Lifi skógræktin

eftir Björn Már Ólafsson

Eitt helsta kennimerki Íslands í dag er hversu bert landið er. Það sést vel á hráu umhverfinu og óbyggðu hálendi en lýsir sér líka í afar vindasömu loftslagi. Um 1% af landinu er í dag þakið skóglendi. Sjálfur ólst ég upp að hluta til í Noregi og enn í dag sakna ég þess að hafa skóginn og öllu því sem honum fylgir í næsta nágrenni. Útivistin, loftið og kyrrðin. Allt eru þetta kostir sem fylgja skóginum.

Þess vegna gladdi það mig mjög í síðasta mánuði þegar ákveðið var undirbúa gerð loftslagsskógs á Mosfellsheiðinni. Er ætlunin að gera Mosfellshæðina og aðliggjandi svæðin við Esju og að Suðurlandsvegi að skógi með skógrækt. Loftslagsskógur merkir það þegar skógrækt er nýtt til þess að binda sem mest kolefni á 40-60 árum og skógurinn að því loknu nýttir af eigendum landsins. Er stefnt að því að rækta kolefnisfrekar tegundir og þannig binda allt að 5-7 tonn á hektara á ári af kolefni.

Skógrækt á Íslandi hefur ótal kosti og það sem betra er, kostirnir eru margir þannig að þeir auka beinlínis lífsgæði á landinu með áþreifanlegum hætti. Með skógrækt getum við bundið koltvísýring í loftinu og þannig dregið úr gróðurhúsaáhrifum í heiminum. Gróðurhúsaáhrifin geta til framtíðar haft gríðarleg áhrif á loftslagið í heiminum og er Ísland ekki undanskilið. Öfgafyllra veður verður ólíklega til þess að bæta lífsgæði á Íslandi. Þá getur skógrækt dregið úr vindi ef ræktað er á réttum stöðum. Skjólbelti umhverfis Reykjavík, sérstaklega austan megin við borgina m.a. í kringum Rauðhóla, geta hægt á ríkjandi vindáttum og í raun ótrúlegt að slík uppgræðsla sé ekki enn stærri þáttur í borgarskipulagi en raun ber vitni.

Skógi vaxin útivistarsvæði eru líka eftirsóknarverð og engin breyting verður á því næstu áratugina. Gefa slík svæði aðra reynslu en þau útivistarsvæði sem Ísland býr yfir í dag og eru þau góður staður fyrir börn og fullorðna. Skógrækt á svæðum þar sem skíða- og vetraríþróttir eru stundaðar getur dregið úr vindi (sem er einn helsti steinn í götu íþrótta á borð við gönguskíði). Skógrækt við skíðabrekkur getur sömuleiðis gert skíðasvæðum kleift að hafa opið fleiri daga á ári. Síðan bætir góður skógur skíðaupplifun þeirra sem þora að skíða í skógi. Áður en ég fæ yfir mig holskeflu af spurningum þá er lykillinn að því að fara alltaf með skíðin sömu megin við trjástofninn.

Á Íslandi eru vissulega ekki kjöraðstæður fyrir alla skógrækt. Veður og vindar ráða því að margar tegundir vaxa hægt hér á landi og jarðvegurinn er víðast með þeim hætti að ekki er hægt að rækta stór tré líkt og þau sem við sjáum á Norðurlöndunum. En nýting víðfeðmra svæða á Íslandi er lítil í dag og fer minnkandi með minnkandi beit. Sú þróun gerir það að verkum að við getum dregið enn fremur úr losun gróðurhúsalofttegunda með framræstu votlendi. Vonandi fara þessar hugmyndir um framræstingu votlendis og gerð loftslagsskóga að komast í framkvæmd sem fyrst.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.