, einungis að vilja þess sem deyr, þar sem læknir gefur banvæna lyfjagjöf í æð, en aðstoð við sjálfsvíg eru einnig leyfileg. Áður en líknardrápið er framkvæmt í Hollandi þarf læknirinn að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

1) Að hann sé sannfærður um að beiðni sjúklingsins sé sjálfviljug og ígrunduð.

2) Að hann sé sannfærður um að þjáning sjúklingsins sé viðvarandi og óbærileg.

3) Að hann hafi upplýst sjúklinginn um ástand hans og horfur.

4) Að hann og sjúklingurinn séu sannfærðir um að engin önnur skynsamleg lausn sé til á ástandi hans.

5) Að hann hafi ráðfært sig við að minnsta kosti einn annan, óháðan lækni sem hefur séð sjúklinginn og veitt skriflegt álit um skilyrði 1-4.

6) Að hann stytti sjúklingnum aldur eða aðstoði hann við sjálfsvíg með viðeigandi líkn.

Auk Benelux landanna hafa Sviss, Kólumbía, Japan og fimm fylki Bandaríkjanna, Oregon, Vermont, Washington, California og Montana, tekið þann pól í hæðina að leyfa aðstoð við sjálfsvíg, sem er stórt og mikilvægt skref í áttina að því að heimila líknardráp.

Ef rýnt er í tölfræði frá Oregon og Washington fylkjum í Bandaríkjunum og Sviss má sjá að að sjúklingum sem vilja hafa stjórn á síðustu andartökum lífsins og kveðja á sínum forsendum hefur farið stigvaxandi frá ári til árs, og því næg eftirspurn eftir aðgerðum.

Þorri Íslendinga hlynntir líknardrápi

Árið 2001 voru tæplega helmingur landsmanna, eða 46%, fylgjandi því að lögum um líknardauða yrði breytt, á meðan þriðjungur voru mótfallin breytingunum, samkvæmt könnum PwC.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og nú segjast 75% Íslendinga hlynnt því að einstaklingar geti fengið aðstoð við að binda endi á líf sitt sé hann haldinn ólæknandi sjúkdómi, og einungis 7% andvíg.

Síðasti naglinn í kistuna

Umræðunni um líknardráp hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu fimmtán árum og umræðuna ætti að taka alvarlega og ræða á opinn og fordómalausan hátt. Er munurinn á athöfn og athafnaleysi það mikill? Hvernig getur það að stöðva meðferð verið siðferðislegra réttlætanlegra en að aðstoða fólk við sjálfsvíg? Einnig má ræða túlkun læknisfræðinnar og heilbrigðisstarfsfólks á sínu hlutverki og hvort lokaskeið lífsins eigi að vera læknisfræðilegt viðfangsefni í þeim mæli sem tíðkast í dag, frekar en sem virðingarvert lokaskeið í lífshlaupi einstaklings. Deilan hefur fyrst og fremst snúist að því hvort virða eigi sjálfstæði og óskir sjúklinga, sem biðja um að fá að deyja með reisn, eða hvort ríkið sé betur til þess fallið að taka ákvarðanir fyrir þá.

Forsenda þess að líknardráp geti verið framkvæmt hér á landi, jafnt sem annars staðar, er góð og öflug heilbrigðisþjónusta. Við lögleiðingu líknardráps þarf að tryggja að möguleikinn á misnotkun verði lítill sem enginn, því það gefur auga leið að það er margt sem þarf að hafa í huga. Óhóflegt álag á heilbrigðisstarfsfólk getur skapað hættu og ógnað öryggi sjúklinga en sé líknardrápi settar fastar skorður er hægt að forða sjúklingum, fársjúkum af lífshamlandi og frelsisskerðandi sjúkdómum, eins og t.d. Alzheimer, frá sífelldri vanlíðan. Amma mín heitin óskaði þess í mörg ár að fá að deyja á eigin forsendum í faðmi fjölskyldu, umvafin ást og umhyggju, en þess í stað hélt martröðin, lífið, áfram á hverjum einasta morgni er hún opnaði augun, óviss um hver eða hvar hún væri.

Líknardráp lýsir þannig ekki ómanneskjulegu samfélagi, heldur þvert á móti. Það að sjúklingar kjósi að lina þjáningar sínar, jafnt sem fjölskyldu sinnar, og fara yfir móðuna miklu á eigin forsendum ætti að vera undir hverjum og einum komið – en ekki í höndum stjórnvalda.
Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Elís Orri Guðbjartsson

Pistlahöfundur

Elís Orri er meistaranemi í alþjóðastjórnmálum við London School of Economics (LSE). Hann tók virkan þátt í stúdentapólitíkinni í Háskóla Íslands og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, bæði f.h. Röskvu og Stúdentaráðs, ásamt því að sitja í stjórn ungliðahreyfingar stjórnmálaflokks. Hann er nautnaseggur af bestu gerð og nýtur sín best í góðra vina hópi, sérstaklega með rauðvínsglas í hönd.